Slys á ferðamönnum.

Mikil umfjöllun hefur verið í fjölmiðlum um slys á ferðamönnum sem koma hingað til lands.

Þessi umfjöllun hefur einkennst af því að slysvaldarnir séu Íslendingar. Virðist sem fréttamenn eða þeir sem koma upplýsingum á framfæri séu að leita að sökudólgum í íslensku samfélagi.

Ef tekið er mark á fréttum af þeim atburðum sem mesta umfjöllun hafa fengið virðist orsaka að leita hjá misvitrum ferðamönnum. Ef það er rétt eins og fram hefur komið í fjölmiðlum að hluti ferðamanna virði ekki viðvaranir er þeim eru gefnar né viðvörunarskilti, og þar af leiðandi lendi þeir í ógöngum og tjóni, þá hljóta þeir að vera ábyrgir gjörða sinna. Það sem hefur einkennt þennan slysafaraldur hjá ferðamönnum er að þetta er allt fullorðið fólk.

Er kominn tími til að krefja alla ferðamenn sem flóttamenn um sannanir fyrir tryggingum er taka til allra þátta sem fyrir geta komið hjá þessu fólki meðan á dvöl hér á landi varir. Er þá átt við bæði slys er viðkomandi verður fyrir svo og hugsanlegum skemmdum sem viðkomandi getur valdið með komu sinni svo og kostnaði við björgun viðkomandi úr vandræðum.

Þær hjáróma raddir sem heyrst hafa frá mörgum að stjórnvöld þurfi að sjá um þetta og hitt til þess að koma í veg fyrir slys og óhöpp. Ef Íslendingar þurfa að hafa eftirlit með ferðamönnum sem koma til landsins eins og hvítvoðungum má ætla að þörf sé á 30.000 -- 40.000 eftirlitsmönnum til að fylgjast með að enginn fari sér að voða.

Þeir aðilar sem annast skipulagðar ferðir útlendinga um landið þyrftu að vara fólk við og gera því ljóst að hættur séu víða en það verði ekki haft eftirlit með þeim. Þeir séu á eigin ábyrgð ef ekki sé tekið tillit til viðvarana.

Að ætlast til að ríkisvaldið sjái um eftirlit með ferðamönnum svo þeir fari sér ekki að voða er fáránlegt. Slys við köfun, slys við óbyggðaferðir sem viðkomandi ræður ekki við, slys við fjöruferðir eða slys við akstur á malarvegum getur ekki orðið á ábyrgð ríkisins.

Ekki hafa verið birtar skýrslur um hlutfall slysa og dauðatilfella á ári hjá ferðamönnum á móti slysum á Íslendingum en samkvæmt fréttum er fjöldi ferðamanna meira en þreföld íbúatala landsmanna.

Flestir hugsandi menn gera sér grein fyrir þeim hættum sem leynast í umhverfinu og ekki þörf á að tíunda allt sem hugsanlega geti gerst. Það væri að æra óstöðugan, eins og flestir ferðamenn eru, að tíunda alla þá möguleika er leitt geta til slysa. Varasamt getur verið að reyna að taka sjálfræði af fólki (ferðamönnum) og því verður að taka þeim óhöppum sem verða án þess að tryllast.

Nauðsynlegt er gott eftirlit með farartækjum, s.s. bátum, bifreiðum, fjórhjólum, snjósleðum og flugvélum sem ferðamönnum er seldur aðgangur að. Öll forræðishyggja út fyrir almenna skynsemi hefur aldrei borið árangur.

Það er ekki hægt að kalla það skynsemi að virða ekki viðvaranir og leiðbeiningar bara af því að það sé spennandi að gera það sem er bannað eða hefur verið varað við.

Slys á ferðalagi er bara fórnarkostnaður þegar ferðamaður virðir ekki skynsamlegar ábendingar um hættu. Ef þörf er á meira en mannhæðar háum fangagirðingum við alla ferðamannastaði landsins til þess að hafa vit fyrir ferðamönnum þá verður lítið eftir af náttúrunni.

Væri nær fyrir æsifréttamenn fjölmiðla og nytsama sakleysingja á Alþingi (en þeir eru of margir) að taka á þessum málum af raunsæi án of mikillar forræðishyggju. Það verður orðið lítið af hinni svokölluðu náttúrufegurð þegar búið er að umbylta landinu með göngustígum, varnargirðingum og margra hæða skiltum til að vara ferðamenn við augljósum hættum sem sérhver skynsamur maður sér án skilta.

Athuga þarf vel að vatnsfall (foss) er ekki eingöngu náttúruundur heldur umhverfi þess einnig. Spilling á landinu með lagningu göngustíga þvers og kruss er ekki verndun náttúrunnar.

Reykjavík 8. mars 2016

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband