13.10.2015 | 11:08
Falskt öryggi sjómanna.
Með tilvísun í grein í Morgunblaðinu bls. 15 hinn 13. október 2015.
Það er ánægjulegt að loksins eftir meira en 26 ár frá því að bent var á það vandamál er varðar öryggi íslenskra fiskiskipa þá vakni einhver í hópi forystumanna sjómanna og krefjist rannsóknar á slysi út af Vestfjörðum fyrr á árinu.
Frammá mönnum um öryggismál sjómanna væri hollt að lesa skýrslur Rannsóknarnefndar sjóslysa frá 1986 til 1999 og fara yfir þær ábendingar um orsakir margra skiptapa þar sem stöðubleika skipa var áfátt er leiddi til skipstapans.
Verður það að teljast undarlegt eftir öll þessi ár að loksins rofi til í hugsanagangi manna eftir eins margar ábendingar og fram hafa komið í skýrslum nefndarinnar um orsakir slysanna, skortur á stöðugleika. Þessir menn hefðu átt að vakna fyrr því þá hefði verið hægt að bjarga mörgum mannslífum.
Þrátt fyrir óskir og ábendingar af hálfu Rannsóknarnefndar sjóslysa á árunum 1987 til 2001 var ekkert gert. Var nokkrum sinnum rætt við stjórnvöld um að fá fjármagn til að lyfta skipi af hafsbotni til rannsóknar en án árangurs. Ef skipi hefði verið lyft upp hefði verið hægt að rannsaka það og leggja fram óyggjandi staðreyndir fyrir orsök hinna mörgu skiptapa.
Sem dæmi um leikaraskap stjórnvalda var ákveðið varðandi mörg skip sem ekki stóðust rannsóknir að notast við hið svokallaða VESTFJARÐA-viðmið. Þetta þýddi að tiltekin skip stóðust ekki kröfur um stöðugleika en fengu samt haffærisskírteini.
Það sem ekki hefur mátt minnast á er það að mörg skip voru smíðuð miðað við notkun léttra veiðarfæra eins og færi, línu og lagnet. Þessum skipum var breitt til notkunar á stærri veiðarfærum þar sem nota þurfti átakspunkta til að taka inn veiðarfærin sem voru talsvert fyrir ofan þyngdarpunkt skipsins er síðan leiddi til þess að þessum skipum hvolfdi í blíðviðrinu eins og greint hefur verið frá. Var það ekki spurning um hvort heldur hvenær kæmi að lokastundu slíkra veiða vegna skorts á stöðugleika skipsins.
Eins og áður sagði hefur of mörgum sjómönnum verið fórnað vegna tregðu á að taka alvarlega ábendingar um vankanta vegna stöðugleika margra skipa.
Reykjavík 13. október 2015.
Kristján S. Guðmundsson
fv. framkvæmdastjóri Rannsóknarnefndar sjóslysa.
Athugasemdir
Kristján það þarf nú ekki nema að horfa á sumt af þessum skipum en stöðuleika prufa getur verið í lagi en þessir háu gálgar á dragnóta og skelskipunum eru aðal dauðagildrur og ef menn eru ekki alveg nelgdir á stefnuna og bara halli getur togað skipið á hliðina.
Það er líka eitt sem siglingamál hefir alveg horft framhjá og þið hjá Rannsóknanefnd Sjóslysa en það eru Rekakkerin en nú síðustu 30 ár hafa verið til Rekakkeri í öllum stærðum fyrir báta og skip. Siglingamálastofnun tók þau út sem skildu öryggistæki vegna þess að þau voru ekki talin upp í reglugerð ESB.
Bilað skip eða bátar sem geta haldið stefni upp í öldur ef t.d. landátt er án þess að reka beint leið upp í kletta.
Þið eru búnir að sjá mörg strönd ásamt mannskaða og aldrei minnst einu orði á þessi rekakkeri.
Menn hafa hangið í marga daga í 80 hnúta vindi hér og þar í heiminum s.s. Alaska og Noreg og flestir handfærabátar hér á landi eru með þau og nota til þess að hægja á reki vegna veiðanna og í hvíld. Aðstæður verða betri til að hífa menn frá skipi með þyrlu ef það kæmi upp. Það vill svo til að siglingamál samþykkti Rekakkeri frá mér á sínum tíma en engin af opinberum hefir sýnt þessum öryggistækjum hin minnsta áhuga þrátt fyrir að horfa upp á mörg mannskaða strönd yfir árin.
Valdimar Samúelsson, 13.10.2015 kl. 13:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.