17.6.2016 | 11:02
Öryggismál sjómanna.
Fréttir hafa borist af því að búið sé að koma m.b. Jóni Hákoni inn á Skutulsfjörð. Er þar um að ræða aðgerð sem hefði átt að framkvæma við önnur skip sem sokkið höfðu síðan 1980 eða fyrr.
Á það skal bent að ef fullnægjandi rannsókn hefði farið fram á sokknu skipi strax og ábendingar komu fram um miður gott ástand margra skipa vegna skorts á stöðugleika þeirra hefði verið hægt að bjarga að minnsta kosti ellefu mannslífum sem fórust á árunum 1986 til 1999.
Vitað var að ástand skipanna var þess eðlis að óforsvaranlegt var að veita heimildir til notkunar á stærri veiðarfærum og þyngri búnaði á þilfari skipanna en ástand skipanna þoldi. Höfðu margar ábendingar komið fram eftir rannsóknir Rannsóknarnefnda sjóslysa á skiptöpum á síðustu 50 árum.
Af hálfu stjórnvalda, og einkum fjárveitingavaldsins (Alþingis), var þessum mannslífum fórnað af skilningsleysi, fáfræði og meinbægni þeirra sem stjórnuðu fjárveitingu til nauðsynlegra verkefna í samfélaginu.
Eins og skýrslur Rannsóknarnefnda sjóslysa í áratugi bera með sér hefur marg oft verið bent á að orsök skipsskaða (skiptapa) hafi verið skortur á stöðugleika skipanna. Í sumum tilvikum hafi orðið alvarleg röskun á stöðugleika skipanna við það að leyft var að stækka veiðarfæri og búnað skipanna sem orsakaði að átakspunktur við notkun veiðarfæranna fluttist langt yfir þyngdarpunkt skipsins. Þetta gerði skipin óstöðug og hættuleg m.ö.o. skipin voru gerð að fljótandi líkkistum.
Af hálfu Rannsóknarnefndar sjóslysa var marg oft farið fram á fjárveitingu til að ná upp sokknu skipi til þess að hægt væri að fá fram hina raunverulegu ástæðu þess (sönnun á ástæðu þess) að skipin hurfu í blíðskapar veðri og í sumum tilvikum með allri áhöfn. Af hálfu stjórnvalda fékkst aldrei fjármagn til að staðfesta mætti það sem vitað var um orsakir slysanna því það hefði leitt til þess að aftur kalla hefði þurft heimild til að gera skipin út með stærri og þyngri veiðarfærum og öðrum búnaði en þau voru smíðuð fyrir.
Eftir margra ára baráttu sjómanna til að fá skýringar á tíðum skiptöpum íslenskra skipa og manntjónum því samfara á árunum í kringum 1960 skipaði Alþingi sérstaka nefnd sem skilaði merkilegri skýrslu á sjöunda áratug síðustu aldar. Þessi skýrsla leiddi til aðgerða sem því miður var hálfgerð sýndarmennska þrátt fyrir þá vitneskju sem fengist hafði. Var þetta sýndarmennska gagnvart stéttarfélögum sjómanna svo að hægt væri að segja að eitthvað væri verið að gera en ekki mátti styggja útgerðavaldið með framkvæmd þeirra breytinga er gera þurfti á skipunum.
Ekki er hægt að hæla stjórnendum samtaka sjómanna fyrir dugnað á þessu tímabili til að knýja fram raunhæfar aðgerðir til úrbóta á sjóhæfni skipanna.
Mjög auðvelt er að nafngreina skipin sem farist hafa á þessu tímabili ásamt skipverjum þeirra sem fórnað var á altari aðgerðarleysis vegna skorts á skynsemi ráðamanna þjóðarinnar.
Eitt yfirklór og sýndarmennska af hálfu stjórnvalda í öryggismálum sjómanna er það sem löngum var kallað Vestfjarðaviðmið. Var þetta aðgerð til þess að veita haffæri til útgerðar á minni fiskiskipum til veiða inna á fjörðum Vestfjarða (m.a. Ísafjarðardjúpi) þrátt fyrir að stöðugleiki skipanna stæðist ekki lágmarkskröfur um stöðugleika. Hefur þetta Vestfjarðaviðmið verið teygt út yfir skip sem gerð voru út til veiða úti fyrir Vestfjörðum með alvarlegum afleiðingum að ógleymdum skiptöpunum inni á Ísafjarðardjúpi.
Ekki má gleyma þeim þætti sem mikið er fjallað um í fjölmiðlum vegna þekkingarskorts fréttamanna á staðreyndum. Er það umfjöllun fjölmiðlamanna um galla, bilun eða ástand neyðarbúnaðar skipanna þegar slys hafa orðið. Samkvæmt fréttum virðist orsök skiptapans vera ástand neyðarbúnaðar. Virðast þeir sem miðla fréttum ekki hafa séð neytt nema það að neyðarbúnaður virkaði ekki á neyðarstundu (losunarbúnaður gúmmíbjörgunarbáta).
Er það spurning hver eða hverjir bera ábyrgð á þessum opinberu mannfórnum sem hefði mátt hindra (aftra) ef ekki hefðu annarlegir hagsmunir ráðið ferðinni.
Reykjavík 17. júní 2016
Kristján S. Guðmundsson
fv. skipstjóri
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.