23.9.2016 | 10:07
Þingræði Gerræði
Fram hefur komið í fréttum upplýsingar um frammistöðu þingmanna á Alþingi Íslendinga.
Nýlega samþykktir af Alþingi er svokallaðir Búvörusamningar þar sem umræddur samningur var samþykktur með 19 atkvæðum af 64 hausum sem sitja á Alþingi. (Innan við 50% þingmanna komu að atkvæðagreiðslu á málinu).
Sú ókurteisi sem sýnd er af Alþingismönnum (konur og menn) með afgreiðslu á þessu máli að hægt sé að binda þjóðina við samninga þegar tæpur þriðjungur þingmanna stendur að samþykktinni er ósvífni. Þetta á ekki við það hvort umræddur samningur sé góður eða slæmur heldur það að hægt sé að binda hina íslensku þjóð af gjörðum þingmanna með samþykkt tæplega þriðjungs af kjörnum fulltrúum.
Til hvers er verið að hafa 64 hausa skráða á Alþingi ef um 50 % eru þar aðeins til að vera skráðir sem móttakendur launa sinna. Spyrja má hvort lög sem samþykkt eru á Alþingi með undir 30% atkvæða kjörinna þingmanna geti talist lög?
Með þessu framferði þingmanna er komin skýringin á því hvers vegna ekki næst fram breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Ástæðan er valdagræðgi þeirra sem valdir eru til setu á Alþingi.
Varðandi störf þingmanna er einnig þörf á að taka til skoðunar þær upplýsingar sem verið hafa í fréttum um fjarvistir þingmanna án skýringa.
Hinn almenni launþegi verður að gera grein fyrir fjarveru sinni frá vinnu og því ætti sú skylda einnig að hvíla á þjónum þjóðarinnar, Alþingismönnum, að þeir skili þeirri vinnu sem þeir eru ráðnir til. Hafa þarf það sérstaklega í huga að þeir sem sitja og setið hafa á Alþingi haf sótt í það að komast í stól í Alþingishúsinu en ekki verið þvingaðir til þess. Þar með er engin afsökun fyrir þá að sinna ekki þeirri skyldu að skila þeirri vinnu er þeir hafa sótt í.
Í ákvæði stjórnarskrárinnar um þingmenn þá skulu þeir ávalt fylgja samfæringu sinni. Því verður það að teljast undarlegt þegar fram kemur í fréttum að þingmenn eigi að fylgja ákveðnum skoðunum forystumanna þingflokkanna varðandi þau mál sem eru til umræðu og þar með þeir sem taldir eru tilheyra þeim flokkum sem standa að ríkisstjórn eigi að fylgja forystusauðum stjórnálaflokkanna við atkvæðagreiðslu. Þessi framsetning á störfum Alþingis er gerræði en ekki lýðræði.
Sú furðulega afstaða margra þingmanna sem fram kom við atkvæðagreiðslu umrædds samnings, svokallaðan Búvörusamning, er í ætt við svar við fyrirspurn og svarið er: Mér er alveg sama. Það að sitja hjá eða mæta ekki á þingfundi merkir að viðkomandi sé alveg sama hvað fram fer á þinginu og sá sé aðeins áskrifandi launa sinna.
Varðandi ákvæði stjórnarskrár um það að þingmaður fylgi ávalt samfæringu sinni við afgreiðslu mála verður að telja að þeir sem sem taldir eru alþingismenn og ekki hafa skoðun á þeim málum sem eru til umfjöllunar í þinginu og afgreiði mál með því hugarfari : Mér er alveg sama, þeir eigi engan rétt á sér í slíkum störfum.
Afgreiðsla þingmanna á lögum með hugarfarinu Mér er alveg sama leiðir fyrr en seinna til einræðistilburða er einkenndi Nazismann á sínum tíma.
Í framhaldi af þeirri óreiðu sem er á afgreiðslu Alþingis er þörf á að koma inn í stjórnarskrána ákvæði um það að til þess að lög öðlist gildi þurfi 2/3 hlutar af kjörnum þingmönnum að vera samþykkir breytingum á lögum til þess að þegnarnir séu bundnir af þeim lögum. Við höfum ekkert að gera með þingmenn á Alþingi sem eru þar í þeim eina tilgangi að vera á móti síðasta ræðumanni. Hefur það verið talinn megin tilgangur með Alþingi að settar séu samskiptareglur fyrir þegnana, lög, sem hægt er að fara eftir og séu til hagsbóta fyrir alla þegnana.
Því er hér með spurt: Voru lög sem ágreiningur er um, varðandi náttúruvernd, samþykkt á Alþing með hugarfarinu: Mér er alveg sama. Í ljós hefur komið að lög þessi eru túlkuð á allt annan hátt en vilji alþingismanna hafi verið við samþykkt laganna. Fljótaskrift í störfum Alþingis hefur í áratugi einkennst af því að ljúka afgreiðslu mála á síðustu dögum fyrir þinghlé sem reynst hafa mein gölluð vegna vanhugsunar af hálfu þingmanna. Því miður er það svo að stór hluti laga sem alþingismenn samþykkja er hægt að túlka á svo marga vegu að ekki er hægt að fara eftir þeim eða ekki vilji til að fara eftir þeim. Þetta hefur verið niðurstaða í mörgum dómsmálum eins og fram hefur komið við afgreiðslu dómara við uppkvaðningu dóma þar sem einkahagsmunir dómaranna ráða niðurstöðum í málum en ekki lagabókstafurinn.
Oft er talað um að á Íslandi sé lýðræði. Í reynd er það svo að hér á landi er það flokksræði sem er stjórnarfarið en ekki lýðræði. Kúgunarvald forystu stjórnmálaflokka er allsráðandi. Þingmenn sem ekki lúta flokksræðinu eru settir í skammarkrókinn og settir til hliðar við allar ákvarðanir sem teknar eru. Hinir pólitísku flokkar eru HALLELÚJAsamkomur þar sem eitt viðhorf ræður en ekki sannfæring þingmanna. Sá/sú sem kemst í sæti í Alþingis-sal þá er stóllinn meira virði launanna vegna en málefnaleg sannfæring þingmannsins.
Hafa þarf það sérstaklega í huga að störf á Alþingi eru ekki til persónulegs ávinnings þingmanna heldur í þágu þjóðarinnar allrar og því þurfi að vanda til verka og afnema pólitískt skítkast á milli þingmanna.
Reykjavík 23. september 2016
Kristján S. Guðmundsson
fv. skipstjóri
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.