2.1.2017 | 07:32
Nútíma þrælahald
Sjónvarpsserían ROOTS sem sýnd er í íslenska sjónvarpinu og fjallar um meint fyrritíma þrælahald og meðferð þræla í Ameríku. Það er viðurkennt að hið svokallaða þrælahald var ómannúðleg meðferð á fólki sem féll undir það sem kallað var þrælar.
Það sem er sláandi við þann boðskap sem myndin sýnir er að þrældómurinn hefst við aðgerðir samlanda þeirra sem hnepptir eru í þrældóm. Er þar um að ræða einhvers konar ættar- eða hrepparíg innan ríkis þessa fólks með dökka hörund. Þeir selja samlanda sína til nauðungarvinnu til þeirra sem vildu greiða fyrir þá og virðist greiðslan hafa falist í vopnum til að geta haldið hremmingum á samlöndum sínum áfram.
Meðferð á hinum svokölluðu þrælum var í anda eignarréttarins að mega beita fólkið, þrælana, þeirri meðferð sem einkenndi geðástand hinna töldu eigenda. Myndin sýnir geðrænt ástand sumra þeirra sem höfðu eftirlit með þrælunum og hefur verið alvarleg geðveiki eða sadismi.
Í þessum þrælaboðskap kemur fram að almennt var ekki farið illa með þrælana nema að þeir sýndu einhverskonar mótþróa og var þá miskunnarlaust refsað sem hafði þann tilgang að vekja ótta og minnka líkur á frekari mótþróa.
Það sem einkennir frásagnir af hinu svokallaða þrælahaldi var að þrælar voru ódýrt vinnuafl. Þrælar fengu húsnæði, fæði og klæði á kostnað þrælahaldarana og virðist samkvæmt sögu að sumir þrælar sem þjónuðu húsbændum sínu vel hafi notið góðs af því þótt þeir hafi ekki notið hins opinbera frjálsræðis.
Talið er að þrælahald hafi verið afnumið með því að gefa þrælum svokallað frelsi og við það hafi ástandið í mannúðarmálum batnað. Ef grannt er skoðað er ástand þeirra sem taldir eru minna mega sín í nútíma samfélagi lítið skárra, ef ekki verra, en þeirra sem taldir voru eign vinnuveitenda sinna.
Hið svokallaða afnám þrælahalds á ekki að öllu leyti rót sína að rekja til mannúðar eða mannkærleika eins og margir halda í dag. Afnám þrælahalds er afleiðing af iðnvæðingunni. Með afnám þrælahalds og tilkomu véla og þeim hraða er fylgdi vélvæðingunni kom gróðinn til fjármagnseigenda betur til skila með því að vera lausir við aðhald og eftirlit með vinnuaflinu og skera þann kostnað niður er fólst í húsnæði, fæði og fatnaði þrælanna en greiða fólkinu lúsarlaun svo það rétt skrimti.
Á þrælahaldstímanum var þræll seldur ef hans vinnuframlag var ekki talið fullnægjandi eða þrælahaldaranum mislíkaði við hann. Í dag er nútímaþrælahald þannig að starfsmaðurinn er rekinn úr starfi ef vinnuveitanda líkar ekki við starfsmanninn og þar með vinnuöryggi takmarkað, fjárhagsleg afkoma starfsmannsins brotin niður. Nútíma þrælahaldarar hafa engar skyldur gagnvart launþegum nema að greiða þeim lúsarlaun.
Sú eina breyting sem orðið hefur á þrælahaldi er að nútímaþrælahald er byggt á svokölluðum stjórnendum landsins, Alþingi og ríkisstjórn, með aðstoð fjármagnseigenda. Þrátt fyrir að verkalýðsfélög hafi orðið til í þeim tilgangi að bæta kjör þræla nútímans er í grundvallaratriðum lítil breyting á fjárhagslegri afkomu nútíma þræla í hlutfalli við afkomu nútíma þrælahaldara.
Mismunur á launum nútíma þræla og fortíðar þræla í hlutfalli við ofurlaun valdastéttarinnar hefur lítið breyst nema til aukins gróða hjá þrælahöldurunum með aukinni afkastagetu er vélvæðingin hefur leitt af sér. Fjárhagsafkoma nútíma þrælahaldara er ekki lakari ef ekki betri en forvera þeirra á tímum viðurkennds þrælahalds. Ofurgróði nútíma þrælahaldara er slíkur að líkja má við sjúklegu andlegu ástandi þrælahaldaranna hvað varðar sókn í meiri gróða er felst í auðsöfnun eins og fyrri tíma valdagræðgi er fólst í landvinningum.
Á Íslandi hefur barátta almennings til bættra kjara verið miskunnarlaust brotin niður af stjórnendum landsins (Alþingi og ríkisstjórn) sem hafa verið þjónar auðvaldsins. Verkföll hafa verið bönnuð með lögum af Alþingi til að þóknast fjármagnseigendum en hafi verkalýðnum tekist að knýja fram launahækkanir hafa þær verið gerðar að engu með gengisfellingum til að hindra rýrnun á ofurgróðasjóðum fjármagnseigenda.
Af hálfu stjórnvalda og ofurgróðaeigenda hefur verið reynt að hafa hemil á svokallaðri millistétt þjóðfélagsins með því að halda þeim réttu megin við núllið til þess að nýta atkvæði þeirra til áframhaldandi setu á valdastólum. Þeim hluta þegnanna sem ekki falla undir auðvaldið og millistéttina er haldið á sultarlaunum í krafti valds atkvæðanna svo að ofurgróðasjóðirnir í eigu auðvaldsins haldi áfram að stækka.
Hjá stjórnendum landsins er litið á það með velþóknun þegar sárafáir eigendur fyrirtækja veita sjálfum sér bónusgreiðslur upp á milljarða sem kallaðar eru arðgreiðslur þótt umræddar tekjur hafi komið frá eign þjóðarinnar sbr. gróði útgerðafyrirtækja o.fl. Þeir sem sitja við stjórnvölinn, Alþingi og ríkisstjórn, huga vel að eigin afkomu þótt hluti þjóðarinnar búi við skert lífsgæði svo sem hungur og skort á læknishjálp. Eigin afkoma Alþingismanna er í forgangi hjá þeim sem verma stóla Alþingis eins og viðhorfið til síðustu launahækkana þingmanna sýnir. Stólar sem voru keyptir undir þingmennina með framlögum í kosningarsjóði þingmanna af auðmönnum landsins til þess að þeir, auðmennirnir, geti haft hemil á hvernig samskiptareglum þegnanna, lögunum, verði háttað í þeim tilgangi einum að auka gróða þeirra sjálfra, auðmannanna.
Eðli mannskepnunnar hefur ekkert breyst frá fyrri öldum hvað varðar græðgi í auð og völd.
Reykjavík 2. janúar 2017
Kristján S. Guðmundsson
fv. skipstjóri
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.