27.1.2015 | 21:02
Eru þeir afætur íslensks samfélags númer tvö?
Í framhaldi af grein undirritaðs frá sunnudegi komu athyglisverðar upplýsingar fram í fréttum þriðjudaginn 27. jan. 2015.
Í fréttinni var fjallað um möguleika fólks að eignast eigið húsnæði og þá einkanlega ungt fólk eða fólk sem hugðist kaupa sína fyrstu eign.
Það sem vakti athygli voru þær upplýsingar að erfiðleikar fólks fælust í eiginfjár stöðu þess þar sem kaupandinn verður að leggja fram sem eigið fé 1520% af kaupverði/matsverði fasteignarinnar. Aðalupplýsingarnar í fréttinni var það að ekki væri tekið mark á fjárframlagi foreldra, systkina eða annars skyldfólks til að hjálpa til við húsnæðiskaupin þegar kæmi að greiðslumati. Ef ekki væri um eigið framlag kaupenda fengju aðilar ekki lán hjá lánastofnunum. Þ.e. að viðkomandi þurfti að sanna með skattframtali að hann /hún væri eigandi fjárins.
Er þar komið skýrt fram að einstaklingar eiga ekki að eiga fasteignir heldur skulu þær lagðar undir hin mörgu svokölluðu fjarfestingarfélög sem hafa frá bankahruni keypt upp stóran hluta af fasteignum í Reykjavík í þeim tilgangi að leigja út á okurkjörum og byggt upp hótel á ólíklegustu stöðum.
Spurningin er hvaðan fengu þessir aðilar fjármagn til að greiða fyrir fasteignirnar? Urðu þessir aðilar ekki fyrir skakkaföllum af völdum bankaránanna eða eru þetta aðilar sem fengu eftirgefna marga milljarða af lánsfé er þeir höfðu fengið fyrir bankaránin?
Þurftu þeir ekki að fara í greiðslumat og ganga í gegnum þá niðurlægingu sem það okurkerfi bankanna er. Þessu greiðslumatskerfi var komið á í þeim tilgangi að skaffa tekjur fyrir bankana?
Það má velta því fyrir sér hvort þarna sé á ferðinni ræningjaféð og því hafi verið komið fyrir undir koddum fjármálamannanna á meðan verið var að svæfa almenning með margs konar tilbúnum ósannindum um hið meinta bankahrun. Þetta hafi aðeins verið hreint bankarán til þess að ná völdum í fjármálum þjóðarinnar.
Frásögn Víglundar Þorsteinssonar um hið meinta misferli með sýndaraðgerðum við endurreisn bankanna ætti að vekja landsmenn til umhugsunar hvort átt hafi að þvinga þjóðina inn í gapandi gin Efnahagsbandalagsins eins og var krafa Jóhönnu Sigurðardóttur og taglhnýtinga hennar með mislukkuðum Icesafe-samningum sem hefði gert endanlega út um sjálfstæði Íslendinga og hefði verið endurtekning á árinu 1262.
Þetta er verðugt umhugsunarefni fyrir sanna Íslendinga sem meta sjálfstæði meira virði en bitlinga í Brussel fyrir Jóhönnu og hennar fylgifiska.
Kristján S. Guðmundsson
fv. skipstjóri
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.