Æsa ÍS-

Í Kastljós þætti sjónvarpsins hinn 22. október 2015 var til umræðu slysið er m.b. Æsa ÍS- sökk í Arnarfirði og tveir menn létust.

Í þessu viðtali komu furðulegar upplýsingar frá viðmælenda fréttamannsins sem eru ósannar ef ekki meira má segja. Veittist frúin að Rannsóknarnefnd sjóslysa og fleirum í sínum ummælum.

Það er alltaf sárt að missa sína nánustu en sannleikurinn er betri en ósannindi.

Varðandi mál þetta þá var strax eftir slysið leitað eftir fjárveitingu til að ná skipinu upp til rannsóknar. Strax á fyrstu dögum rannsóknar fékk nefndin tilboð í að lyfta skipinu af hafsbotni og færa það til Bíldudals. Tilboðið hljóðaði upp á 18.000.000 krónur. Ekki fékkst fjárveiting til verksins. Er hér með vísað í skýrslu undirritaðs, að ósk formanns nefndarinnar, sem afhent var Samgönguráðuneytinu í sambandi við rannsókn málsins.

Ítarleg rannsókn fór fram á því sem fyrir lá og þar með var plógur skipsins rannsakaður mjög ítarlega. Var plógur skipsins mjög þungur með hliðsjón af stöðugleika skipsins og enn meiri hætta stafaði af plógnum þegar hann var fullur af skel eins og staðan var þegar skipinu hvolfdi vegna skorts á stöðugleika. Var sá þáttur talin ein af orsökum slyssins sem heimfæra má undir vanþekkingu á stöðugleika og stjórnun skips.

Þess ber að geta að þetta var ekki fyrsta slysið sem varð og leitað eftir fjárheimild af hálfu nefndarinnar til að lyfta flaki (sokkið skip er kallað flak) af hafsbotni til rannsóknar. Ástæða þess að farið var fram á ítarlegri rannsókn á þessum skipum er sukku var vitneskja um skort á stöðugleika fjölda íslenskra fiskiskipa og vísast þar til skýrslna nefndarinnar frá 1986 til 1999.

Ef viðvaranir er komu frá nefndinni hefðu verið teknar alvarlega hefði verið hægt að minnka líkur á manntjóni í mörgum tilvikum sem fjallað er um í skýrslum nefndarinnar.

Því eru ummæli frúarinnar ósannindi varðandi störf nefndarinnar og vísast þar einnig til blaðaskrifa og ummæla frúarinnar í fjölmiðlum á meðan á rannsókn stóð og eftir það. Frúin hafði símasamband við undirritaðan og vildi stjórna rannsókninni. Voru skammir frúarinnar í símanum mjög ókurteisar svo ekki sé meira sagt. Var henni bent á að hafa samband við formann nefndarinnar sem hefði yfirstjórn á því sem gera ætti varðandi rannsóknina.

Þar sem hluti af ummælum frúarinnar snerust um bótakröfur hennar eftir slysið þá gleymdi hún að geta þess að samkvæmt niðurstöðum dómsins þá byggði dómari í úrskurði sínum á þeim upplýsingum sem fram komu í skýrslu nefndarinnar vegna umrædds slyss. Voru þar tíundaðar taldar líkur á orsökum slyssins samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum er voru fyrir hendi.

Því miður voru fleiri þættir varðandi þetta mál sem ekki voru í lagi. Má þar geta þess að sá er skráður var skipstjóri skipsins (samkvæmt lögum eru skipverjar skráðir undir tiltekinn skipstjóra sem er um borð og stjórnar skipinu) var ekki um borð heldur annar maður og því vafasamt hvort skráning skipverjanna hafi verið lögleg.

Það hefur aldrei verið fögnuður á heimilum þar sem ástvinir gista hina votu gröf. Eru slík tilvik allt of mörg í sögu Íslands. Því ber að gera allt til að hindra að slíkt gerist í framtíðinni ef hægt er að koma í veg fyrir það.

Varðandi orsök þessa slyss verða sambærileg slys ekki umflúin nema stöðugleiki skipa sé tryggður (nægjanlegur) og stjórnendur skipanna hafi næga þekkingu á þætti stöðugleikans í sjóhæfni skipsins.

Reykjavík 23. ágúst 2015

Kristján S. Guðmundsson

fv. framkvæmdastjóri Rannsóknarnefndar sjóslysa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband