12.7.2016 | 09:01
Brot gegn valdstjórninni
Ákvæði laga um brot gegn valdstjórninni er miskunnarlaust notað gegn þegnum landsins ef þegnarnir hlýða ekki umyrðalaust.
Ég ætla ekki að mæla með beitingu valds gegn ríkjandi valdhöfum á hverjum tíma svo framarlega sem valdhafarnir fara að gildandi lögum landsins og misbeiti ekki valdinu til að verja ólöglegar gjörðir manna (karla og kvenna) í stjórnunarstörfum eins og sannanir eru fyrir.
Ofbeldi af hálfu stjórnenda landsins (Alþingis, ríkisstjórnar ásamt undirstofnunum auk dómskerfisins) hafa verið ofarlega í umræðum fólks á undanförnum árum sbr. dóma Mannréttindadómstólsins sem hefur rassskellt stjórnvöld og réttarkerfið auk blaða og greinaskrifa fjölda fólks um misbeitingu valds af hálfu dómstóla. Fjöldi dóma (hvort sem menn vilja kalla það dóma eða úrskurði) hafa gengið þvert á gildandi lög í landinu auk misbeitingar valds af hálfu Ríkissaksóknara og lögreglu á gildandi lögum þegar ákærur eru lagðar fram á hendur mönnum í æðri stöðum samfélagsins.
Ákvæðum laga um um að framið hafi verið brot gegn valdstjórninni er beitt ef ráðamenn telja svo vera en sömu aðilar brjóta ákvæði almennra laga og stjórnaskrár um réttindi þegnanna hvað varðar jafnrétti allra þegna landsins gagnvart túlkun á ákvæðum laganna.
Þegar ákvæðum laga er beitt á einn veg gagnvart valdamönnum samfélagsins og auðmönnum, þar sem notuð eru sérréttindi án lagastoðar til að hygla peningamönnum með tilbúnum ákvæðum svo að þeir ekki þurfi að sitja í fangelsi með öðrum lögbrjótum, en geta haldið áfram að stunda sína iðju sem þeir voru dæmdir fyrir vegna meintra lögbrota, þá er komið fram hið rétta andlit stjórnvalda. Sumir þegnar eru jafnari en aðrir (svínin hans Orwells).
Fangelsi, betrunarhús eins og þau voru kölluð, var komið upp til að geta tekið hina svokölluðu lögbrjóta úr umferð, á meðal almennings, ef takast mætti að venja þá af hinni vanhugsuðu iðju sinni. Það var hugmyndin, með því að taka menn úr umferð, að þeir áttuðu sig á því að framferði þeirra var ekki samkvæmt ákvörðun fjöldans. Þessu er beitt gegn minniháttar lögbrjótum en þeir sem meira mega sín og hafa fjármuni fá að halda áfram sinni iðju.
Lögbrot dómara fást ekki rannsökuð vegna þess að þeir eru í hópi svína Orwells.
Ekki er rétt að gleyma óstjórn í peningamálum landsmanna, sameiginlegum sjóði landsmanna.
Á sama tíma og óstjórn er á heilbrigðisþjónustu landsmanna og þá einkum eldra fólks, vegna fjárskorts að mati stjórnenda, þá er hægt að sólunda fjármunum í fjögurra- eða fimm-stjörnu hótel fyrir þá þegna landsins sem hafa hlotið fangelsisdóma fyrir lögbrot.
Hér með er fólki sem ekki hefur viðunandi húsnæði eða til hnífs og skeiðar bent á að nærtækast sé að brjóta lögin og fá fæði og húsaskjól á gistiheimili stjórnvalda. Fólk hefði þá fæði og húsaskjól án þess að þurfa að hafa áhyggjur af tómum maga eða kulda.
Óstjórn og ráðleysi hefur verið aðalsmerki stjórnvalda á flestum sviðum síðustu áratugi er lítur að velferð hinna almennu þegna en skipulega hugsað um að ausa fé í svínin hans Orwells og sum svínin fá að stunda sín lögbrot, sbr. dómara, því þeir eru jafnari en aðrir þegnar í dýragarðinum.
Reykjavík 12. júlí 2016
Kristján S. Guðmundsson
fv. skipstjóri
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.