7.9.2016 | 12:42
Hækkun tryggingaiðgjalda.
Hafinn er áróður af hálfu tryggingafélaga um þörf á hækkun tryggingaiðgjalda.
Er þar hafin ein ósvífnin enn af hálfu eigenda gróðafyrirtækja í eigu íslenskra peningamanna. Flestir Íslendingar muna eftir ólgunni sem varð í íslensku samfélagi þegar ákveðið var af hálfu stjórnenda tryggingafélaga að greiða til hluthafa hundruð milljóna í svokallaða arðgreiðslu. Þá var ekki skortur á fé eða hallarekstur á tryggingastarfsemi.
Ástandið í málum sumra Íslendinga er stunda þjónustu, viðskipti eða aðra atvinnustarfsemi er orðið slíkt að þessir aðilar sjá ekkert annað en okurgróða í sinni starfsemi. Skynsemi er ekki til í þeirra orðabókum.
Meinsemdin hvað varðar tryggingar í íslensku samfélagi er fjöldi tryggingafélaga. Fjöldi Íslendinga sem hafa þörf fyrir tryggingar er ekki meiri en það að eitt tryggingafélag væri nóg. Slíkt tryggingafélag ætti að vera í eigu ríkisins, þ.e. landsmanna, og rekstur þess að miðast við að lágmarka iðgjöldin sem landsmenn þurfi að greiða en ekki gróðapungasjónarmið sem allt miðast við að græða sem mest á samborgurum sínum.
Þar sem svokölluð tölfræði er stundum látin ráða í starfsemi tryggingafélaga á Íslandi er rétt að hugleiða fjölda tryggingafélaga hér á landi í samanburði við land með 200.000.000 íbúum. Í slíku landi ættu samkvæmt tölfræðinni að vera 2500 tryggingafélög.
Talsmenn frjálsrar samkeppni í rekstri fyrirtækja eru í hópi gróðapunganna og eru með dollara-merkið í augunum og sjá ekkert annað.
Eðlileg greiðsla til fólks fyrir framlag sitt til samfélagsins er eðlileg en okur og ofsagróði sem sumir einstaklingar krefjast getur ekki talist eðlilegt. Því er framferði stjórnenda tryggingafélaga varðandi óeðlilegar arðgreiðslur en á sama tíma krefjast hærri iðgjalda ekki ásættanlegt framferði. Tryggingafélögin fengu á sínum tíma hinar svokölluðu lögboðnu skyldutryggingar á grundvelli hinnar frjálsu samkeppni.
Samkvæmt frásögnum þeirra sem telja sig hafa þekkingu á tryggingum þá sé ekki um neina samkeppni á markaðnum að ræða heldur sé um samráð á milli aðila um að halda uppi verði á iðgjaldagreiðslum. Það gefur nægt tilefni fyrir ríkisvaldið til að stofna ríkistryggingafélag sem hafi það að markmiði að miða iðgjöldin við raunkostnað vegna trygginga en miðist ekki við kröfu gróðapunga um ofsagróða.
Reykjavík 7. september 2016
Kristján S. Guðmundsson
fv. skipstjóri
Athugasemdir
það eru endalaust hækkuð gjöld banka og tryggingarfelaga- til að borga fáum ofurbónusa.
Þessu taka landsmenn sem vinna ser til óbóta til að bæta í sjóði þessara hrappa.
Erla Magna Alexandersdóttir, 7.9.2016 kl. 18:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.