7.1.2017 | 23:08
Njála
Leiksýningin sem hlotið hefur nafnið Njála og var sýnd í sjónvarpinu á laugardagskvöld 7. janúar 2017 er eitt af furðufyrirbærum mannskepnunnar sem kallað er list. Þessi list (leiksýningin) er í ætt við hina frægu sögu um Nýju fötin keisarans. Verið er að drag áhorfendur á asnaeyrunum eins og í sögunni af keisaranum lánlausa og hafa af þeim (áhorfendum) fé í formi aðgangseyris.
Þessi leiksýning er slíkt nútímabull sem þrífst vegna hræðslu áhorfenda við að tjá sig, eins og hræðsla þegna keisarans, af ótta við að verða sér til athlægis fyrir skort á skilningi á nútíma list. List sem sett er fram til að hæðast að fólki. Í sögu keisarans þorði fólk ekki að tjá sig af ótta við að móðga keisarann en nútíma snobbarar þora ekki að upplýsa að þeir skilji ekki nútíma listamannabullið.
Hið svokallaða listasnobb er orðið mjög víðtækt í íslensku samfélagi því það þykir ekki fínt að skilja ekki listina og verða þar með utangarðs í umræðum manna á milli. Skiptir þá ekki máli hvort hinn svokallað list er í ætt við söguþráð hinnar margrómuðu sögu um keisarann og nýju fötin hans sem var blekking.
Á Íslandi virðist það vera orðin list að afskræma fyrri tíma bókmenntir í þeim tilgangi einum að upphefja sjálfan sig (höfund afskræmingarinnar). Er þetta önnur tilraun nútímarithöfundar til að gera lítið úr fyrri tíðar frásögnum hvort sem sagan, Njálssaga, er sönn, hálfsannleikur eða skáldsaga.
Verk þetta lýsir því sem hendir suma að geta ekkert af eigin rammleik nema afskræma það sem aðrir hafa gert. Slíkt er gert vegna eigin veikleika og getuleysis til að skapa sjálfstætt verk með eigin hugmyndaflugi. Þegar getuleysið er algert er lagt í að hæðast að verkum annarra í tilraun til að upphefja sjálfan sig sem er eini boðskapurinn sem birtist í þessu leikhúsverki. Höfundi hefði verið nær að hafa þetta verk á eigin forsendum og ótengt öllu sem áður hefur verið ritað. Honum hefði verið nær að skapa sitt eigið verk og sínar eigin persónur án afskræmingar á gjörðum snillings sem rithöfundi þessa verks tekst aldrei að nálgast það mikið að hann verði innan seilingar.
Því má velta fyrir sér hvort rithöfundur að umræddu leikriti hafi verið að stæla Halldór Kiljan Laxnes sem er annar íslenskur rithöfundur sem lagði út í það að klæmast á hinni frægu sögu fornaldar úr Rangárvallasýslu. Þessir tveir klámsagnahöfundar verða ekki hærra skrifaðir fyrir framlag sitt til íslenskrar menningar og verða komnir neðarlega í ruslaskúffur bókmentanna á meðan ritverk það er þeir hafa níðst á verður ofarlega í hugum Íslendinga.
Íslendingar almennt eru ekkert hrifnir af því að vera niðurlægðir, eins og þegnar keisarans sem ætlaði að fá sér ný föt, með loddarabrögðum leikhússins og niðurlægingu íslenskra fornbókmennta.
Reykjavík 7. janúar 2017
Kristján S. Guðmundsson
fv. skipstjóri
Athugasemdir
Ég held að það megin nú alveg ræða þessi listamanna mál og það að borga svona mönnum og hverjum sem er listamannalaun fyrir það sem annað fólk hefir fyrir tómstunda iðju. Ég horfði aðeins á þetta leikrit en gafst upp enda algjört afskræmi.
Valdimar Samúelsson, 7.1.2017 kl. 23:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.