28.12.2016 | 09:50
Laun þingmanna og ráðherra.
Eftir úrskurð kjararáðs varðandi launahækkun þingmanna og ráðherra hófst mikil ólga í íslensku samfélagi. Var þess krafist að hækkanirnar yrðu dregnar til baka og átti að höfða til skynsemi nýkjörinna þingmanna í þeim efnum.
Eftir kosningar og setningu þingsins hefur ekkert heyrst af af því máli er varðar ofurlaun þingmanna og ráðherra þar til frétt birtist í Fréttablaðinu 28. desember varðandi málið.
Kemur þar skýrt fram hvert eðli hinna nýkjörnu þingmanna (afæta íslensks samfélags) er í afstöðu til kröfu almennings um afturköllun á umræddri launahækkun. Samkvæmt fréttinni er enginn vilji á meðal þingmanna til að skerða ofurlaun sín. Er þar komið innsta eðli afæta í íslensku samfélagi sem skammta sjálfum sér laun sem orsakar skerðingu á lífsafkomu annarra landsmanna.
Rétt þykir að benda á að oft koma fréttir af litlu eða engu trausti á þingmönnum og fleiri aðilum í opinberum störfum svo sem dómurum. Hið litla álit Íslendinga á störfum þessara aðila (þingmanna, ráðherra og réttarkerfisins) nálgast oftar fyrirlitningu á þessum aðilum vegna framferðis þeirra í þágu eigin hagsmuna á kostnað almennings. Það er Alþingi sem setur lögin um afgreiðslu Kjararáðs og orðanna hljóðan í lögum um starfsemi Kjararáðs er sniðið að græðgi og ósvífni þeirra sem stjórna lagasetningunni, Alþingismönnum/konum.
Á undanförnum áratugum hefur nokkrum sinnum komið til árekstra á íslenskum vinnumarkaði vegna þeirrar ósvífni er fram hefur komið í úrskurðum Kjaradóms / Kjararáðs ((ath. það er skipt um heiti á þessu illþýði eftir þörfum sem falið er að ákvarða laun ákveðinna starfsmanna ríkisins til að villa um fyrir almenningi)) að taka aldrei tillit til þróunar í launamálum almennings. Er tímabært að almenningur fái upplýsingar um kostnað við þetta fyrirbæri sem kallað hefur verið Kjaradómur eða Kjararáð og greiðslur til hvers einstaklings sem skipaðir hafa verið í þessi embætti. Samkvæmt upplýsingum fá þeir aðilar er skipa þessar stöður ofurlaun miðað við laun hins almenna borgara. Þar af leiðandi þurfi hinir skipuðu aðilar að vinna fyrir ofurlaunum sínum með því veita þeim sem skipa þá í starfið einnig ofurlaun langt umfram alla skynsemi.
Samkvæmt fréttinni í Fréttablaðinu er enginn vilji innan þingsins til að hrófla við úrskurði Kjaradóms því þingmenn vilja halda í hinn illa fengna kaupauka sem úrskurður Kjaradóms færði þeim á gull-platta. Illa fenginn kaupauka sem líkja má við hreinan þjófnað úr sjóði almennings. Framferði þetta er í ætt við dæmisöguna um mýsnar sem fengu apa til að skipta ostbita er músunum hafði áskotnast. Apinn át allan ostinn eins og afætur á Íslandi gera með framferði sínu í umræddu launamáli.
Nú er eina ráðið fyrir hinn almenna launþega að stefna af hörku í alvarlega kjaradeilu á vinnumarkaðnum sem ætti að leiða til þess að upphefja ósvífni Kjaradóms í launahækkunum þingmanna og ráðherra og knýja á um að í framtíðinni verði fulltrúar launþega sem skipi umrætt Kjararáð en ekki fósar og vinir þingmanna.
Gera má ráð fyrir því að hinir gráðugu þingmenn drífi í að ná saman ríkisstjórn til þess að minnka líkur á nýjum kosningum á næstu mánuðum sem vafalítið myndi leiða til þess að mörgum þeirra sem nú verma stóla Alþingis verði sparkað út vegna hinnar meintu græðgi þeirra og að hunsa vilja almennings til að launahækkanir ofurlaunanna verði afturkallaðar. Miðað við fréttir af stjórnarmyndunarviðræðum síðustu vikna er það aðeins ótti þingmanna við að verða sparkað af þingi sem ræður úrslitum um skipun nýrrar ríkisstjórnar eða kosningar.
Reykjavík 28. desember 2016
Kristján S. Guðmundsson
fv. skipstjóri
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.