Það sem hefur verið sláandi í þessum yfirlýsingum hinna sérfróðu manna er að þjóð geti ekki verið eigandi í skilningi ákvæðis um eignarétt í stjórnarskránni.
Þá er spurt: Getur ríki verið eigandi að því sem telst eign í skilningi umrædds ákvæðis?
Þarf þá að standa í umræddri grein sem til stendur að bæta við stjórnarskrána að þjóðríkið Ísland sé eigandi að öllum náttúrauðlindum?
Er ákvæðið í stjórnarskránni um friðhelgi eignarréttarins aðeins í gildi fyrir þá sem geta keypt sér sérfræðingaálit lögspekinga með prófessorstitla?
Hvaða rétt hafði íslenska ríkið til að eigna sér 200 sml. efnahagslögsögu?
Hvaða rétt hefur ríkið til að krefjast eignar yfir verðmætum á sjávarbotni fyrir utan 200 sml. efnahagslögsögu?
Eru álitsgerðir lögspekinga með prófessorstitla verslunarvara fyrir auðvaldið í landinu?
Ríkisvaldið á Íslandi hefur undanfarna áratugi tekið sér það vald að skipta sér af náttúruauðlindum. Hefur ríkisstjórn Íslands farið út í það að skipta auðæfum í hafinu sem stjórnin átti ekkert í? Með þeim aðgerðum hindruðu þeir fjölda manna í því að sækja sér lífsviðurværi í hafið.
Því er spurt: Stal ríkisstjórnin auðæfum hafsins og útdeildi á meðal fylgismanna sinna án heimildar eða án þess að hafa rétt yfir þeim auðæfum og svipti þar með pólitíska andstæðinga, er vildu afla sér til matar úr gullkistu sjávarins, lífsviðurværi sínu?
Samkvæmt fullyrðingum lögspekinganna var ekki um eignarrétt ríkisvaldsins að ræða og því ekki um ráðstöfunarrétt þess heldur.
Voru þessar yfirlýsingar lögspekinganna keyptar af útgerðarauðvaldinu?
Svo virðist orðið í samfélaginu sem kennt er við Ísland að lögskýringar séu einnota yfirlýsingar sem aðeins henta þegar hagsmunum ákveðinna aðila innan samfélagsins er ógnað, þ.e. valdastéttinni. Ef málið snertir almúgann og skerðingu á réttindum smælingjanna sem ekki geta borgað spekingunum fyrir álit þeirra þegja þeir þunnu hljóði.
Ekki heyrðist í hinum lögfróðu spekingum þegar stærsta bótalausa eignarnám lýðveldisins fór fram af hálfu ríkisvaldsins. Eignarnám þegar fyrsti lífeyrissjóður landsmanna var hirtur af stjórnvöldum með einu pennastriki. Þeir sem höfðu greitt skilvíslega í áratugi til samfélagsins hið svokallaða Almannatryggingagjald sem var grundvöllurinn að grunnlífeyrisgreiðslum voru sviptir eignarrétti sínum án þess að lögspekingarnir létu frá sér heyra. Af hverju þögðu spekingarnir? Því er fljótsvarað.
Lögspekingarnir njóta góðra eftirlauna og þurfa ekki að vinna sér inn aukaskilding til þess að tóra. Fjöldi þegna lýðveldisins, sem hefur í eftirlaun u.þ.b. 10-15% af eftirlaunum lögspekinganna, þarf að leita sér að tekjum til að ná endum saman en eru þá vegna skerðingarákvæða þjóðnýtingarlaganna sviptir rétti sínum til grunnlífeyris. Lögspekingarnir sem hafa 8 til 10 sinnum hærri eftirlaun þurfa ekki að leita sér að aukabita til að halda lífi en þeir fá greiddan grunnlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins, ölmusustofnuninni, umyrðalaust.
Af framanskráðu er það ljóst að á Íslandi er ekki lýðræði heldur fjármálaeinræði.
Þeir sem ráða yfir fé landsmanna ráða öllum gjörðum og virða ekki rétt samborgara sinna. Lögspekingar eru keyptir eins og hver önnur verslunarvara. Fjármálamenn sem ráða fjölda lögmanna til að hindra að þeir þurfi að sæta viðurlögum vegna óhæfuverka sinna. Ef í hart fer er lögunum breytt í skyndi til að hindra það að fjármálaveldið verði fyrir skakkaföllum af völdum lögbrota sem framin voru.
Yfirlýsingar prófessoranna eða sérfræðinganna sem hafa tjáð sig um eignarréttarákvæði og stjórnarskrána í sambandi við fyrirhugaða breytingu á stjórnarskránni eru allundarlegar. Virðast sérfræðingarnir vera leiguþý auðvaldsins í landinu og geri allt fyrir peninga en ekki að það sé skynsemi í því sem þeir láta frá sér.
Eignarrétturinn er fyrir þá ríku. Fátæklingarnir geta étið það sem fellur af borðum auðvaldsherranna.
Höfundur er fv. skipstjóri
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning