Siðleysi – siðblinda

Upp er komin sérkennileg staða í íslensku réttarkerfi vegna harkalegrar ádeilu á störf dómara. Er það svo að þeir sjálfir, dómararnir, telja nauðsynlegt að koma sjálfir upp sérstökum siðareglum um störf sín í þeim tilgangi að bæta ímynd sína. Þessi hugmynd um siðareglur er tilkominn vegna hins neikvæða álits íslensks almennings á starfsemi réttarkerfisins (dómara).

Þetta er meira en lítið undarlegt uppátæki dómara vegna skýrra ákvæða í lögum um störf dómara um að þeir skuli einungis í störfum sínum fara eftir gildandi lögum landsins. Í störfum dómara felst það að úrskurða um hver skuli vera túlkun á ákvæðum laga ef ákvæði laganna eru ekki nægjanlega skýr svo túlka megi þau á fleiri en einn veg. Ein túlkun dómara á gildandi lagaákvæði skal vera túlkun á því lagaákvæði á meðan lögin eru í gildi.

Í frétt frá aðalfundi Dómarafélafsins þá telja dómarar að neikvæðar skoðanir almennings á störfum þeirra stafi af vanþekkingu á þeirra störfum. Þetta viðhorf dómara ber keim af því að þeir líta á sig sem óskeikula guði og almenningur eigi bara að taka við því sem frá guðunum kemur. Var kallað á fyrri öldum að kyssa á vöndinn. Dómarar neita að viðurkenna mistök eða ásetnings lögbrot af hálfu dómara þrátt fyrir að sannanir liggi fyrir skriflegar.

Þrátt fyrir opinberar ákærur á hendur dómurum fyrir lögbrot hafa aðilar ekki þorað að stefna ákærendum fyrir órökstuddan málatilbúnað og ærumeiðingar því þeir vita upp á sig skömmina (svívirðinguna sem þeir hafa látið frá sér). Þeir hafa heldur séð um að málin hafa verið svæfð hjá hinu opinbera ákæruvaldi. Í anda samtryggingar á meðal svokallaðra æðri starfsmanna hins opinbera.

Ef hinir ákærðu dómarar hefðu talið að um ósannar ásakanir væri að ræða í framlögðum ákærum hefðu þeir miskunnarlaust knúið fram réttarhöld til að knésetja kærendur. En vegna eigin vitneskju dómaranna um réttmæti ákæranna er valið að þegja í von um að óveðrið gangi yfir. Ákærurnar hafa verið lagðar fram undir fullu nafni svo hinir ákærðu hafa enga afsökun um skort á vitneskju hverjir kærendur séu.

Það sem vafist hefur fyrir dómurum er að sumir þeirra telja sig geta túlkað ákvæði laga á einn veg í dag en á annan veg á morgun ef það hentar betur hagsmunum þeirra sjálfra. Slík túlkun laga er skýlaust brot á gildandi lögum þar sem ein lög eiga að gilda í landinu og einn skilningur á ákvæðum laganna. Slík túlkun á lögum (einkatúlkun dómara án tengsla við gildandi lög) kallast utanlagadómur. Ef ekki er einn skilningur á ákvæði laganna er útilokað fyrir þegna landsins að fara eftir samskiptareglum þegnanna, lögunum, ef fleiri en ein túlkun er í gangi fyrir ákveðnar lagagreinar samkvæmt úrskurðum dómara.

Dómarar hafa fullt leyfi, og þurfa ekki leyfi annarra, til að setja sér sérstakar siðareglur um samskipti þeirra innbyrðis, en reglur er varða störf þeirra hvað varðar túlkun þeirra á ákvæðum laga hafa þeir engan rétt til að hafa afskipti af. Starfsreglur dómara hvað varðar túlkun á lögum eru taldar skýrar í gildandi lögum um störf dómara.

Í lögum um störf dómara:

43. gr. Dómarar eru sjálfstæðir í dómstörfum og leysa þau af hendi á eigin ábyrgð. Við úrlausn máls fara þeir eingöngu eftir lögum og lúta þar aldrei boðvaldi annarra.

Hvað varðar úrlausn máls eins og fram kemur í lögunum verður það að teljast vafasöm túlkun á ákvæði laga að eftir að einu sinni hafi ákvæði lagagreinar verið túlkuð af dómara þá geti dómari sem fær sambærilegt mál til úrlausnar daginn eftir komið með aðra túlkun því það sé hagstæðara fyrir vin dómarans.

Þar sem fullyrt er af hálfu dómara að dómsuppkvaðning sem túlkun á ákveðnu ákvæði gildandi laga hafi lagagildi. M.ö.o. að einu sinni dómsuppkvaðning um túlkun lagagreinar er endanleg túlkun og verður ekki breytt nema löggjafarsamkoman breyti orðalagi lagagreinar. Þetta þýðir að dómsuppkvaðning um skilning sem lagður er í orðalag lagagreinar er bindandi fyrir dómara framtíðarinnar á meðan lagagrein er óbreytt af löggjafarsamkomunni.

Ef að siðareglur um starfsemi dómara eiga að vera í höndum þeirra sjálfra er komið upp vandamál um hverjir annist setningu á samskiptareglum (lögum) sem þegnarnir eiga að fara eftir. Einkasiðareglur settar af dómurum sjálfum varðandi uppkvaðningu dóma getur aldrei verið annað en lögbrot, ef slíkar siðareglur eigi að ná inn á ákvæði laga um störf dómara, því störf dómara skulu lúta gildandi lögum.

Þrátt fyrir ákvæði lagagreinarinnar um sjálfstæði dómara og þeir leysi störf sín á eigin ábyrgð skulu þeir í úrskurði sínum eingöngu fara eftir gildandi lögum landsins en ekki einkahagsmunum eða hefndarþrá.

Af framanrituðu er ekki hægt að sjá að dómarar geti sett sérstakar siðareglur hvað varðar túlkun á gildandi lögum við uppkvaðningu dóma. Kærur á hendur dómurum fyrir meint lögbrot eiga ekki að þurfa að lúta afgreiðslu af hálfu dómara sem eru vanhæfir samkvæmt ákvæðum laga um vanhæfi í starfi.

Ákvæðið um eigin ábyrgð dómara á afgreiðslu mála er eitt af furðufyrirbærum í ákvæðum gildandi laga um störf dómara þar sem dómari er alltaf ábyrgðalaus og getur brotið lög sem dómari af eigin geðþótta eins og framlagðar kærur á hendur dómurum sína.

Samkvæmt 53. grein laga um störf dómara eru þeir ábyrgðarlausir:

Um refsiábyrgð dómara vegna háttsemi hans í embætti fer eftir almennum hegningarlögum og sérákvæðum annarra laga. Verði athafnir dómara í starfi eða athafnaleysi öðrum til tjóns ber ríkið á því bótaábyrgð eftir almennum reglum. Dómari verður ekki sjálfur krafinn um bætur en ríkinu er þó heimilt að gengnum áfellisdómi að beina að honum framkröfu, enda hafi ásetningsverk hans leitt til bótaskyldu.

Ríkið ber ábyrgð á lögbrotum dómara náist að koma málum svo langt að slíkt máli komi fyrir dóm og niðurstaða verði um meint lögbrot dómarans. Vegna ákvæðis laga um ríkisábyrgð á tjóni er dómarar valda þegnunum fást ekki kærur á hendur dómurum rannsakaðar af framkvæmdavaldinu þrátt fyrir skýr ákvæði um störf og skyldur þess valds (framkvæmdavalds) til að rannsaka kærur um meint lögbrot þegnanna.

Allar kærur á hendur dómurum um lögbrot við dómsuppsögu eru svæfðar af framkvæmdavaldinu og neitað af hálfu þess valds að fara að gildandi lögum landsins. M.ö.o. að lögbrot sem framin eru af dómurum eru lögleg lögbrot samkvæmt ákvörðun framkvæmdavalds að hindra allar rannsóknir á kærum sem beinast að störfum dómara vegna lögbrota í starfi. Verður það að teljast undarlegt framlag ríkisvaldsins til réttarkerfisins að innan þess kerfis skuli vera löglegir glæpamenn. Siðlausir og siðblindir mannréttindaþjófar, mannorðsmorðingjar og réttarfarsnauðgarar.

Við uppkvaðningu dóma sem ekki standast gildandi lög landsins er um hreint lögbrot og gróft siðleysi ef ekki siðblindu af hálfu dómara. Slíkir dómar (utanlagadómar) eru hrein ásetningsbrot af hálfu dómara. Sem dæmi um slíka siðblindu dómara má nefna þegar dómari notar fölsuð skjöl sem dómur er byggður á eða úrskurður dómara gengur þvert á orðanna hljóðan í lögum landsins eins og dæmi eru um. Í kærum þeim sem lagðar hafa verið fram hjá lögreglu, en neitað um rannsókn á meintum kærum, hafa verið lagðar fram skriflegar sannanir fyrir hinum fölsuðu gögnum og hvað varðar skýr ákvæði laga sem hafa verið hunsuð af dómara (orðanna hljóðan).

Rétt þykir að benda á tvær yfirlýsingar dómara í dómþingi er lýsir afstöðu þeirra til ákvæða laga um störf þeirra. Einn dómari sem átti að annast yfirheyrslur fyrir dómi og hafði dómþing verið sett. Þá lýsti dómarinn því yfir áður en kom að yfirheyrslunni að dómarar væru á móti ákvæðum þeirra laga sem málið snerist um. Í öðru tilviki var dómara bent á að framgangur máls í dómþingi stangaðist á við ákvæði gildandi laga þegar lögpersóna var lögð að jöfnu við persónu þegar kom að spurningunni hvort lögpersóna hefði bestu vitund og væri áreiðanlegt vitni. Málið varðaði það hvort lögpersóna gæti tekið á sig ábyrgð persónu eða lögpersóna hefði bestu vindund og væri áreiðanlegt vitni. Eftir ábendinguna til dómarans svaraði hann „Við horfum oft framhjá þessum atriðum“. M.ö.o. það voru ekki gildandi lög í landinu sem dómarinn átti að fara eftir (að hans eigin mati) heldur geðþótta dómarans sem var að hlífa vini sínum.

Þessi tvö atriði sem minnst er á sína gróft siðleysi og siðblindu af hálfu dómara og lýsir valdhroka og virðingarleysi þeirra gagnvart gildandi lögum landsins. Eitt alvarlegasta siðleysi og siðblinda í íslensku réttarkerfi er það að kærð lögbrot dómara skuli sæta dómsmeðferð dómskerfisins þar sem lögbrjótarnir starfa en ekki falla undir sérstakt úrskurðarráð eins og kviðdóm sem skipaður væri af óháðum aðilum og ótengt dómskerfinu. Ekki er hægt að búast við réttlátri meðferð máls þegar skipaðir dómarar koma að kærumálum á hendur dómurum fyrir lögbrot. Allir dómarar eru vanhæfir við afgreiðslu slíkra mála og auk þess eru vanhæfir 95% af löglærðum aðilum í landinu sem bíða eftir að komast í starf dómara.

Þegar sannanir liggja fyrir um viðhorf dómara til gildandi laga í landinu virðist það augljóst að siðareglur sem settar yrðu af dómurum sjálfum, um starfshætti sína, þá verður það ekki til að virða gildandi lög landsins heldur fullnæging geðhvarfa sem hrjáir marga dómara.

Ein grófasta siðblinda sem fram kemur í íslensku réttarkerfi fer fram í dómþingum (í dómssal). Við málflutning er ekki allt sem sagt er hljóðritað heldur ákveður dómari hvað er hljóðritað. Dómari skráir eitt og annað hjá sér í dómþingi og stundum eru skráð ósannindi ef það þjónar málstað dómara sem hefur verið staðinn að lögbrotum. Má þar minnast á bókun dómara í gerðarbók dómsins. Þar sem bókunin var ósannindi var hún (bókunin) borinn undir annan dómara og sagt að um fölsun gerðarbókar væri að ræða. Þá svaraði dómarinn sem bókunin var lögð undir: „Þetta er ekki fölsun en afar illa orðuð bókun í gerðarbók dóms“. M.ö.o. Bókunin væri ekki fölsun en væri ekki rétt og því röng bókun.

Við málflutning eftir lok gagnaöflunar í máli er ekki um hljóðritun á því sem fram kemur hjá málflytjendum (sóknarræðu og varnarræðu) en dómari skráir hjá sér það sem hann telur ástæðu til að skrá. Af þeim sökum, að ekki er um hljóðritun á ræðum að ræða þá getur dómari skráð hjá sér ósannindi um málflutning aðila eins og sannanir eru fyrir hendi. Dómari skráði í dómsorð ósannindi um málflutning aðila þar sem ræða málsaðila var fyrir hendi skrifleg. Dómari komst upp með sín ósannindaskrif þar sem ekki var fyrir hendi hljóðritun á málflutningi aðila.

Þess ber einnig að geta að málsaðili getur ekki sýnt fram á hvað fram kom við málflutning þar sem hljóðritun liggur ekki fyrir af því sem sagt er og þar af leiðir að dómari getur hagað sér að eigin vild og logið til um það sem fram hafi komið við málflutninginn eins og gerst hefur.

Af framanrituðu má vera ljóst að það eru ekki sett lög af löggjafarsamkundunni sem farið er eftir við dómsuppkvaðningar heldur geðþótti dómara. Lögin eru aukaatriði sem vitna má í þegar það hentar dómaranum. Þeir vilja sjálfir setja sér siðareglur, en þar fyrir utan eru það hagsmunir og geðhvörf dómarans, hins löglega lögbrjóts samkvæmt ákvörðun framkvæmdavalds, sem ráða ferð við reksturs máls fyrir dómi en ekki lögin.

Reykjavík 9. desember 2016

Kristján S. Guðmundsson

Árskógum 6

109 Reykjavík


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband