11.9.2014 | 11:35
Okurstarfsemi íslenskra banka.
Með vísan til ábendingar frá neytendasamtökunum, sem birtist í fjölmiðlum, um gjaldtöku fyrir úttekt á peningum af bankareikningum einstaklinga sem bankarnir ætla að krefjast er rétt að geta eftirfarandi.
Það voru stjórnendur bankanna sem þvinguðu atvinnurekendur og launþega til að undirgangast kröfu bankanna að öll laun launþega yrðu lögð inn á bankareikninga starfsmanna. Var þetta gert til að falsa útkomu hjá hinum mörgu útibúum sem voru á þeim tíma. Gekk þetta svo langt að leyfi fyrir rekstri á bankaútibúi var háð því að velta útibúsins væri yfir tiltekinni fjárhæð.
Þetta varð til þess að Landsbankinn eða stjórnendur hans þvinguðu stjórnendur H.f. Eimskipafélags Íslands til að leggja laun starfsmanna inn á bankareikninga í útibúi Landsbankans
er stofnað var við Laugaveg 5-7 eða 9.
Var þetta slíkt óhagræði fyrir starfsmenn að þurfa að sækja laun sín í þetta útibú þar sem engin bílastæði voru við Laugaveginn og öll aðkoma óþægileg fyrir launþeganna.
Sambærileg þvingun var ennfremur framkvæmd af hálfu S.Í.S. Sambandi Íslenskra Samvinnufélaga sem þvinguðu starfsmenn sína til að sækja laun sín til sparisjóðs sem var stofnaður sérstaklega til að ná í veltufé fyrir SAMBANDIÐ. Fékk hann nafnið Samvinnusparisjóðurinn.
Einnig áttu sér samskonar þvinganir hjá öðrum sparisjóðs- og bankastofnunum. Launþegar létu þetta yfir sig ganga því það var ekkert afl í þjóðfélaginu til stuðnings við þá sem voru andvígir þessum þvingunaraðgerðum.
Ekki var það til hagsbóta fyrir launþega þessar þvingunaraðgerðir því vextir af þeim fjármunum sem lágu inni á þessum reikningum voru litlir sem engir.
Þessi þvingunaraðgerð var aftur á móti stór gróði fyrir fjármálafyrirtækin því alltaf lágu stórar fjárhæðir inn á reikningum margra. Þetta fjármagn sem lá inni á reikningum einstaklinga lánuðu bankastofnanir fimm sinnum hverja krónu til framkvæmdaaðila með þreföldum eða fjórföldum vöxtum sem einstaklingur, eigendur fjármagnsins, fengu fyrir sitt fé. M.ö.o. að fengi launþeginn 2 kr. í vexti á ári af 100 krónu inneign fékk bankinn 6-8 krónur af hverjum 100 krónum í útláni auk margs konar kostnaðarliða.
Um 20 árum seinna kom nýtt inn í starfsemi banka eða lánastofnana svokölluð kreditkort.
Kortum þessum var lætt inn með margs konar gylliboðum og fengu þeir sem voru útvaldir af þessum stofnunum slík boð. Þessa þjónustu fengu menn ókeypis á meðan neytendur voru að ánetjast þessari þjónustu. Þegar þetta hafði verið við lýði í nokkur ár án gjaldtöku brá svo við að þetta var orðin óhagstæð starfsemi hjá bönkunum að mati stjórnenda og farið að krefjast umtalsverðra greiðslna fyrir þjónustuna.
Það skal viðurkennt að þessi þjónusta veitti ákveðin þægindi fyrir einstaklinga en var jafnframt gróðabrall lánastofnana. Lánastofnanir kröfðust þess að svokölluð bankaviðskipti (innlánsreikningar) yrðu hjá þeim sem gáfu út kortin. Þar með var tryggt peningaflæði hjá stofnuninni.
Kostnaður við kreditkort eða debetkort hefur hækkað mikið án þess að viðunandi skýringar hafi fengist aðrar en okur bankastofnana og gróðabrall stjórnenda þeirra. Okurstefna stjórnenda banka og sparisjóða hefur fært þeim milljarða í tekjur umfram allan kostnað við reksturinn og sýnir það hvers konar fjárplógsstarfsemi á sér stað hjá þessum fyrirtækjum. Gróði hvers banka hefur verið milli 8 - 10 milljarðar á ári.
Þessi fjárplógsstarsemi hefur ekki skilað stjórnendunum bankanna nægum gróða til að hækka ofurlaun þeirra enn þá meir en þegar er orðið.
Góðir Íslendingar það styttist í það að bankarnir krefjist greiðslu fyrir að geyma sparifé ykkar og því er kominn tími til að launþegar taki út allt sitt sparifé til að sýna stjórnendum þessara fyrirtækja (banka) að þeir gangi of langt í sinni okur stefnu. Íslendingar ættu að huga að því að með okurstarfsemi bankanna er verið að greiða fyrir það tap sem varð í bankastarfseminni (bankahruninu) með innanbúðar bankaránum í bönkunum.
Ekki má gleyma því sem viðskiptaheimurinn kallar þjónustugjöld sem leggjast ofan á reikninga sem stofnanir og fyrirtæki senda. Er ekki hægt að líta á þennan þjónustukostnað nema sem þjófnað þar sem söluaðilum vöru og þjónustu ber skylda til að gefa upp verð með virðisaukaskatti og er það endanlegt verð þjónustunnar. Hin svokölluðu þjónustugjöld má líta á sem beinan þjófnað.
Því miður er það svo að græðgin verður of oft ráðandi afl hjá sumum stjórnendum og því þörf á að tukta þá til áður en önnur kollsteypa verði með nýjum innanbúðar bankaránum í íslenskum fjármálaheimi.
Viðvörun neytendasamtakanna sem áður er minnst á er tímabær og rétt að taka alvarlega. Er því tímabært og nauðsyn á að stoppa þá óheillaþróun sem stjórnendur bankastofnana hafa boðað með hinni nýju gjaldtöku.
Að auki er rétt að minnast á það að með notkun plastkorta (kreditkorta og debetkorta) er stóri bróðir (stjórnvöld) að fylgjast með öllum gjörðum einstaklinga er snerta verslun og viðskipti er fara í gegnum bankabókhaldið og þar með kortanotkun einstaklinga.
Kristján S. Guðmundsson
Fv. skipstjóri
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.