100 milljónir

Þær fréttir hafa borist að sólunda eigi 100 milljónum ísl.kr. til þess að liðka fyrir sölu á lambakjöti til útlanda. Þeir sem standa fyrir þessari sóun fjármuna ættu að íhuga það hvort ekki væri nær að huga að því að lækka verð á lambakjöti á íslenskum markaði. Jafnframt því á að hindra innflutning á kjöti erlendis frá sem eingöngu er ætlað fyrir fólk á ofurlaunum í landinu.

Innflutningur á kjöti eins og af kengúrum frá Ástralíu, nautgripakjöt frá fjarlægum löndum, hjartarkjöt, kjöt af dádýrum, kjöt af krónhjörtum og fleiri tegundum s.s. fuglum frá Suðaustur –Asíu er að stærstum hluta aðeins fyrir þá sem hafa ofurlaun. Ef mislukkaðir milliríkjasamningar sem stjórnvöld hafa samið um eru hindrun í að hefta innflutning á kjöti, sem er dýrara að flytja til landsins en innkaupsverðið er í upprunalandinu, á að segja upp slíkum samningum þegar í stað.

Er tímabært fyrir stjórnvöld að huga að verðlagi á matvörum á Íslandi og þeim ofurgróða sem fellur í hendur sárafárra eigenda matvöruverslana á íslandi. Ef flutningafyrirtæki (flugvélar og skip) þrífast aðeins á að stunda flutninga á ónauðsynlegum varningi til og frá landinu er í lagi að draga þar lítillega úr þjónustu.

Íslensk stjórnvöld hafa annast innflutning á öllum þeim húsdýraplágum sem borist hafa til landsins á undanförnum öldum og ætti það að vera næg viðvörun til stjórnenda landsins að fjölga ekki þeim vágestum sem húsdýraplágur eru.

Ef Íslendingar eru ekki færir um að annast matvælaframleiðslu fyrir landsmenn er illa komið fyrir þjóðinni. Því er óþarfi að flytja inn framandi kjöttegundir til að þjóna girnd ofurlaunþega sem skammta sér launin sjálfir.

Með vísan til frétta af næringarskorti á meðal eldra fólks væri það verðugt verkefni fyrir stjórnvöld að huga að verðlækkun á íslensku kindakjöti svo að eldri borgarar hafi efni á að kaupa þá fæðutegund sem fólkið er alið upp við og kann best við. Þær hundrað milljónir sem fyrirhugað er að nýta til þess að greiða niður kindakjöt til útflutnings væri betur varið til að greiða niður verð innanlands og með því hugsanlega að minnka næringarskort hjá eldra fólki.

Reykjavík 22. desember 2016

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband