Rán á eftirlaunum á Íslandi.

Á Íslandi er stundað skipulegt rán af hálfu stjórnvalda á eftirlaunum landsmanna.

Við það að bankarnir voru rændir af óheiðarlegum aðilum þar sem sparifé þúsunda landsmanna (eftirlaunavarðveislufé í vörslu banka) sem varðveitt var hjá bönkum landsins var hirt bótalaust og hafa eftirlaun þúsunda Íslendinga verið skert svo að um munar.

Bankarán framið í Landsbanka Íslands leidd til þess að milljarðar voru hirtir úr Lífeyrissjóði hf. Eimskipafélagi Íslands. Var meðal annars hluti af því fé sem hvarf lánveiting til stjórnarformanns Landsbankans sem lýsti sig gjaldþrota eftir hrun bankans.

Fjármagn lífeyrissjóðsins var flutt úr öruggari varðveislu yfir í Landsbankann að fyrirmælum stjórnarformanns bankans eftir að hann keypti meirihluta í H.F. Eimskipafélagi Íslands. Þetta var gert þrátt fyrir ákvæði í samkomulagi frá 1957 um að vörslufé lífeyrissjóðsins yrði aldrei varðveitt í viðskiptabanka sem H.F. Eimskipafélag Íslands væri í viðskiptum hjá. Við afskráningu af hlutafélagaskrá á H.F. Eimskipafélagi Íslands á árinu 2006 féll úr gildi samkomulag stéttarfélaganna við stjórn hlutafélagsins frá 1957 um afskipt stjórnenda fyrirtækisins H.F. E. Í. af lífeyrissjóðnum. Stjórnarformaðurinn (Landsbankans) og eigandi H.F. Eimskipafélags Íslands fram að afskráningu félagsins 2006 neitaði að viðurkenna að um rof á samningi frá 1957 væri að ræða við afskráningu fyrirtækisins af firmaskrá Ríkisskattstjóra 2006 og náði með aðstoð dómsvaldsins á Íslandi (réttarkerfisins – dómur í júlí 2008) að halda völdum yfir lífeyrissjóðnum fram yfir hrun bankans í október 2008. Flestir vita hvað fram kom við hrun bankans og umsögn saksóknara um meðferð fjármuna í vörslu bankans.

Á ársfundi Lífeyrissjóðs H.F. Eimskipafélags Íslands sem haldinn var í húsakynnum fyrirtækisins við Sundahöfn eftir afskráningu fyrirtækisins 2006 var lögð fram af hálfu undirritaðs krafa um að stjórnun lífeyrissjóðsins yrði afhent sjóðfélögum með vísan til samkomulags frá 1957 ( við stofnun sjóðsins) og afskipti af hálfu fyrirtækis sem ekki væri til lengur heyrði sögunni til. Með afskiptum lögmanns hins afskráða fyrirtækis sem var fundarstjóri á umræddum fundi var neitað um umræður á fundinum um umrædda kröfu og henni vísað til stjórnar.

Afleiðing bankaránsins á eftirlaun þeirra sem starfað höfðu hjá H.F. Eimskipafélagi Íslands varð um 40% rýrnun á eftirlaunum þeirra starfsmanna er áttu fé í sjóðnum. Eftir þessa 40% rýrnun eftirlaunanna við hrunið hafa eftirlaun starfsmanna haldið áfram að rýrna og er nú svo komið að þrátt fyrir um 60% hækkun launa á almennum vinumarkaði síðustu 6-7 árin hafa eftirlaun starfsmanna hins aflagða H.F. Eimskipafélags Íslands ekki hækkað nema um ca. 8% á 7 ára tímabili.

Afrakstur rússagullshafans sem var stjórnarformaður Landsbankans í ráni á eftirlaunum starfsmannanna er því orðinn langt yfir helmingur af eftirlaunum launþeganna er starfað höfðu hjá „Óskabarni þjóðarinnar“.

Framferði stjórnvalda í máli þessu er til skammar. Þrátt fyrir yfirlýsingu er fram kom frá saksóknara eftir hrun bankans um að ekki hafi verið staðið rétt samkvæmt lögum að varðveislu geymslufjár lífeyrissjóðsins með hástemmdum yfirlýsingum aðila umlögbrotin var ekkert gert af hálfu framkvæmdavaldsins í þeim málum. Kærur og kröfur sjóðfélaga um rannsókn á meintu misferli við vörslu fjárins hunsaði framkvæmdavaldið allar slíkar kröfur. (Ath. kröfur um rannsókn hálfu voru sendar af hálfu undirritaðs og fjölda meðlima lífeyrissjóðsins).

Ástæða þess að framkvæmdavaldið hunsaði kröfur sjóðfélaga um rannsókn var vegna lélegs eftirlits með lífeyrissjóðunum af hálfu stjórnvalda sem gengust upp í og högnuðust á ólöglegum fjáraustri úr sjóðunum. Ríkisvaldið bar ábyrgð á sjóðþurrð lífeyrissjóðanna vegna vanrækslu.

Með vísan til þess að með óstjórn stjórnvalda og dómsvaldsins þar sem tugir milljarða hafa verið afskrifaðir af skuldum fjölda fyrirtækja. Fyrirtækja sem var stjórnað af eigendum sínum í sukkinu fyrir bankahrun en sjóðfélagar lífeyrissjóðanna látnir bera tapið á þeim afskriftum auðjöfranna þá er komið að því að stjórnvöld skili aftur því sem rænt var úr lífeyrissjóðunum.

Íslenska orðatiltækið „Þjófur þrífst en þjófsnautur ekki“ er gamalt í málinu og spurning hvort það eigi ekki við í þessu tilviki. Með afskiptaleysi eða blessun stjórnvalda hefur lífsafkoma þúsunda Íslendinga verið skert umtalsvert og afkoma þeirra keyrð niður í fátækramörk.

Með vísan til okurgróða bankakerfisins eftir hrunið er það krafa þeirra sem rændir voru af umræddum bönkum, (tilgangslaust að bera fyrir sig kennitöluflakk bankanna) að fjármagninu sem stolið var verði skilað og eftirlaunaþegum bætt það tjón er þeir hafa orðið fyrir á umliðnum árum. Verði launþegum og eftirlaunaþegum ekki bætt það sem haft hefur verið af þeim með innanbúðarbankaránum falla stjórnvöld undir hið aldna orðatiltæki sem áður hefur verið minnst á.

Reykjavík 27. desember

2016 Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband