9.3.2016 | 07:56
Er meðvitund stjórnmálamanna í lagi.
Í sambandi við verkföll sem gengið hafa yfir þjóðarbúið hefur fjármálaráðherra orðið tíðrætt um ábyrgð kröfuhafa, sem áttu í kjarabaráttu, að þeir þyrftu að sýna ábyrgð gagnvart stöðugleika á sviði fjármála í þjóðfélaginu og stilla kröfum sínum í hóf.
Svo virðist sem ráðherrann fylgist ekki með og sé ekki í takt við raunveruleikann. Hann hefur í sjónvarpsviðtölum komið inn á afleiðingar á fjármál landsins og verðgildi gjaldmiðilsins ef kauphækkanir verði miklar.
Miðað við reynslu síðustu 70 ára hefur verið stöðug barátta milli verðlags í landinu og kaupkrafna með viðeigandi gengisfellingum sem hefur leitt til þess að þeir sem hafa lægstu launin hafa tapað en þeir sem skammta sér sjálfir launin hafa mokað inn auðæfum.
Hvaða vit er í því að þeir sem eru taldir frammámenn í þjóðfélaginu þingmenn, ráðherrar o.fl. séu á fjórföldum launum þeirra lægst launuðu eða meira?
Eru störf þingmanna og ráðherra fjórum sinnum verðmeiri en sumra þegna samfélagsins?
Talað er um frjálsan samningsrétt í landinu en reyndin er sú að aðeins fáir útvaldir hafa þann rétt og það eru þeir sem skammta sér sjálfir launin.
Þjóðþingið, löggjafarsamkundan, setti lög sem bönnuðu verkfall en gleymdi að setja í lögin ákvæði um starfshætti gerðardóms að dómurinn ætti að taka mið af fjárhagsástandi þjóðarbúsins. M.ö.o. að setja dómnum skýr mörk til að fara eftir varðandi dæmdar kjarabætur til aðila í verkfalli. Kjarabætur áttu að miðast við fjárhagsafkomu þjóðarbúsins í niðurstöðu dómsins.
Vitað var, og ráðherra hefur viðurkennt í sínum sjónvarpsviðtölum, að allir vinnandi menn/konur myndu krefjast sambærilegra kjarabóta og aðrir hefðu fengið. Þetta er 70 ára reynsla launahækkana og gengisfellinga á Íslandi.
Ef ráðherrann heldur að hægt sé að hækka laun þingmanna o.fl. æðstu manna stjórnsýslunnar og hækkunin nemi nánast sömu fjárhæð og lægstu laun, sem greidd eru í landinu, er hann kominn á pall með svínunum úr sögu Orwells.
Miðað við varnaðarorð ráðherrans er hann hefur haft um kjaradeilur hefði hann átt að hækka laun með lagasetningu hjá öllum í landinu, sambærilega hækkun og aðrir fengu. Fella síðan gengið eins og þörf er á sem myndi sýna þegnum landsins að sú vitleysa sem hefur viðgengist í víxlhækkunum kaupgjalds og verðlags er öllum til tjóns nema þeim sem fá hæstu hækkanir launa í krónum talið. Þeir sem falla undir sjálftökufólkið (þingmenn, ráðherrar og þeir sem greiða í kosningasjóði) hagnast alltaf nema með því að nota skattheimtuna með fleiri skattþrepum.
Varnaðarorð ráðherrans vegna verkfallanna og launakrafna fólks eru tímaskekkja og hefðu átt að koma fyrir löngu. Hæstu launahækkanir sem búið var að semja um átti með valdboði að ganga yfir alla. Eftir áratuga reynslu stjórnvalda af kjaradeilum og víxlhækkunum ætti núverandi stjórnvöldum, ef þeir hafa haft vit á að kynna sér sögu kjaradeilna, að vera ljóst hvert stefndi.
Hefði stjórnvöldum átt að vera ljóst það vandamál sem vænta mátti eftir að laun ákveðinna aðila voru hækkuð um yfir 60% eins og fréttir hafa borist af. Eru það í sumum tilfellum þeir sem hafa fengið tugir milljóna í arðgreiðslur.
Þá vitfirringu sem viðgengist hefur, að ákveðnir aðilar í hópi sjálftökufólks geti tekið út úr vasabókarfyrirtækjum tugi og hundruða milljóna króna sem arðgreiðslur sýnir hvað þjóðfélagið er orðið sjúkt og ætti að stöðva þegar í stað.
Sem dæmi um okurþjónustu og græðgi eru lögfræðifyrirtæki, tryggingafyrirtæki og bankastarfsemi sem skila þúsundum milljóna í arð til eigenda. Sama á við um útgerðir fiskiskipa o.fl.
Með þeirri ósvífni af hálfu stjórnenda banka, eins og gróðatölur sýna, að láta almenning í landinu greiða upp það sem hvarf í bankaránum bankanna, er vísbending um það sem koma skal í næstu kollsteypu.
Reykjavík 9. mars 2016
Kristján Guðmundsson
fv. skipstjóri
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.