Öryggi íslenskra skipa.

Þrátt fyrir áralanga baráttu fyrir auknu öryggi á íslenskum fiskiskipum hefur árangur verið lítill.

Slys út af Vestfjörðum fyrir nokkrum vikum hefði mátt koma í veg fyrir ef valdhafar hefðu farið eftir leiðbeiningum sem legið hafa fyrir í um 30 ár. Af hálfu hins opinbera hefur orsökin verið talin sú að neyðarbúnaður virkaði ekki. Er reynt að breiða yfir orsök slyssins með því að fjalla mikið um gúmmíbjörgunarbáta og bilanir eða galla í losunarbúnaði þeirra.

Það hefur ekki verið minnst á megin orsök slyssins sem var skortur á stöðugleika skipsins til veiða með þann búnað sem um borð var. Þetta er búið að vera ljóst öllum sem vilja viðurkenna að ástand margra íslenskra fiskiskipa, hvað stöðugleika varðar, hefur verið óforsvaranlegt.

Fyrir um 30 árum fór fram úttekt á fjölda sjóslysa sem orðið höfðu við strendur Íslands áratugi fyrir þá skoðun. Niðurstaðan var sú að stöðugleiki skipanna var ekki fullnægjandi til þess að stundaðar væru veiðar frá mörgum eldri skipum með þá stærð og gerð veiðarfæra sem notuð voru.

Þótt þessar upplýsingar hefðu legið fyrir í mörg ár hefur af hálfu opinbers eftirlits (Siglingastofnunar) verið gefið út haffæri fyrir skipin án þess að neinar hömlur væru settar á stærð veiðarfæra. Svokallað Vestfjarðaviðmið sem komið var á til undanþágu fyrir skip sem gerð voru út til veiða inni á Ísafjarðardjúpi (rækjuveiða) þá virðist sem þetta viðmið hafi verið fært yfir á öll eldri skip sem ekki stóðust gildandi stöðugleikakröfur fyrir skip.

Í skýrslum Rannsóknarnefndar sjóslysa fram til 1999 var marg oft bent á þennan veikleika við útgerð skipa til veiða með of stór veiðarfæri og lélegan stöðugleika. Verður það að teljast kaldhæðnislegt að vísa alltaf til bilunar í neyðarbúnaði er slys verða á sjó en horfa fram hjá megin orsök slysanna.

Eins og fram kom í skýrslum Rannsóknarnefndar sjóslysa á árunum 1986 til 1999 þá fórust all mörg skip þar sem orsök skipskaðans var skortur á stöðugleika skipanna. Þrátt fyrir þessar staðreyndir er ennþá verið að veita haffæri fyrir skip sem ekki standast lágmarkskröfur um stöðugleika.

Eftir fréttum af sjóslysinu út af Vestfjörðum er ekki hægt að sjá annað en að skipið hafi ekki haft þann stöðugleika til að standast þá vinnu sem framkvæmd var og framkvæma þurfti um borð.

Með vísan til ofanritaðs er ekki hægt annað en telja vanrækslu af hálfu hins opinbera .(Innanríkisráðuneytið – stjórnendur þar) sem orsök þessa sjóslyss.

Kristján Guðmundsson

fv. skipstjóri


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband