Ábyrgð fasteignasala og kennitöluflakk

Sem vísbending um ábyrgðaleysi fasteignasala og skertan rétt þeirra sem njóta þjónustu þeirra hefur framhald á því máli sem meðfylgjandi grein á blogginu frá því september 2016 orðið vísir að hugsanlegu kennitöluflakki.

Fyrirtæki sem ber nafnið Hóll fasteignasala varð fyrir alvarlegum skakkaföllum eins og meðfylgjandi grein á Blogginu frá því í september 2016 ber með sér. Starfsmenn fasteignasölunnar voru staðnir að því að virða ekki rétt kaupanda að fasteign er var í söluumboði hjá fasteignasölunni.

Var framferði starfsmanna fasteignasölunnar kært til Félags fasteignasala og síðan til eftirlitsnefndar//kærunefndar er fjallar um kærur á hendur fasteignasölum.

Þegar umræddar kærur á hendur fasteignasalanum eru búnar að velkjast um í fórum kærunefndar um störf fasteignasala án þess að niðurstaða nefndarinnar hafi borist kærendum þá er birt heilsíðu auglýsing í Fréttablaðinu um nýja fasteignasölu undir nafninu „450 fasteignasala“. Það sem vekur undrun hjá kærendum er að þeir sem standa að umræddri fasteignasölu eru sömu aðilar og störfuðu hjá Hóli fasteignasölu að Engjateigi 9, Reykjavík ásamt þeim sem skráður hafði verið sem fasteignasali fyrir fyrirtækið Hóll fasteignasala. Er kominn nýr aðili sem skráður er einnig sem fasteignasali.

Þessi nýja fasteignasala 450 fasteignasala er til húsa samkvæmt auglýsingu í sama húsnæði og Hóll fasteignasala var eða er enn þá.

Þar sem ekki hefur borist niðurstaða frá umræddri kærunefnd um störf fasteignasala og verið furðuleg þögn um málið er næsta verk að fá upplýst um tilgang kærunefndarinnar og hvort umrædd kærunefnd sé einhvers konar hreinsunardeild fyrir fasteignasala til að gefa þeim fasteignasölum sem ekki fara að lögum tíma til að fara í kennitöluflakk.

Af því framferði er hér hefur verið lýst er ljóst hve lög sett af Alþingi eru lítils virði þegar kemur að rétti þegnanna. Lög um starfsemi fasteignasala og skyldur þeirra til að vera fulltrúi beggja aðila, bæði seljanda og kaupanda, eru þingmönnum Alþingis Íslendinga til vansæmdar og lýsir takmörkuðum eða engum skilningi á tilgangi eða gildi laga.

Kennitöluflakk fasteignasala hefur verið þekkt til margra ára án þess að ljóst hafi verið alltaf ástæða þess að farið var á flakk.

Með vísan til þess sem fram kemur í fyrri grein um þetta mál er staðfesting á heimasíðu hins nýja fyrirtækis á því sem fram kemur um kæru á hendur aðilum fyrir að hlunnfara kaupendur fasteigna.

Á heimasíðu fyrirtækisins „450 fasteignasala“ er boðið upp á valmöguleikann sem heitir „um okkur“ og er þar átt við upplýsingar um þjónustuna sem í boði eru hjá fasteignasölunni. Sjá eftirfarandi texta sem birtur er á heimasíðu „450 fasteignasala“ undir liðnum "um okkur":

================================================================================

Þú ert á réttum stað!

Það er okkar markmið hjá 450 fasteignasölu að veita seljandanum þá allra bestu þjónustu sem völ er á. Þínar óskir og hagsmunir skipta okkur öllu máli og við leggjum okkur alla fram að koma til móts við þínar þarfir.

Það getur virst flókið og erfitt að selja fasteign. Margar spurningar vakna, eins og hver gerir hvað og hvernig þetta allt fer fram. Við leitumst við að gera þetta ferli einfalt og aðgengilegt fyrir þig.

Með mikilli reynslu og hnitmiðaðri markaðssetningu, seljum við eignina þína fljótt og örugglega. Við metum til hvaða kaupendahóps eignin þín getur höfðað og markaðssetjum hana út frá því.

Við skiljum hversu mikilvægt það er fyrir þig að hafa yfirsýn yfir söluferlið. Seljandi fær því upplýsingar um væntanlegar auglýsingar, söluáætlun og mögulegan markhóp.

Okkar helstu markmið eru: Að okkar viðskiptavinir fái alltaf fyrirmyndar þjónustu þannig að allir séu ánægðir og geti hiklaust mælt með okkur við aðra sem eru í söluhugleiðingum.

==============================================================================

Í texta þessum frá fasteignasölunni kemur fram viðurkenning á réttmæti þeirrar kæru sem lögð hefur verið fram gegn umræddri fasteignasölu er nefnd er Hóll.

Í textanum er þess getið sérstaklega að 450 fasteignasala hefur að markmiði að veita seljendum þá allra bestu þjónustu sem völ er á. Kæran á hendur fasteignasölunni Hóli er byggð á þessari þjónustu sem veitt er þrátt fyrir ákvæði laga um það að fasteignasali skuli vera fulltrúi bæði seljanda og kaupanda.

Starfsreglur þessarar fasteignasölu virðast ætla að vera eins og þær reyndust vera hjá fasteignasölunni Hóli, að hin fullkomna þjónusta skuli aðeins vera fyrir seljendur og þar með að geta mögulega hlunnfarið kaupendur.

