13.1.2015 | 14:56
Verðtryggð lán og endurreikningur á skuld.
Íslenskir skuldarar verðtryggðra lána frá því fyrir bankaránin er framin voru, fyrir október 2008, hafa flestir fengið upplýsingar um það hvað þeim er boðið upp á að kröfurnar verði lækkaðar með hliðsjón af yfirlýsingu Framsóknarmanna fyrir síðustu kosningar.
Eftir að niðurstöður lágu fyrir frá þeim aðilum er fengið var það verkefni að endurmeta verðhækkun umræddra lána er rekja megi beint til umrædds bankahruns hefur skuldendum verið boðið upp á að samþykkja umrædda útreikninga á grundvelli niðurstaðna er hverjum skuldanda hefur verið sendur í tölvupósti. Sett er skilyrði að samþykkt verði með svokölluðum rafrænum skilríkjum.
Þeir sem ég hef rætt við hafa fengið upplýsingar um það hvað það er há upphæð er viðkomandi stendur til boða að skuldin verði lækkuð ef viðkomandi samþykki það sem stendur til boða.
Þar sem engar upplýsingar fylgja með hvaða forsendur eru lagðar til grundvallar niðurstöðu nefndarinnar eða þeirra sem vinna að útreikningum á lækkun þá veit viðkomandi skuldari ekkert um hvað hann er að samþykkja nema upphæðina sem birt er.
Hafa flestir skuldarar verið ánægðir með að fá lækkun skuldarinnar án þess að geta gert sér neina grein fyrir því hvort umrædd lækkun sé í samræmi við lækkun annarra að teknu tilliti til skuldarfjárhæðarinnar við hrunið.
Með ö.o. að ekki er hægt fyrir skuldendur að gera sér neina grein fyrir því hvort sanngirni hafi ráðið niðurstöðunni eða happa og glappa aðferð rússneskrar rúllettu hafi ráðið ferðinni.
Staðreyndin er sú að ekkert samræmi er í afgreiðslu málanna með vísan til þess að skuld eins í október 2008 er ekki sambærileg við skuld annars manns í október 2008. Er um að ræða geðþótta ákvarðanir og hanteringar þeirra sem unnið hafa að svokölluðum leiðréttingum á lánunum án nokkurs samræmis á skuldastöðu einstaklinganna. Er lítið eða ekkert samræmi á milli fjárhæðar á lækkun skulda með vísan til skuldastöðu einstaklinganna. Ef tveir eða fleiri aðilar skulduðu svipaða fjárhæð við hrunið er ekkert samræmi í lækkun skuldafjárhæðar á milli aðila með hliðsjón af skuldarfjárhæð 2008.
Sú sérkennilega krafa stjórnenda á endurreikningi verðtryggðra lána er að viðkomandi skuldari samþykki lækkunina. Er sú krafa einungis gerð til að koma í veg fyrir að viðkomandi geti seinna meir höfðað mál á hendur ríkinu vegna mismununar á leiðréttingu á öðrum sambærilegum lánum og sambærilegum fjárhæðum.
Með vísan til ofanritaðs ætti hver einasti skuldari að krefjast þess að fá afrit af öllum útreikningum og forsendum sem notaðir voru við afgreiðslu umræddrar lækkunar til að geta gert sér grein fyrir því að ekki hafi verið um geðþótta ákvörðun að ræða við útreikning lækkunarinnar.
Ef heiðarleiki hefði ráðið förinni við endurreikning lána hefði verið nægjanlegt að upplýsa um fjárhæð lækkunarinnar án þess að krefjast samþykkis hvers og eins lántakanda.
Samhliða þessum aðgerðum til lækkunar á verðtryggðum lánum vegna bankahrunsins hefur verið beitt kúgunaraðferð af hálfu ríkisins með kröfu um að allir þeir sem samþykkja umræddar lækkanir noti það sem kallað er rafræn skilríki. Það er ekki svo að ríkisvaldið veiti umrædd rafræn skilríki heldur er einstaklingi fært á gulldiski til framtíðar að hafa stjórn á landslýð með útgáfu umræddra rafrænna skilríkja.
Í skilmálum að umræddum rafrænum skilríkjum er þess getið að útgefendur umræddra skilríkja áskilja sér rétt til að krefjast gjalds í framtíðinni fyrir hverja notkun á umræddum skilríkjum. Auk þess má geta þess að umrædd rafræn skilríki virka ekki alltaf og eru bara nafnið eitt.
Kristján Guðmundsson
fv. skipstjóri.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.