Haldleysi laga frá Alþingi

Enn og aftur kemur í ljós stefnuleysi eða vanþekking alþingismanna á lagasetningu.

Flestum er kunnugt um ákvæði laga er snerust um þátt í náttúruvernd er snerist upp í andhverfu sína við upphaflegt markmið þegar tók að reyna á lagahliðina. Sambærilegt hefur gerst með réttarkerfið. Hver silkihúfan af annarri er prjónuð á réttarkerfið án þess að ná tilgangi sínum með fullkomnari réttarvitund þeirra sem skipaðir eru til starfa innan réttarkerfisins.

Þegar í ljós kom að þjónar réttarkerfisins stóðu sig ekki í því að halda uppi mannréttindum í landinu með tvískiptingu dómsvaldsins var farið út í það að setja á stofn for-dómstóla í formi nefnda sem áttu að úrskurða um lagalega þætti aðgerða fólks í samskiptum sín í milli sbr. lög um túlkun á fjöleignahúslögum. Var þar komið þriðja dómsstig í ákveðnum málum.

Um tíma hafði Hæstiréttur það hlutverk að úrskurða um eigið ágæti í sambandi við endurupptöku mála. Ef málsaðili taldi agnúa á niðurstöðu Hæstaréttar gat hann sót um endurupptöku máls. Var það mjög fátítt að Hæstiréttur heimilaði endurupptöku máls og þar með að dómarar hefðu gert mistök við dómsuppkvaðningu. Var þar um að ræða sama hugarfar og andlegt ástand við aðra lögbrjóta að þeir hafi ekki gert neitt rangt.

Vegna óánægju almennings með sjálfdæmi Hæstaréttardómara í eigin mistökum var sett á stofn nýtt embætti og kallað Endurupptökunefnd. Þeir sem skipaðir voru í umrædda nefnd voru allir kandídatar að störfum Hæstaréttardómara og höfðu það að markmiði að hvítþvo öll störf dómara þar sem þeir gætu hugsanlega orðið sjálfir fyrir gagnrýni seinna meir kæmust þeir í stöðu dómara.

Í öllu þessu brölti með réttarkerfið kom upp sú staða að atvinnuleysi varð í stétt lögmanna. Til að bregðast við því og skapa atvinnu fyrir mislukkaða stefnu í menntamálum landsmanna og offjölgun menntamanna úr Háskólum þurfti að skapa fleiri störf í réttarkerfinu. Þetta leiddi fram á sjónarsviðið hugmyndina um að fjölga dómstigum úr þremur í fjögur. Þar sem ekki skyldi hróflað við Hæstarétti né undirrétti væri upplagt að koma á nýju millidómsstigi til að gera þegnunum erfiðara fyrir að fá heiðarlega túlkun á tilgangi og túlkun orðanna hljóðan í lögum (véfréttum) settum af Alþingi.

Spekingunum á Alþingi hugkvæmdist ekki að leggja meiri vinnu í að gera lög settum af Alþingi þannig úr garði gerð að ekki þyrfti fjór- eða fimmskipt dómskerfi (úrskurðanefndir, héraðsdómur, millidómsstig, Hæstiréttur og Endurupptökunefnd) til að túlka véfréttirnar sem kölluð eru lög og koma frá misvitrum alþingismönnum. Væri alþingismönnum nær að hætta að lítilsvirða hvorir aðra með hnjóðsyrðum í sjónvarpsútsendingum og huga að þeim störfum sem þeim hafa verið falið að sinna, sem er lagasetning. Lagasetning sem á að vera á skiljanlegu máli og á ekki að vera hægt að túlka á marga vegu eftir því hvort um er að ræða lagaþrasara úr Háskóla eða hinn almenna borgara.

Nú er komin upp sú staða að svokölluð Endurupptökunefnd með dómarakandídötunum sem starfsmönnum hefur ekki notið þeirra vinsælda sem gert var ráð fyrir þegar Hæstiréttur var leystur frá sjálfdæmi í eigin mistökum. Óánægjan með störf dómarakandídatanna í Endurupptökunefnd hefur leitt fram nýja hugmynd um fimmta dómstigið. Þetta dómsstig á að verða æðsta skúringardeild réttarkerfisins og skipað á sama hátt og aðrir þættir réttarkerfisins í anda samtryggingar innan réttarkerfisins. Dómstóll er sker úr um það hvort dómsmál verði endurupptekið eða ekki.

Af hálfu Alþingis er ekkert gert til að gera réttarkerfið þannig úr garði að það þjóni réttlæti fyrir þegnana. Öll starfsemi Alþingis miðast að því að halda uppi atvinnu fyrir lögmenn og óskýrleika laganna svo hægt sé að túlka þau eftir þörfum á hverjum tíma. Upphaflegi tilgangur með stofnun Alþingis var að setja reglur er lutu að samskiptum þegnanna svo komast mætti hjá átökum (vígum). Það var ekki meiningin að þegnarnir þyrftu að standa í fjárútlátum til að eðlileg samskipti manna gætu þróast.

Í öllu þessu brölti löggjafans er tilgangurinn ekki að bæta réttarkerfið og þar með réttaröryggi þegnanna. Megin tilgangurinn virðist vera að alþingismenn geti áfram sent frá sér tilgangslausar eða tilgangslitlar véfréttir sem kölluð verða lög og hægt að túlka þau á jafn marga vegu og þegnarnir eru margir.

Það eina sem nauðsynlegt er að gera er að lög verði það skýrt orðuð að þegnarnir þurfi ekki að standa í stórum fjárútlátum, til atvinnubótavinnu lögmanna, til að fá fram hvað misvitrir alþingismenn meintu með illa orðuðum lögum (véfréttum) sem í sumum tilvikum snúast upp í andhverfu sína.

Meinsemdin í íslensku réttarkerfi eru þau að í störf dómara hafa í sumum tilvikum valist misvitrir menn ef ekki vanvitar eins og fjöldi dómsniðurstaða (utan-laga-dóma) þeirra hefur sýnt. Þrátt fyrir skriflegar sannanir fyrir svívirðingu dómara á réttarkerfinu er samtrygging slík innan kerfisins að leiðréttingar hafa ekki fengist þótt viðurkennt sé að ekki hafi verið farið að lögum af hálfu dómara.

Reykjavík 26. maí 2017

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri


Bloggfærslur 26. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband