14.7.2015 | 15:16
Landsbanki Íslands
Þetta ríkisfyrirtæki hefur verið mikið til umfjöllunar á síðustu dögum vegna fyrirhugaðrar byggingar höfuðstöðva fyrir bankann.
Þrátt fyrir harða gagnrýni landsmanna vegna þess fjárausturs, sem stefnt er að en áætlaður kostnaður við bygginguna er tugir milljarða, kemur bankastjórinn keikur fram í sjónvarpi og segir að þeir vilji að bankinn verði í miðbænum, hjarta borgarinnar.
Bankastjórinn er úr öllu samhengi við raunveruleikann varðandi tilurð þessa fyrirtækis. Þetta fyrirtæki var stofnað á rústum gjaldþrota fyrirtækis þar sem stjórnendur höfðu hirt eigur þúsunda Íslendinga af tómri græðgi og þar með lífeyri margra, vegna óstjórnar og eiginhagsmuna þeirra (ráðamanna bankans), hvað varðar vörslufé í eigu lífeyrissjóða er voru undir þeirra eftirliti.
Með vísan til þess fjármagns sem bankastjórn hyggst nota til uppbyggingar er afrakstur okurs á þeirri þjónustu er þeir telja sig veita. Kostnaður við Bankahrunið er greitt af þeim sem sækja þjónustu til bankans vegna þess okurs á allri þjónustu, sem upp var tekið eftir hrunið, til að fela þá óstjórn sem verið hefur á bankastarfsemi á Íslandi frá aldamótum.
Eigendum bankans (ríkisstjórn þjóðin sem heild) væri nær, að stjórna gjörðum af hálfu bankans, og greiða til baka það sem tekið var ófrjálsri hendi úr lífeyrissjóðunum með útlánum án nokkurra trygginga samanber lán til eins af stjórnendum bankans án þess að nokkur trygging værir lögð fram og hann lýsti sig síðan gjaldþrota. Á sama tíma og lán til stjórnarmannsins var veitt án tryggingar var krafist trygginga af sjóðfélögum sem voru að mati sérfræðinga 40% verðmeiri en sú lánsfjárhæð sem fékkst.
Vegna óstjórnar innan bankans voru eftirlaun eigenda lífeyrissjóðanna skert um nálægt 40%.
Græðgi og mikilmennskuæði virðist hafa haldið áfram að grassera innan bankakerfisins með vísan til þeirra upplýsinga um hagnað bankanna á umliðnum árum.
Þessi hagnaður bankanna (allra) er tilkominn vegna þess okurs sem er á allri þjónustu af þeirra hálfu.
Á það skal bent sérstaklega að bankar á Íslandi eru of margir. Ef tekið er tillit til kostnaðar við fjóra bankastjóra og fjórfalt starfslið þá væri hægt með góðum móti að fækka bönkum niður í einn og starfsliði samkvæmt því.
Að teknu tilliti til fjölda Íslendinga þá eru 75 80 þúsund einstaklingar (samkvæmt meðaltali) í þjónustu hjá hverjum banka og þar af 40 50 þúsund þegnar landsins sem bera uppi kostnaðinn við hvern banka (hinir er börn og ófjárráða einstaklingar). Ef tekið er mið af rekstri banka erlendis og þess fjölda fólks sem sækir þjónustu hvers banka þá myndi nægja hálfur banki hér á landi að teknu tilliti til fólksfjölda.
Ef tekið er mið af gróða banka upp á 10 milljarða á ári þá greiðir að meðaltali hver einstaklingur (50000 einstaklingar) um 200.000- kr. til bankans á hverju ári aðeins í gróða bankans fyrir utan annað eins eða meira í kostnað við reksturinn á bankanum.
Laun hvers bankastjóra um sig eru nálægt tíföld laun flestra þeirra sem greiða kostnað bankanna.
Hin svokallaða frjálshyggja er talin valdur að því sem kallast samkeppni til að halda niðri verðlagi. Samkeppni er aðeins slagorð þeirra sem vilja komast að kjötkötlunum og verða feitir á kostnað náunganna.
Orðið samkeppni segir mér að þeir sem nota það orð taumlaust eru að ásaka aðra um óheiðarleika en eru sjálfir eiginhagsmunasinnar og ósáttir við að komast ekki að kjötkötlunum.
Ef tekið er tillit til þess sem uppvíst hefur orðið um hina svokölluðu samkeppni sem frjálshyggjan er kennd við hefur margt komið í ljós sem er frjálshyggjunni til skammar. Uppvíst hefur orðið í mörgum tilvikum um verðsamráð samkeppnisaðila til þess að græða sem mest í nafni frjálsræðis og frjálshyggju. Lögbrot þau sem orðið hefur uppvíst um vaðandi brot á samkeppnislögum hafa flest öll verið þögguð niður eða fallið í gleymsku vegna yfirhylminga stjórnvalda og fallið undir fyrnd mál.
Af framansögðu ætti að fækka bönkum niður í einn og setja heiðarlega menn til að stjórna ef slíkir menn finnast á Íslandi. Menn sem yrðu að vinna en gerðust ekki sjálfkrafa áskrifendur að launum sínum. Með þessu væri hægt að lækka bankakostnað, sem landsmenn greiða, um 40 50%. Óheiðarlega lánastarfsemi til vildarvina án nokkurra trygginga ætti að leggja af. Stjórnlaus gróði bankastofnana eins og verið hefur frá hruni bankanna er ekkert annað en óheiðarlegur rekstur fyrirtækja (óheiðarleg viðskipti). Erlendis eru mörg hundruð þúsund einstaklingar ef ekki milljónir um hvern banka.
Það var óhófleg græðgi stjórnenda lánastofnana sem kom á þessari þörf landsmanna fyrir þjónustu lánastofnana, þegar af hálfu banka var þvingað í gegn að laun starfsmanna yrðu lögð inn á bankareikninga en ekki greidd út í peningum eins og viðgengist hafði um árabil. Á meðan verið var að þröngva þessu í gegn þá var ekki tekið gjald fyrir þjónustuna. Var það eins og með eiturlyfjasalana að þeir veittu ókeypis eitrið á meðan einstaklingarnir voru að ánetjast og síðan gengið fram með hörku í að greitt yrði fyrir dagskammtinn. Af hálfu banka hefur verið gengið fram með hörku í að þvinga fólk til að greiða fyrir það sem áður fólst í innlánum fólks í viðkomandi bankastofnun. Er svo komið að greiða þarf fyrir úttekt á peningum samkvæmt ákvörðun stjórnenda bankans auk þess þarf að greiða fyrir greiðslu á milli banka samkvæmt sérstöku kerfi. Er innheimtukerfi bankanna orðið svo óheiðarlegt að mjög erfitt er fyrir fólk að átta sig á því hvað er verið að greiða fyrir. Ein aðalgreiðslan, sem líkja má við þjófnað, eru svokölluð seðilgjöld. Hin svokölluðu seðilgjöld hafa náð því að vera yfir 10% af þeirri fjárhæð sem greiða þarf.
Reykjavík 14. júlí 2015
Kristján S. Guðmundsson
fv. skipstjóri
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.