Dómarar og vanhæfi dómara

Miklum pappír og miklu bleki hefur verið eytt í ritun um vanhæfi dómara í starfi. Vanhæfi er huglægt og teygjanlegt ákvæði í samskiptum manna í milli eins og fram hefur komið í því frétta- og pappírsflóði sem dengt hefur verið yfir landsmenn á síðustu mánuðum.

Hefur þetta vanhæfisflóð í fjölmiðlum verið sett fram til að breiða yfir margfalt verra athæfi af hálfu þeirra er gegna störfum dómara. Má þar nefna sem dæmi framferði dómara við úrskurð í máli þegar hafnað var að taka efnislega á máli er lá fyrir hjá dómstólnum en dómarar læddu sér út um hliðardyrnar í úrskurði sínum til að þurfa ekki að taka á starfsréttinda missi eins úr sama skóla og þeir, dómararnir. Var þar Hæstiréttur að verki. Um var að ræða mannréttindabrot á þeim er stefndi ríkinu fyrir tilraun til þjófnaðar með skattálagningu án neinnar stoðar í lögum.

Í öðru lagi er verið að breiða yfir framferði dómara í störfum sínum þegar þeir nota, vísvitandi, fölsuð gögn sem þeir byggja niðurstöður sínar á. Er þar um margfalt alvarlegri lögbrot að ræða en mistök við mat á eigin vanhæfi í dómsmáli eins og fjölmiðlaflóðið hefur snúist um. Vanhæfi í máli manns snýst um það hvort einhver tengsl séu, eða hafi verið, á milli dómara og aðila er tengist máli sem er til umfjöllunar. Hefur vanhæfi verið skýrt sem hvers konar tengsl aðila við fjárhagsaðgerðir eða tengsl manna í milli s.s. ættartengsl, kunningjar, vinnufélagar eða önnur samfélagstengsl manna í milli sem hugsanlega gæti orsakað að hinn taldi vanhæfi dómari stæði ekki heiðarlega að afgreiðslu máls í úrskurði sínum.

Aðeins sú ábending að hugsanlega stæði dómari, sem talinn væri vanhæfur, ekki heiðarlega að afgreiðslu máls vegna einhvers konar tengsla við málsaðila vekur upp spurninguna: Eru dómarar alltaf heiðarlegir? Afgreiða þeir ekki málin á færibandi eftir geðástandi hverju sinni og jafnvel á óheiðarlegan hátt vegna andúðar dómara á málsaðila án ástæðu eins og dæmi eru um.

Það að mál séu afgreidd í dómi á grundvelli falsaðra gagna eins og mörg dæmi eru um sýnir hve rotið réttarkerfið sé. Að málsaðilar með skriflegar sannanir um misnotkun dómara á fölsuðum gögnum, sem úrskurður er byggður á, skuli ekki fá leiðréttingu mála sinna bendir til skipulagðra mannréttindabrota (lögbrota) af hálfu þjóna réttarkerfisins.

Þar sem fjölmiðlaflóran er samstíga í því að fjargviðrast út af vanhæfi en hunsar að fjalla um hin augljósu lögbrot sem framin eru af dómurum við notkun falsaðra gagna o.fl. er það ljóst að um hreina yfirbreiðslu af hálfu fjölmiðla á þeim ósóma sem viðgengist hefur innan réttarkerfisins á liðnum áratugum varðandi lögbrot dómara í störfum sínum. Það að klóra yfir skriflegar staðreyndir um lögbrot dómara með stanslausum þvættingi um huglæga þætti vanhæfis sem er matsatriði hvers og eins er ekki uppbyggilegt. Það eru engin skráð lög sem skilgreina afdráttarlaust hvað sé vanhæfi og ekki vanhæfi. Ef slík lög væru fyrir hendi væri ekki þörf fyrir ofurflóð í fjölmiðlum um vanhæfið eins og átt hefur sér stað að undanförnu.

Fjölmiðlar forðast staðreyndir en reyna að efna til uppþota með vangaveltum út af huglægum þáttum vanhæfis sem útilokað er að fá botn í en gert aðeins í þeim tilgangi að æsa upp. Vanhæfisvandamálið er svo víðtækt, hvað varðar huglægan þátt þessa, að mál sem reka þyrfti fyrir dómi varðandi lögbrot dómara leiddi til þess að enginn dómari í hinu íslenska réttarkerfi væri hæfur til að fjalla um málið. Þeir (dómararnir) væru allir vanhæfir vegna tengsla. Þessi þáttur er fyrir utan það að enginn lögmaður fæst til að reka mál gegn dómara. Ástæða þessa ótta lögmanna við að reka mál gegn dómara fyrir lögbrot, er vegna þeirrar hættu er lögmenn telja, að hefndir allra dómara réttarkerfisins myndi beinast að viðkomandi lögmanni. Af framansögðu er allt gert af hálfu stjórnvalda og réttarkerfisins til að þagga niður öll mál er varða lögbrot af hálfu dómara.

Þar með er komið upp tvöfeldni í íslensku réttarkerfi þar sem ákveðnir aðilar hafa leyfi til að brjóta lögin sem má þá kalla „lögleg lögbrot“.

Reykjavík 8. janúar 2017

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband