23.1.2017 | 09:26
Vandamál hins íslenska réttarkerfis
Af hálfu stjórnvalda er reynt að halda í ímynd hins fullkomna lýðræðis og réttarfars og allt gert til að halda slíku á lofti fyrir útlendinga.
Innanlands eru mikil átök landsmanna við stjórnvöld og réttarkerfið vegna glórulausrar spillingar sem á sér stað hjá þeim sem troðið hafa sér í svokallaðar æðri stöður. Í hverri könnuninni á fætur annarri kemur fram hvernig spillingin ræður ríkjum á flestum sviðum þjóðlífsins.
Án þess að fullyrða hvort þjófar og annars konar lögbrjótar skipi æðri stöður eins og stöður dómara í öðrum ríkjum þá er fullyrt að bæði þjófar og annars konar lögbrjótar skipa og hafa skipað dómarastöður á Íslandi.
Þrátt fyrir baráttu almennings fyrir bættu réttarfari á Íslandi hefur lítill árangur orðið. Eftir margra ára baráttu þegnanna á Íslandi fyrir bættu réttarfari hefur árangur orðið lítill sem enginn þar sem stjórnvöld hafa gripið til sýndarmennsku með tilheyrandi ósanninda orðskrúði við taldar breytingar á réttarkerfinu.
Í áratuga baráttu almennings fyrir endurupptöku mála sem afgreidd höfðu verið af dómstólum með augljósum lögbrotum við afgreiðslu málanna þá fékkst ekki leiðrétting málanna.
Hæstiréttur Íslands (það er dómarar réttarins) höfðu einkaleyfi til að ákveða hvort mál yrði endurupptekið og nýr úrskurður kveðinn upp. Á meðan þetta heyrði undir hæstaréttardómara þá var það viðburður ef mál fékkst endurupptekið.
Ástæðan var augljós því menn (karlar og konur), og síst af öllu dómarar, viðurkenna aldrei, eða mjög sjaldan, að þeim hafi orðið á mistök og því síður að þeir hafi brotið lög þótt sannanir séu fyrirliggjandi.
Löggjafarsamkundan sem er einn þriðji af stjórnkerfi landsins er eins og hræddir rakkar ef minnst er á lögbrot af hálfu dómara við þá (þingmennina) og skiptir ekki máli þótt þingmönnum séu sýndar skriflegar sannanir fyrir lögbrotunum af hálfu dómara. Borið er fyrir sig af hálfu þingmanna hið svokallaða þrískipta vald í stjórnkerfinu og þeir geti ekkert gert.
Þetta gerist þrátt fyrir að Alþingi skuli setja lög (samskiptareglur þegnanna) og þar með starfsreglur fyrir dómara sem þeir (dómararnir) skuli fara eftir. Þótt sannanir séu fyrir því að sumir dómarar sniðgangi lögin ( fari ekki eftir lögum um störf dómara) þá þykjast þingmenn ekkert geta gert, m.ö.o. lögbrot (glæpir ) dómara eru þar með orðin lögleg lögbrot. Sumir dómarar eru þar með komnir í hæsta þrep glæpamanna í ríkinu.
Eftir langa baráttu fyrir bættu réttarkerfi og leiðréttingu á glæpaverkum sem framin voru af dómurum hunskaðist framkvæmdavaldið og Alþingi til að gera sýndarbreytingu með því að losa dómara Hæstaréttar við þann súra bikar að þurfa að viðurkenna eigin lögbrot og lögbrot af hálfu dómara undirréttar.
Alþingi samþykkti lög um stofnun skúringadeildar réttarkerfisins. Stofnun þessi sem kölluð er Endurupptökunefnd var komið á laggirnar af tómri sýndarmennsku og hefur það eina hlutverk að halda áfram þeirri starfsemi sem var hjá Hæstarétti að heimila ekki endurupptöku dómsmála. Aðal stefna réttarkerfisins er sú að þeir dómarar geri aldrei mistök né vísvitandi rangar afgreiðslur dómsmála. Þetta fullyrða þeir (Endurskoðunarnefnd) þrátt fyrir að skriflegar sannanir liggi fyrir um lögbrotin.
Með þessu framferði af hálfu Alþingis (þingmanna) hefur verið viðurkennt að lögbrot af hálfu dómara séu lögleg lögbrot og þar með er hið svokallaða réttarfar hins íslenska lýðræðisríkis undir stjórn löglegra glæpamanna.
Hluti af þegnum þjóðfélagsins (DÓMARAR) hafa einkaleyfi til glæpaverka (lögbrota) og þurfa ekki að óttast nein viðurlög við glæpum sínum.
Svo virðist sem bakþankar (kallaður mórall) séu farnir að gera vart við sig innan stétt dómara því samkvæmt fréttum eru dómarar komnir með áhyggjur af því hve íslenska þjóðin hefur lítið álit á réttarkerfinu (þ.e. störfum dómara) og hafa hugleitt herferð til að auka álit Íslendinga á réttarkerfinu.
Hver er ástæðan fyrir vantrausti íslensku þjóðarinnar á réttarkerfinu?
Svarið er: Lögbrot sem framin eru af dómurum í starfi!
Fram eru komnar fréttir af frammistöðu skúringadeildarinnar sem kölluð er Endurupptökunefnd og er frammistaðan í samræmi við framkvæmdir af hálfu dómara Hæstaréttar í íslensku réttarkerfi. Á tæplega þriggja ára tímabili starfsemi umræddrar Endurupptökunefndar hefur 90% af málum sem lögð hafa verið fyrir nefndina verið hafnað. Á meðal mála sem hafnað hefur verið endurupptöku á fyrir dómi eru mál þar sem dómarar notuðu fölsuð gögn (skjöl) sem niðurstaða dóms var byggð á auk máls þar sem hreinn þjófnaður átti sér stað á margra milljóna verðmætum með aðstoð falsaðs skjals sem sagt var þinglýst en samkvæmt skriflegri yfirlýsingu sýslumanns hafi umræddu skjali aldrei verið þinglýst. Að auki kom fram að vitundarvottun á framlagt skjal fyrir dómi hafði verið bætt inn á skjalið að því er virðist með ljósmyndunartækni.
Með vísan til ofanritaðs er það ekki undrunarefni að traust þjóðarinnar á réttarkerfinu er nánast ekkert. Má ætla að aðeins þeir sem hafa notið góðrar þjónustu við lögbrot dómara við dómsuppkvaðningar hafi jákvætt álit á dómskerfinu.
Það skal viðurkennt að það getur verið sárt að viðurkenna mistök og sárara að viðurkenna lögbrot. En margfalt verra er að þurfa að beygja sig undir vísvitandi lögbrot (ásetningsbrot) af hálfu þjóna réttarkerfisins sem kallaðir eru dómarar ef þeir hafa fengið leyfi löggjafans Alþingis til að framkvæma glæpaverk sín sem lögleg lögbrot.
Hafi það verið tilgangur lagasetningar um Endurupptökunefnd að verkefnið væri að hvítþvo dómskerfið af mistökum og lögbrotum þá hefur það tekist og hinn beiski kaleikur tekin frá dómurunum sjálfum og verkið fengið í hendur aðila sem fá greidd svokölluð nefndarlaun, sem kalla má mútufé, til að hylma yfir lögbrot sem framin eru af dómurum.
Minnugir þess að hið íslenska réttarkerfi svo og stjórnvöld landsins hafa marg oft verið rassskellt af fjölþjóðadómstól fyrir mannréttindabrot á íslenskum þegnum.
Hvort það verði til langframa að mútuþægni verði vinsælt starf hjá hinu opinbera kemur í ljós. Undir mútuþægni má á auðveldan hátt fella hið gamla íslenska máltæki að þjófur þrífst en þjófsnautur ekki.
Reykjavík 23. janúar 2017
Kristján S. Guðmundsson
fv. skipstjóri
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.