10.8.2016 | 07:17
Heilbrigði landsmanna.
Hafin er af hálfu starfsmanna heilbrigðiskerfisins barátta fyrir auknum skatti á sykraðar vörur. Er borið fyrir sig að sykurneysla sé skaðvænleg fyrir heilsu manna.
Það getur verið rétt að of mikil neysla (í óhófi) á sykri eða afurðum með íbættum sykri sé skaðleg en það er ekki í starfi heilbrigðisstarfsfólks að hafa afskipti af öllum gjörðum fólks ef það (heilbrigðisstarfsfólk) hefur aðra skoðun en hinn almenni borgari. Slík afskiptasemi gengur of langt inn á einkalíf fólks. Heilbrigðisstarfsfólki er heimilt að láta í ljós sínar skoðanir sem viðvaranir til almennings en hinn almenni þegn skal fá að ráða því hvaða lífsgæði hann velur sér.
Rétt þykir að benda á að áfengi, bjór, tóbak og önnur eiturlyf gera meiri skaða fyrir þjóðarbúið án þess að brugðist sé við því á viðunandi hátt. Þar af leiðandi er þessi afskiptasemi heilbrigðisstarfsfólks varðandi sykurneyslu landsmanna ekki ásættanleg og fellur undir grófa forræðishyggju starfsmanna. Það er óásættanlegt að skoðanir þessa starfsfólks eigi að hafa áhrif á líf allra einstaklinga. Þessir starfsmenn geta farið eftir sínum kenningum en eiga ekki að hafa vald til að þvinga aðra þegna inn á sínar skoðanir. Efni eins og hveiti, hnetur, glútín og fleiri efni eru hættuleg sumum persónum. Er því ekki næsta skref þessara heilbrigðisstarfsmanna að krefjast að skattar verði lagðir á eða hækkaðir á þessi efni.
Tjáningarfrelsi er talið til mannréttinda og hafa þessir starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar fullan rétt á að tjá sínar skoðanir en eiga engan rétt til að knýja fram nýja skatta eða hærri skatta sem þjóni eingöngu kenningu eða skoðunum þeirra.
Ef afskipti heilbrigðisstarfsmanna af sykurneyslu landsmanna er réttlætanleg væri þessu fólki nær að knýja fram algjört bann við notkun alkahóls sem vímugjafa svo og tóbak og önnur eiturlyf. Þessi lyf sem falla undir eiturlyf gera meiri bölvun fyrir þjóðarbúið en sykurát nokkurra sælkera sem ekki vilja hlusta á leiðbeiningar þeirra sem telja sig vita betur en aðrir um skaðsemi sykurs.
Viðurkennt hefur verið að hvers konar efni hvort sem það er sykur eða önnur efni s.s. eiturlyf hafa mismunandi áhrif á fólk þar sem sumir einstaklingar þola vel en aðrir illa. Ef þessi forræðishyggja heilbrigðisstarfsmanna á að vera ráðandi þá endar það með að öll efni sem hafa slæm áhrif á heilsufar nokkurra einstaklinga verða bönnuð eða skattlögð til að skapa nýja tekjustofna fyrir ríkið en þeir einstaklingar sem ekki þola efnin verða ekki gerðir ábyrgir fyrir eigin velferð með því að forðast þau efni sem þeir ekki þola.
Þessi forræðishyggja sem þarna er á ferðinni endar með því að þeir sem gera tilraun til sjálfsvígs en mistekst verða dæmdir til dauða eins og sagt er að heimild sé til í ákveðnum ríkjum.
Viðvaranir og fræðsla um það sem má betur fara er vel þegið, en skerðingu á vilja og gjörðum einstaklinga á aldrei að hefta svo lengi sem gjörðir þeirra ganga ekki inn á rétt annarra einstaklinga eða samfélagsins. Það er ekki réttur samfélagsins að skipta sér af einkamálum borgaranna. Réttur samfélagsins nær aðeins til þess að setja samskiptareglur borgaranna innbyrðis en ekki til afskipta af einkamálum þeirra.
Sá einstaklingur sem ekki getur hagað sér innan ramma laga (samskiptareglna þegnanna) eftir notkun eiturlyfja, áfengis eða annarra efna, verður sjálfur að taka afleiðingum gjörða sinna en gjörðir hans (einstaklingsins) eiga ekki að bitna á öllum þegnum samfélagsins í skerðingu á mannréttindum.
Reykjavík 10. ágúst 2016
Kristján S. Guðmundsson
fv. skipstjóri
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.