Reykjavík 21. janúar 2017

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri

Sjá áður birta grein undirritaðs á BLOGGINU um ábyrgð fasteignasala.

---------------------------------------------------------------------------------------

Ábyrgð fasteignasala

Samkvæmt lögum er fasteignasala falið það hlutverk að vera fulltrúi beggja aðila, kaupanda og seljanda fasteigna.

Ef grannt er skoðað er það fáránlegt að ætla einum aðila að hafa tvær skoðanir jafngildar á sama tíma hverju sinni.

Upp er komið atvik við sölu fasteignar þar sem fasteignasali sem fulltrúi kaupanda vann gegn hagsmunum kaupandans. Staða málsins er sú að eftir undirritun kaupenda og samþykkis á gagntilboði seljanda, og þar með var kominn á bindandi samningur milli aðila, þá snýst forstjóri fasteignasölunnar gegn hagsmunum kaupanda. Þótt kaupendur hafi staðið við allar sínar skuldbindingar tilboðsins varðandi greiðslur og aðra þætti samningsins og kaupendur margt oft farið fram á að gengið verði formlega frá málum með undirritun á svokölluðum kaupsamningi, sem er formsatriði, hunsaði fasteignasalinn það með margs konar afsökunum.

Að kröfu fasteignasölunnar lögðu kaupendur inn hjá fasteignasölunni pappíra upp á greiðslu rúmlega 28 milljóna króna vel tímalega, með vísan til ákvæðis í samningi um tímalengd fjármögnunar á kaupum, svo hægt væri að ganga frá málum.

Vegna trassaskapar fasteignasalans, varðandi afgreiðslu málsins í tæpa tvo mánuði, var umræddum samningi, samþykktu gagntilboði seljenda, þinglýst hjá sýslumanni ef með því væri hægt að knýja fram afgreiðslu málsins. Var fasteignasalanum strax tilkynnt um þinglýsingu samningsins.

Fasteignasalinn brást ókvæða við með stóryrðum vegna þinglýsingarinnar en hélt áfram sínum slóðaskap og tvískinnungi og hunsaði afgreiðslu málsins þar til hann tilkynnti munnlega og síðan í tölvupósti að eigendur (seljendur) væru hættir við sölu. Í framhaldi af þeirri tilkynningu sagði fasteignasalinn að samningsbundnir kaupendur gætu gert nýtt tilboð í eignina. Með þeirri yfirlýsingu fasteignasalans gaf hann í skyn að það þyrfti að hækka verðið þrátt fyrir þann bindandi samning sem þegar lá fyrir.

Með yfirlýsingu fasteignasalans kom enn og aftur skýrt fram sá óheiðarleiki sem kaupendum hafði verið sýndur af hálfu fasteignasalans eins og fram koma í tölvupóstsendingum frá fasteignasölunni. Þrátt fyrir ítrekaðar kröfur kaupenda til fasteignasalans um að lögð yrði fram skrifleg yfirlýsing seljenda um að þeir hygðust hverfa frá sölunni hefur slíkt ekki fengist.

Þremur vikum eftir að fasteignasalanum var tilkynnt um þinglýsingu, þegar gerðs bindandi kaupsamnings vegna eignarinnar, viðurkenndi hann að hann hefði ekki tilkynnt seljendum um þá framkvæmd (þinglýsinguna) en bauð upp á að kaupendur leggðu fram nýtt kauptilboð.

Þetta mál sýnir þann alvarlega veikleika í lögum um starfsemi fasteignasala að fasteignasali sé fulltrúi beggja aðila, kaupanda og seljanda.

Yfirleitt eru fasteignakaup og sala fasteignar tekin mjög alvarlega af beggja hálfu, kaupanda og seljanda. En með óheiðarlegum aðila (fasteignasala), er annast milligöngu um sölu og kaup fasteignar eins og hér er lýst, þá er slíkur gjörningur af hálfu fasteignasala reiðarslag fyrir kaupendur.

Ef það er stefna stjórnvalda að skapa þurfi ný störf fyrir lögfræðinga til að annast samningagerð fyrir kaupendur með tilheyrandi kostnaði við kaupin, auk tveggja ára slóðaskapar af hálfu dómstóla við afgreiðslu mála, væri æskilegt að það væri upplýst.

Er hér enn og aftur bent á ófullnægjandi afgreiðslu Alþingis (alþingismanna) á samskiptareglum þegnanna sem kallaðar eru lög en eru í raun lögleysa því ekki er hægt að fara eftir þeim (lögunum, samskiptareglunum). Sú ókurteisi alþingismanna við setningu laga að hinn almenni þegn þurfi að leggja út í ómældan kostnað við málarekstur fyrir dómi til þess að ná fram rétti sínum, við eins einfaldan gjörning og fasteignakaup eru, er óásættanlegt.

Eftir undirritun kauptilboðs eða gagntilboðs af hálfu kaupanda og seljanda við fasteignakaup á sá aðili sem stendur við sinn hluta af samningnum, í þessu tilviki kaupandi, ekki að þurfa að standa í margra mánaða baráttu fyrir dómstólum ef seljandi vill falla frá sölu af annarlegum löglausum ástæðum. Afgreiðsla slíkra mála með úrskurði þar til bærra aðila á ekki að taka meira en 7-10 daga (5-8 virkra daga) og á kostnað ríkisins ef lög eru ekki nægjanlega skýr.

Reykjavík 21.september 2016

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri

BLOGG --- 2180507


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband