27.6.2016 | 10:25
Forsetakosningar
Enn og aftur er kjörinn forseti lýðveldisins án þess að njóta stuðnings meirihluta þjóðarinnar.
Ástæða þess er sú að duglausir eða illa þenkjandi þingmenn sem kjörnir hafa verrið til setu á löggjafarsamkundu þjóðarinnar, Alþingi, hafa ekki haft manndóm í sér til að breyta lögum um kosningu forseta, þrátt fyrir margar ábendingar þar um, þannig að rétt kjörinn forseti landsins skuli hafa að minnsta kosti rúman helming greiddra atkvæða á bak við sig.
Niðurstöður síðustu forsetakosninga sýna að nauðsyn beri til að breyta lögunum um kjör forseta í þá veru að réttkjörinn forseti lýðveldisins skuli hafa að minnsta kosti rúman helming greiddra atkvæða á bak við sig.
Nýkjörinn forseti landsins getur ekki státað af því að vera með meirihluta þjóðarinnar á bak við sig. Það hefur verið talinn grundvöllur lýðræðis að opinberir fulltrúar þjóðarinnar hafi meirihluta þegnanna á bak við sig en sitji ekki í skjóli minnihlutans.
Með vísan til síðasta forsetakjörs er mikil óvissa um það hvort nýkjörinn forseti hefði hlotið þá upphefð ef kosið hefði verið á milli þeirra tveggja í efstu sætum kosninganna. Þar af leiðandi er erfitt að segja að nýkjörinn forseti sé forseti þjóðarinnar með tæp 40% greiddra atkvæða.
Ef litið er til ósannindavaðals í fjölmiðlum varðandi ímyndað fylgi frambjóðenda sem fengið var með skipulögðum aðgerðum sem kallaðar eru skoðanakannanir. Skoðanakannanirnar byggjast á því að leitað er svara hjá 0,3% af sérvöldum þegnum landsins með símhringingum. Á sama tíma er rúmlega helmingur símnotenda sem banna slíkar hringingar og því eru umræddar skoðanakannanir byggðar á upplýsingum frá u.þ.b. 0,135% þjóðarinnar eða ómarktækar að öllu leyti.
Skoðanakannanir á öllum sviðum eru lítils eða einskis virði eins og niðurstöður umræddra kosninga sýna. Á hina hlið málsins ber einnig að líta að þær röngu ef ekki fölsuðu upplýsingar sem dreift er og sagðar vera samkvæmt skoðanakönnun eru í mörgum tilvikum leiðandi fyrir þær persónur sem hafa tilhneigingu til að fylgja þeim sem sagðir eru á toppnum. Eru mörg dæmi um slíka fylgisspekt í sambandi við hópíþróttir eins og knattspyrnu.
Er það stór spurning hvort duglausir þingmenn sjái sóma sinn í að sinna þeim störfum er þeim er ætlað að vinna, þ.e. setning samskiptareglna fyrir þegnana, lög, og hætti þeim ósið að vera sífellt á atkvæðaveiðum með bulli sínu um pólitíska andstæðinga sína af því að sjónvarpað er frá þingfundum. Eitt af þeim störfum sem þingmenn ættu að sjá sóma sinn í að koma í framkvæmd er breyting á lögum um kjör forseta þannig að ljóst sé að forseti sé lýðræðislega kjörinn með meira en helming greiddra atkvæða á bak við sig.
Athuga skal sérstaklega að rétt kjörinn forseti þurfi að hafa rúmlega 50% greiddra atkvæða og þar með talin auð og ógild atkvæði. Með því móti, að skila auðu eða ógildu atkvæði, geta þeir sem eru á móti frambjóðendum eða vilja ekki styðja hvorugan frambjóðanda fellt kjör beggja þeirra sem í framboði eru ef lítill munur er á atkvæðum frambjóðenda og hvorugur fær meira en 50%.
Það ætti að loka fyrir sjónvarp frá þingfundum og skoða hvort þingmenn snúi sér ekki að þeim störfum er þingmönnum er ætlað að framkvæma, þ.e. að leggja línurnar er varða samskipti þegnanna innbyrðis og er kallað lög.
Reykjavík 27. júní 2016
Kristján S. Guðmundsson
fv. skipstjóri
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.