31.1.2015 | 13:43
Eru stjórnmálamenn amlóðar.
Aldraðir á Íslandi eru baggi á þjóðinni að mati íslenskra stjórnmálamanna. Þeir sem stjórna landi og hafa stjórnað síðustu áratugi hafa eingöngu hugsað um eigin hag og sinna en lítið hugsað um þarfir hins almenna borgara.
Þessir eiginhagsmunaseggir hafa sólundað einum til tveimur milljörðum af skattpeningum þjóðarinnar til þess að kaupa sér bitlinga í Brussel á sama tíma og ekkert fé fæst til þess að hlúa að þeim öldruðu í landinu.
Amlóðar ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur sáu ekkert annað en vel launaða bitlinga í Brussel og ætluðu að fórna sjálfstæði þjóðarinnar fyrir slíkar tignarstöður.
Þessa peninga, einn til tvo milljarða, hefði mátt nýta betur og byggja yfir bráðnauðsynlega starfsemi eins og ummönnunarheimili fyrir aldraða sem ekki eru færir um að sjá um sig sjálfir.
Ekki virðast þeir sem tóku við stjórninni hafa rænu á að sinna þessum þáttum hins mannlega lífs betur en forverar þeirra því fjármunum er ausið í margskonar gæluverkefni sem þingmenn nota til að kaupa sér atkvæði.
Það hörmungarástand sem orðið er varðandi aðbúnað aldraðra sem lifa það að verða lítt eða ekki sjálfbjarga og þurfa umönnun stærstan hluta sólarhringsins er stjórnendum þjóðarinnar til skammar. Það er þjóðinni sem heild til skammar að kjósa sífellt slíka amlóða til að stjórna landinu sem ekki hugsa um neitt annað en eigin hag og sinna.
Stjórnsýslan kom á stofn starfsemi sem kallað er vistunarmat. Á þessi starfsemi að annast það að vinsa úr þá sem talið er að þurfi frekari umönnun en aðrir. Ekki er hægt að sjá að alltaf sé þar farið rétt að málum því dæmi eru um að fólki hafi verið mismunað í þessu mati og er sagt að þar ráði miklu hversu sannfærandi grátur aðstandenda er eða jafnvel einhverjir annarlegir hagsmunir matsaðila.
Til þess að létta á samviskuleysi stjórnenda er rétt að benda á sögu um geimskip sem skrifuð var fyrir 40 árum. Í för þessarar geimstöðvar um himingeiminn kom upp vandamál vegna offjölgunar geimfaranna en afurðir til að lifa af voru takmarkaðar svo og rými. Stjórnendur geimfarsins gripu til þess ráðs að skipa nefnd sem ætlað var það hlutverk að velja úr þá einstaklinga sem ekki var talin þörf á til starfa lengur um borð og senda þá í endurvinnslu. Voru einstaklingarnir valdir úr og sóttir af vélmennum og fluttir í endurvinnslustöðina þar sem þeir voru frystir þar til nýta þurfti þá. Má segja að þetta hafi verið mannúðlegri aðferð gagnvart eldra ósjálfbjarga fólki en það sem amlóðar í stjórn landsins bjóða upp á í dag.
Þótt aðstandendur ósjálfbjarga eldri borgara séu allir af vilja gerðir til að hlúa að sínum nánustu eru fæstir í aðstöðu til þess að veita þá aðstoð sem þörf er á. Sumt af þessu eldra fólki er algjörlega ófært um að sinna sínum þörfum og þarf sérstakt eftirlit.
Aðilar samtaka jómanna voru forsjálir á sínum tíma þegar hin svonefndu DAS-heimili voru reist. Amlóðarnir í stjórn landsins sáu ofsjónir yfir þeim dugnaði sem þar kom fram og kúguðu þeir samtökin til að afsala sér yfirráðarétti yfir heimilunum í hendur stjórnvalda.
Eftir þá valdníðslu stjórnvalda að yfirtaka DAS-heimilin hefur stefnan verið niður á við hvað varðar aðbúnað aldraðra og er nú svo komið að brýn þörf er á að koma amlóðunum frá völdum ef þeir ekki sjá sóma sinn og gera betur í að sinna þörfum eldri borgara.
Kristján S. Guðmundsson
fv. skipstjóri.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.