Forystumenn skólastofnana eiga að vera til fyrirmyndar og bjóða upp á fræðslu sem er áhugaverð og laðar nemendur að en ekki stunda ítroðslu á efni sem fáir hafa áhuga á. Ef námsefnið er skemmtilegt og áhugavert fyrir unglinga mæta þeir í tíma en ef kennsluefnið er þurrt og rotnunarfýla af því er öruggt að sumir kjósa að vera víðsfjarri.
Rétt þykir að spyrja háttvirta skólameistara að því hvað ábyrgð þeirra nær langt. Eru skólameistarar ábyrgir ef nemandi hlýtur skaða af því að mæta sjúkur í skólann eingöngu vegna fasískra hótana af hálfu skólastjórnenda? Á það skal bent að margur hefur farið illa út úr því að fara of snemma út úr húsi eftir veikindi og hlýða ekki ráðum læknis.
Það sem vekur furðu er að ekki er um skólaskyldu að ræða heldur frjálst val nemenda um nám. Þeir nemendur sem vilja læra mæta í skólann. Sumir nemendur eru það skarpgreindir að þeir þurfa ekki að mæta í alla tíma. Þar af leiðandi er það allundarleg framkoma stjórnenda skólanna að refsa nemendum sem ekki skila 100% mætingu. Refsa þeim með því að fella þá þótt nemandinn hafi að öðru leyti staðið sig vel í skólanum og staðist öll próf með sóma. Á það skal bent að margur nemandinn hefur lokið prófi utan skóla, stúdentsprófi, svo og öðrum lokaprófum. Er það allundarleg kennsla að einkunn fyrir mætingu geti ráðið úrslitum um það hvort nemandi nær lágmarkseinkunn til að standast burtfararpróf. Nemandi getur bætt sér upp slaka kunnáttu með 100% mætingu.
Hvert stefnir þessi forsjárhyggja? Er það verðugt verkefni fyrir fræðarana að læra það, að ekki eru allir menn og konur jafnþroskuð á sama aldri. Sumir ná góðum þroska um tíma en staðna síðan á meðan aðrir þroskast hægar en fara síðan fram úr þeim sem þroskuðust hratt í stuttan tíma en stöðnuðu. Er því að ástæðulausu verið að beita þvingunaraðgerðum sem ekki eiga neinn rétt á sér, þvingunaraðgerðum sem miða að því að steypa alla í sama mót einræðisstjórnar.
Mætingarskyldu í framhaldsskólum á að leggja af frekar en að beita slíkri forræðishyggju og refsingum að nemendur sem hafa áhuga á að læra þora ekki að vinna úr sínum veikindum af ótta við refsingar og fall í skólanum. Þess ber að geta að umræddur unglingur sem vildi heldur mæta í skólanum en láta skrá skróp hjá sér varð fyrir því að slá niður sem kallað er. Þegar fenginn var læknir til að vitja sjúklingsins sagði hann eftir skoðun að sjúklingurinn mætti ekki fara út fyrr en hann hefði jafnað sig á þessu bakslagi. Hefði verið betra að vera heima einum eða tveimur dögum lengur og sleppa við að slá niður.
Agi í skólum er nauðsynlegur en ótti ástæðulaus. Nemendur eiga ekki að lifa í stöðugum ótta. Skólareglur eiga að vera einfaldar og það á að vera hægt að fara eftir þeim. Fræðsla í framhaldsskólum er ekki samkvæmt herkvaðningu og ástæðulaust að brjóta nemendur niður eins og gert er við herþjálfun.
Höfundur er fyrrverandi skipstjóri.
Athugasemdir
Er sammála hugleiðingum þínum, forræðishyggjan hlýtur að vera á leið í gröfina innan skamms.
Vilborg Eggertsdóttir, 29.3.2007 kl. 00:29
Ég er sammála þér að því að forsjárhyggja er versta tegund fasisma nútímans. Hinsvegar er önnur hlið á málinu sem taka verður e.t.v til greina. Skólar fá borgað eftir því hve margir nemendur ná prófum. Rekstrargrundvöllur þeirra byggir þá semsagt á því að nemendur taki þátt í náminu. Að skrá sig í skóla er því að vissu leiti gagnkvæmur samningur milli nemanda og skólans, þar sem skólinn á að uppfylla kennsluskyldur og nemandi að uppfylla lærdómsskyldur. Ef litið er svona á er nemandi að brjóta samninginn á nákvæmlega sama hátt og ef starfsmaður hjá fyrirtæki mætir ekki til vinnu af hvaða ástæðu sem er, fyrir utan löggilda veikindadaga. Nemendur fá tækifæri á að nýta sér veikindadaga, en alltof oft fara þessir dagar í skróp og svo þegar veikindin koma hafa þau enga sénsa með mætingu. Það er því verið að höfða inn á samvisku þeirra, sem er góður lærdómur fyrir þau.
Sigurður Karl Lúðvíksson, 29.3.2007 kl. 15:57
Mætingaskylda framhaldsskólanna er þannig að sé um "eðlileg" veikindi að ræða þá rúmast þau ágætlega án nokkurrar refsingar innan fjarvistakerfisins. Einungis ef fjarvistir eru miklar er farið að beita einhverjum refsingum og séu menn veikir er einfalt mál að fá læknisvottorð því til staðfestingar.
Hitt er síðan áhugaverðara mál en það er binding milli eininga og kennslustunda. Dreifnám þar sem þessi binding er rofin er mjög áhugaverð og mætti þróast af meiri krafti innan framhaldsskólanna. Þó höfum við a.m.k. einn framhaldsskóla sem byggir alla sína kennslu þannig upp og eykur þar með svigrúm nemenda gríðarlega.
Eftir stendur að það eru engir kjarasamningar til um fjar- og dreifnám við kennara né heldur skilgreint hvaða þjónustu slíkir nemendur eiga að fá s.s. námsráðgjöf, aðgengi að bókasafni eða annarri stoðþjónustu skólanna. Undarlegast er þó það að fjarnám er venjulega töluvert dýrara fyrir nemendann en staðbundið nám þó það þurfi ekki að byggja stórar byggingar til að bjóða fjarnám.
Það væri gaman að sjá verða til Fjarmenntaskóla Íslands með vel skilgreindum námsleiðum og þjónustu ásamt metnaði til að gera hlutina vel og ráða góða fjarkennara. Það er nefninlega ekki sama að kenna í fjarnámi og staðbundnu námi.
En dreifnámi mætti svo sannarlega beita meira en nú er.
Hinvsegar er ekki auðvelt að kenna áfanga þar sem nemandi er kominn niður fyrir 80% í mætingu oft reynist ógerlegt fyrri nemandann að ljúka slíkum áfanga fullnægjandi. En sumir geta það og þar sem ég tók 3. og 4. bekk í framhaldsskóla í fullu námi með fullri vinnu og mætti einungis einn morgun í viku í skólann þá veit ég að þetta er hægt en kostar gríðarlegan sjálfsaga.
Lára Stefánsdóttir, 1.4.2007 kl. 00:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning