Þjónusta við eldra fólk.

Í fréttum hafa komið fram upplýsingar um að sumt eldra fólk þjáist af næringarskorti. Ekki hefur verið gefin viðhlítandi skýring á þessu.

Ástæða þess að ekki hefur verið gefin fullnægjandi skýring á þessu ástandi hjá eldra fólki er skortur á yfirsýn þeirra aðila sem fjallað hafa um vandamálið.

Samkvæmt upplýsingum er borist hafa frá aðilum er reynt hafa að nýta sér þjónustu við eldri borgara hvað varðar að fá sendan heim mat, þegar aðilar hafa ekki fulla starfsorku til að annast eigin matargerð að öllu leyti, kemur margt í ljós um næringarskortinn.

Ef upplýsingar eru réttar varðandi matarræði sem eldra fólki er boðið upp á í svokallaðri samfélagsþjónustu liggur ástæða næringarskorts öllum opinn.

Matur sem boðið er upp á er í of mörgum tilvikum all undarleg samsuða sem eldra fólk er ekki vant að neyta. Svo virðist sem stjórnendur samfélagsþjónustunnar hafi lítið eða ekkert eftirlit með því sem boðið er upp á eð hafi minni þekkingu á því sem gert er en starfsmenn þeirra.

Það þarf að taka fullt tillit til þess að Íslendingar hafa haft sína matarsiði í hundruðir ára og mannskepnan er stundum sein að tileinka sér nýungar. Af fréttum af því sem boðið er upp á í heimsendum mat til eldri borgara er talsvert um það að boðið sé upp á framandi rétti sem hafa verið innfluttir með innflytjendum. Matargerð sem eldri Íslendingar eru ekki mikið hrifnir af.

Heyrst hefur að við matargerð séu erlendir matreiðslumenn sem freistast til að matbúa samkvæmt hefðum og siðum ættjarða sinna eða eru hugmyndaríkir og vilja sýna kunnáttu sína. Í mörgum tilvikum eru þessar nýjungar í matargerð illa séðar hjá eldra fólki sem hefur alist upp við íslenskan mat og þykir hann góður.

Sem dæmi um illa séðar nýungar í matargerð fyrir eldra fólk eru margs konar PASTA-réttir sem eru framandi, notkun á fjölda kryddtegunda sem fólki er framandi og fellur ekki vel í bragðlauka allra að ógleymdu þeirri nýjung, er komið hefur fram, að bera á borð fyrir eldra fólk soðið hangikjöt með brúnni sósu. Sósu/soð sem gerð er úr kjötkrafti af nautum og lapþunn eins og vatn.

Slíkar nýjungar í matargerð eru óásættanlegar og er stjórnendum heimaþjónustu fyrir eldra fólk, hvað varðar matargerð, til vansa á meðan eldra fólki er ekki boðið upp á að velja á milli nýunga í matargerð (nýrra siða við matargerð) og hefðbundinnar íslenskrar matargerðar.

Framandi siðir eða ósiðir sem eldra fólki er boðið upp á í matargerð er ekki til að bæta úr næringarskorti hjá eldra fólki. Er nauðsyn til þess að huga vel að því hvað er í boði varðandi mat sem ætlaður er eldri Íslendingum sem vanist hafa ákveðnum gömlum siðum í matargerð. Margt eldra fólk á Íslandi er nægjusamt og lítið fyrir að kvarta og gengur því svangt frá matarborði þar sem framandi matur og framandi krydd eru á borðum.

Reykjavík 20. desember 2016

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

kaldur matur í kássu í pappaboxi er ekki mönnum bjóðandi !

Erla Magna Alexandersdóttir, 20.12.2016 kl. 13:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband