18.5.2024 | 11:27
Tungumálið íslenska og fjölmiðlafólk.
Íslenskt mál er brotið niður af vanhugsandi fjölmiðlafólki og viðmælendum þeirra sem með vanhugsuðum orðum sem í aldanna rás hefur haft aðra merkingu en nútíma fjölmiðlafólk vill hafa.
Er þar fyrst að nefna orðin geggjað og geðveikt gaman. Þessi orð hafa verið tengd við andlega vanheilsu og haft neikvæða merkingu. Nú eru þessi orð með nýja merkingu og eiga að tákna eitthvað stórfenglegt. Er þetta vísbending um niðurbrot íslenskrar tungu og eyðilegging á gömlu máli sem Íslendingar hafa verið stoltir af. Með sömu öfugþróun í merkingu orða sem þróast hefur síðustu ár er Íslenskan glötuð.
Mest áberandi um geggjað fólk eru þeir sem stunda íþróttir því þar virðist allt vera geggjað eða það sé geðveikt gaman.
Að auki má benda á bullorða notkun fjölmiðlamanna og ekki síst þeirra sem flytja veðurfregnir að tala sífellt um KORT þó ekki sé nein vitræn merkin í þeim boðskap.
Í veðurfréttum er sífellt tuðað um að þessi og hin veðrabreytingin sé í kortum og gömul og gróin orðasambönd eins veðurhorfur og veðurútlit eru orðin að korti í munni veðurfræðinga. Ekki er þar með lokið öllu um kortabullið því í fréttum er farið að tala um flestar fyrirhugaðar framkvæmdir eða aðgerðir að þær séu í kortunum. Er þar svo komið að fréttir eru orðan lítt eða ill skiljanlegar því allt er í kortum.
Einn ósómi fréttamanna er þegar þess er getið að hitt og þétta sé í pípunum sem er álíka vanhugsað og að snúa málum í kort.
Íslenskt sjónvarp og fréttamiðlar eiga að vera hornsteinn tungumálsins íslensku. Áður voru sérstakir eftirlitsaðilar hjá fjölmiðlum sem fylgdust með því að málfarsbull færi ekki í gegn en svo virðist sem slíkt sé aflagt.
Er það einnig undarlegt að íslenskufræðingar þegja þunnu hljóði því sumir þeirra segja hreint út að bullið sem fram kemur sé þróun málsins. Þróun málsins er eðlileg með tilkomu nýrra orða með þróun tækninnar en það er öfugþróun þegar merking orða verður allt önnur en sú merking sem orðin höfðu í íslenskri tungu sbr. geðveiki og kort.
Væri gott að heyra frá eða geta lesið athugasemdir íslenskufræðinga um þessa bullorða framsetningu fjölmiðlafólks.
Eru þeir sem þykjast berjast fyrir varnir íslenskrar tungu sáttir við merkingar bull gamalla íslenskra orða eins og fram hefur komið í fjölmiðlum (útvarpi, sjónvarpi og prentmiðlum)?
Reykjavík 18. maí 2024
Kristján S. Guðmundsson
Fv. skipstjóri
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)