9.5.2016 | 09:20
Vandræði unga fólksins á Íslandi
Grátkór íslenskra fréttamanna hefur fundið upp og rangtúlkað málefni er kallað hefur verið vandamál unga fólksins. Ef grannt er skoðað ert verið að búa til umfjöllunarefni handa fréttamönnum vegna ofþenslu í stéttinni og atvinnuleysis.
Því er haldið fram að staða unga fólksins sé slæm. Ungt fólk í dag geti ekki keypt sér húsnæði og fleira og fullyrt að staða ungs fólks áður og fyrr meir hafi verið miklu betri á öllum sviðum.
Þessi söngur fréttamanna sýnir þá valdagræðgi sem einkennir marga fréttamenn þegar þeir blása upp fréttir sem eru ósannindi og heimatilbúinn áróður. Þessir fréttamenn hafa ekki lært að segja satt né gefið sér tíma til að kanna og kynnast sögu fólks á Íslandi á síðustu öld
Í áróðri þessum er sleppt að taka með þær kröfur til lífsgæða sem einkennir of margt af ungu kynslóðinni. Kröfur þær sem margt ungt fólk gerir í daga er að stunda nám í 15-20 ár, eiga bíl, geta stundað heimsóknir á veitingastaða tvisvar til þrisvar í viku auk öldurhúsa heimsókna (ölkrár). Ekki má gleyma kröfu unga fólksins um að ferðast til útlanda tvisvar til þrisvar á ári ef ekki oftar svo og kostnað við alla líkamsræktatíma og annað tómsundagaman sem tilheyrir nútíma hugsunarhætti.
Það unga fólk sem fréttamenn segja að hafi haft það betra áður og fyrr meir fór að vinna fyrir sér allt niður í tólf ára aldur og vann hörðum höndum til að sjá fyrir sér.
Í dag eru það minnihluti ungs fólks sem þarf að vinna fyrir sér og því býr meirihluti á hótel MAMMA og PABBI þar til það er komið undir þrítugt eða það býr á styrkjum frá skattgreiðendum (námslánum).
Ungt fólk sækir nám í þeim greinum sem það telur sig hagnast mest á sem hefur leitt til offramboðs á vinnuafli í nokkrum greinum samfélagsins en þessir einstaklingar telja sig of fína til að vinna önnur en þau störf sem tilheyrir námi þeirra. Þetta kemur best fram í þeim fjölda erlendra ríkisborgara sem starfa á landinu þar sem fínu Háskólaborgararnir líta niður á þessi störf.
Atvinnuleysi á meðal þeirra sem telja sig HÁ-menntaða er að verða þjóðarböl.
Ungt fólk á allt gott skilið en gæðin verða að rúmast innan samfélagsins.
Menntun ungs fólks í dag er fengin á silfurfati miðað við þá menntunarkosti er voru á þriðja ársfjórðungi síðustu aldar sem fréttamenn miða við í sínum frásögnum. Frekjukröfur sem fram hafa verið settar varðandi menntun og kostnað við menntunina auk kröfu um aðbúnað varðandi húsnæði fyrir þá sem eru í námi eru öfgafullar.
Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur verið teygður og togaður til að uppfylla kröfur fyrir alla námsmenn sem í mörgum tilvikum hafa flúið land eftir að hafa lært á kostnað íslensku þjóðarinnar. Sumir þeirra sem hafa flúið land hafa reynt að losna undan skuldunum með því að láta sig hverfa og ekki hægt að ná sambandi. Þetta fólk skilar í mörgum tilvikum engri vinnu til hins íslenska þjóðarbús og því síður að af þeim fáist skatttekjur.
Með vísan til þess að sú kunnátta sem margt ungt fólk tileinkar sér nýtist ekki á Íslandi, eins og orðið hefur með stóran hóp menntamanna sem sest hafa að erlendis og aldrei greitt skatta til þjóðarbúsins eftir að námi lauk. Þá vaknar sú spurning hvort ekki eigi að setja skilyrði við menntun fólks að það skili ákveðnum árafjölda við störf á Íslandi að öðrum kosti endurgreiði það tekin kostnað við námið og námslán við brottflutning.
Það er áberandi að á sama tíma og laun menntamanna eru fjórum eða fimm sinnum hærri eða meira heldur en laun þeirra sem greiða skattana er standa undir námi þessa fólks er kominn tími til að staldra við.
Þótt menntun sé góð eiga menntamenn/námsmenn ekki að blóðmjólka þá þegna landsins sem standa undir menntun þeirra. Ofmenntun eins og fram hefur komið í sumum greinum samfélagsins leiðir til ófarnaðar.
Það er fleira sem þarf að gera á Íslandi en að ala HÁ-menntaða þegna landsins því störf hinna HÁ-menntuðu hafa hingað til ekki skilað stórum hluta af þjóðartekjum á hverju ári.
Er ekki kominn tími til þess að fréttamenn láti sannleikann ráða í fréttaflutningi en ekki æsifréttamennsku til sundrungar?
Reykjavík 9. maí 2016
Kristján S. Guðmundsson
fv. skipstjóri
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.