21.9.2016 | 11:12
Ábyrgð fasteignasala
Samkvæmt lögum er fasteignasala falið það hlutverk að vera fulltrúi beggja aðila, kaupanda og seljanda fasteigna.
Ef grannt er skoðað er það fáránlegt að ætla einum aðila að hafa tvær skoðanir jafngildar á sama tíma hverju sinni.
Upp er komið atvik við sölu fasteignar þar sem fasteignasali sem fulltrúi kaupanda vann gegn hagsmunum kaupandans. Staða málsins er sú að eftir undirritun kaupenda og samþykkis á gagntilboði seljanda, og þar með var kominn á bindandi samningur milli aðila, þá snýst forstjóri fasteignasölunnar gegn hagsmunum kaupanda. Þótt kaupendur hafi staðið við allar sínar skuldbindingar tilboðsins varðandi greiðslur og aðra þætti samningsins og kaupendur margt oft farið fram á að gengið verði formlega frá málum með undirritun á svokölluðum kaupsamningi, sem er formsatriði, hunsaði fasteignasalinn það með margs konar afsökunum.
Að kröfu fasteignasölunnar lögðu kaupendur inn hjá fasteignasölunni pappíra upp á greiðslu rúmlega 28 milljóna króna vel tímalega, með vísan til ákvæðis í samningi um tímalengd fjármögnunar á kaupum, svo hægt væri að ganga frá málum.
Vegna trassaskapar fasteignasalans, varðandi afgreiðslu málsins í tæpa tvo mánuði, var umræddum samningi, samþykktu gagntilboði seljenda, þinglýst hjá sýslumanni ef með því væri hægt að knýja fram afgreiðslu málsins. Var fasteignasalanum strax tilkynnt um þinglýsingu samningsins.
Fasteignasalinn brást ókvæða við með stóryrðum vegna þinglýsingarinnar en hélt áfram sínum slóðaskap og tvískinnungi og hunsaði afgreiðslu málsins þar til hann tilkynnti munnlega og síðan í tölvupósti að eigendur (seljendur) væru hættir við sölu. Í framhaldi af þeirri tilkynningu sagði fasteignasalinn að samningsbundnir kaupendur gætu gert nýtt tilboð í eignina.
Með þeirri yfirlýsingu fasteignasalans gaf hann í skyn að það þyrfti að hækka verðið þrátt fyrir þann bindandi samning sem þegar lá fyrir. Með yfirlýsingu fasteignasalans kom enn og aftur skýrt fram sá óheiðarleiki sem kaupendum hafði verið sýndur af hálfu fasteignasalans eins og fram koma í tölvupóstsendingum frá fasteignasölunni. Þrátt fyrir ítrekaðar kröfur kaupenda til fasteignasalans um að lögð yrði fram skrifleg yfirlýsing seljenda um að þeir hygðust hverfa frá sölunni hefur slíkt ekki fengist.
Þremur vikum eftir að fasteignasalanum var tilkynnt um þinglýsingu, þegar gerðs bindandi kaupsamnings vegna eignarinnar, viðurkenndi hann að hann hefði ekki tilkynnt seljendum um þá framkvæmd (þinglýsinguna) en bauð upp á að kaupendur leggðu fram nýtt kauptilboð.
Þetta mál sýnir þann alvarlega veikleika í lögum um starfsemi fasteignasala að fasteignasali sé fulltrúi beggja aðila, kaupanda og seljanda.
Yfirleitt eru fasteignakaup og sala fasteignar tekin mjög alvarlega af beggja hálfu, kaupanda og seljanda. En með óheiðarlegum aðila (fasteignasala), er annast milligöngu um sölu og kaup fasteignar eins og hér er lýst, þá er slíkur gjörningur af hálfu fasteignasala reiðarslag fyrir kaupendur.
Ef það er stefna stjórnvalda að skapa þurfi ný störf fyrir lögfræðinga til að annast samningagerð fyrir kaupendur með tilheyrandi kostnaði við kaupin, auk tveggja ára slóðaskapar af hálfu dómstóla við afgreiðslu mála, væri æskilegt að það væri upplýst.
Er hér enn og aftur bent á ófullnægjandi afgreiðslu Alþingis (alþingismanna) á samskiptareglum þegnanna sem kallaðar eru lög en eru í raun lögleysa því ekki er hægt að fara eftir þeim (lögunum, samskiptareglunum). Sú ókurteisi alþingismanna við setningu laga að hinn almenni þegn þurfi að leggja út í ómældan kostnað við málarekstur fyrir dómi til þess að ná fram rétti sínum, við eins einfaldan gjörning og fasteignakaup eru, er óásættanlegt.
Eftir undirritun kauptilboðs eða gagntilboðs af hálfu kaupanda og seljanda við fasteignakaup á sá aðili sem stendur við sinn hluta af samningnum, í þessu tilviki kaupandi, ekki að þurfa að standa í margra mánaða baráttu fyrir dómstólum ef seljandi vill falla frá sölu af annarlegum löglausum ástæðum. Afgreiðsla slíkra mála með úrskurði þar til bærra aðila á ekki að taka meira en 7-10 daga (5-8 virkra daga) og á kostnað ríkisins ef lög eru ekki nægjanlega skýr.
Reykjavík 21.september 2016
Kristján S. Guðmundsson
fv. skipstjóri
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.