9.9.2016 | 09:35
Auglýsingafárið
Ef skoðað er það sem kallað er auglýsingar í fjölmiðlum kemur í ljós að verð á vöru og þjónustu er yfir 10% upp í 15% hærra en þyrfti að vera ef einhver skynsemi væri notuð við auglýsingar.
Meðalskynsamri manneskju er það ljóst að hinir svokölluðu fjölmiðlar (blaða- og ljósvakamiðlar) sem lifa á að selja þjónustu í að koma á framfæri hinum svonefndu auglýsingum eru allt of margir og mætti að skaðlausu fækka þeim um 60%.
Er það orðið þannig að auglýsingastarfsemi er atvinnubótavinna sem engu skilar til þjóðarbúsins nema sóun á velferð hinna almennu þegna samfélagsins sem þurfa að greiða kostnaðinn í 10 til 15% hærra verði á vöru og þjónustu en ástæða væri til.
Um 90% af auglýsingum í prentmiðlum eru aldrei lesnar og sama má segja um hlustun eða áhorf á það sem ljósvakamiðlar bjóða upp á. Sá fáránleiki sem viðgengst að gefnir séu út 4 til 6+ prentmiðlar sem flytja sama boðskap án þess að skila neinu öðru en hærra verði vöru og þjónustu til neitenda vekur furðu. Samkvæmt upplýsingum frá prentmiðlum þá kostar auglýsing á heilli blaðsíðu 500.000 kr. að lágmarki. Auglýsingar í ljósvakamiðlum kosta álíka með hliðsjón af texta eða myndefni.
Það sem er áberandi við þetta er að það starfsfólk sem vinnur við þetta, fjölmiðla, er í flestum ef ekki öllum tilvikum fólk með langskólanám að baki (Háskóla). Nám sem skilar engu nema sem atvinnubótavinna þar sem þetta fólk fyrirlítur störf sem skila raunverulegum verðmætum til þjóðarbúsins. Atvinnubótavinna getur aldrei orðið arðbær fyrir þjóðarbúið á meðan skortur er á vinnuafli til framleiðslustarfa.
Svo virðist sem að orðatiltækið um að láta nám eða kunnáttu í askana sé orðin ástríða. Það viðurkenna flestir að gott er að hafa góða kunnáttu eða þekkingu en slíkt fer ekki í askana ef lifibrauðið er fengið með óarðbæru starfi sem rýrir lifibrauð annarra. Er svo komið að við fjölgun Háskóla er farið að unga út margs konar menntun sem skilar ungu fólki út í atvinnulífið með draumsýn um góðar tekjur tengdar þeirri menntun sem það hefur aflað sér.
Offjölgun á fólki á ýmsum sviðum þekkingar er hættulegra en mikið atvinnuleysi í þjóðfélagi. Atvinnubótavinna er ekkert annað en leynt atvinnuleysi. Atvinnubótavinna við auglýsingastörf er leynt atvinnuleysi í þjóðfélaginu sem er gróf skattaálagning á neytendur sem greiða kostnaðinn með hærra verði vöru og þjónustu.
Fræg er heilsíðugrein kennara sem skrifuð var um 1960 þar sem kennarinn varaði við hinum svokölluðu fræðingum. Benti hann á vandamálið sem þá var komið fram þegar verið var að vísa börnum til margs konar fræðinga án nokkurs árangurs. Allt sem talið var vandamál barna var vísað til fræðinga innan skólans. Fræðinga sem voru á þeim tíma ofaukið í kennslumálum barnanna og skilaði engum árangri. Vandamál sem kallað er í dag ofvirkni eða athyglisbrestur hjá börnum er skortur á athygli foreldranna og misþroska þeirra því þroski barna fer ekki eftir aldri þeirra. Það eru ekki öll börn jafnþroskuð á tilteknu aldursári.
Þessir kvillar sem kallaðir eru ofvirkni og athyglisbrestur barna í dag eru afleiðingar á stofnanauppeldi barna í anda ARÍA-kenningar Hitlers. Vandamálin tvö eru vegna þarfa barnanna á athygli foreldranna. Athygli sem börn fá ekki hjá gervi-mæðrum stofnana. Stofnana sem eru óbein fangelsi í samanburði við frjálsræði barna við leik og störf áður en fangelsin voru sett á laggirnar sem kölluð eru leikskólar.
Er kominn tími til að átta sig á því að fræðingamenntunin skilar ekki þeim árangri sem stefnt er að og er þar fremst í flokki fjölmiðlafræðingar sem hafa að aðalstarfi (atvinnubótastarf) við auglýsingar. Auglýsingar eru að 90% kostnaðarauki fyrir neytendur.
Reykjavík 9. september 2016
Kristján S. Guðmundsson
fv. skipstjóri
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.