26.2.2017 | 09:53
Er mál m.b. Jóns Hákonar BA-60 feluleikur?
Komin er fram talin ástæða fyrir slysinu er m.b. Jón Hákon BA-60 hvolfdi og sökk út af norðan verðum Vestfjörðum.
Það sem vekur furðu við niðurstöðuna er talin orsök atviksins. Ástæðan er talin ofhleðsla skipsins og viðvarandi slagsíða til stjórnborða.
Í hinni opinberu yfirlýsingu, fréttum, um ástæðu atviksins er klifað á viðvarandi stjórnborðs slagsíðu en ekki er reynt að gefa skýringu á ástæðu slagsíðunnar. Ekki er getið um hve mikill halli hafi verið á skipinu, viðvarandi halli. Hluti veiðarfæris, dragnótar, var þegar komin inn á tromlu ofan á gálga í skut skipsins sem ekki hefur bætt stöðugleikann.
Samkvæmt niðurstöðum rannsókna var frágangur á lúkukarmi óforsvaranlegur en þrátt fyrir það var veitt haffæri fyrir skipið af eftirlitsaðila.
Af því sem fram kemur í rannsóknargögnum Samgöngustofu var skráning skipsins ekki samkvæmt lögum. Skipið hafði verið notað í óskylt verkefni og nýlega skipt um eigendur að því. Við lestur skýrslu RSN virðist reynt að forðast að geta hins raunverulega orsakavalds að umræddu atviki. Ef mark á að taka á upplýsingum sem fram koma í umræddri skýrslu þá var skipið ekki haffært þegar því var siglt úr höfn og hefur sennilega ekki verið haffært um langan tíma.
Án þess að að afsaka hugsanlega ofhleðslu eins og fram kemur í skýrslunni sem orsakavald koma einnig fram ýmis atriði í skýrslunni sem fer lítið fyrir í mati aðila á orsökum en snerta grundvallaratriði sjóhæfni skipsins. Ekki hafði verið gerð fullnaðar úttekt á skipinu eftir breytingar sem getið er um í skýrslunni en ekki talin ástæða af hálfu rannsakenda að halda því á lofti þar sem það varðar slælegt eftirlit með öryggismálum sæfarenda.
Staðsetning á kassa fyrir móttöku á fiski úr veiðarfæri uppi í hæð ofar lestarlúku skipsins með 1600 kílóum af fiski í hefur ekki verið til að bæta stöðugleika skipsins.
Upplýst var við rannsókn málsins að landað hafði verið úr skipinu um 80% meiri afla, úr fyrri veiðiferð, en talið var að hafi verið um borð þegar atvikið átti sér stað. Í stöðugleika handbók er þess getið að einn útreikningur sé miðaður við 7,04 tonna þunga en þetta sé ekki endilega hámarksafli sem skipið geti borið. Fram kemur einnig að skipið hafi ekki staðist kröfur IMO um stöðugleika og réttiarm, en byrjunarstöðugleiki í lagi, hvað sem það þýðir.
Fram kemur hjá skipverjum í skýrslunni að sjósöfnun hafi verið í lest skipsins og það ástand staðfest af fyrri eiganda skipsins. Þessi fullyrðing í skýrslunni er vísbending um að skipið hafi ekki verið haffært. Undarleg er yfirlýsing sem höfð er eftir skipverjum, að sjósöfnun í lest skipsins hafi orsakað að skipið missti stöðugleika og hvolfdi. Sú vitneskja skipverja án viðeigandi aðgerða af hálfu skipverja, til að viðhalda stöðugleika skipsins með því að hindra sjósöfnun í skipinu, er undarleg.
Eitt atriði í skýrslunni er varðar viðvarandi halla er mjög sérkennileg framsetning. Á skýrslunni má skilja það að umræddur halli hafi verið einhvern tíma, en mjög stuttan, um klukkustund i (1-3). Verður það að teljast sérkennileg framsetning að tala í slíku tilviki að um viðvarandi halla hafi verið að ræða, ef um óskýrðan halla hafi verið að ræða um skamman tíma. Á hitt ber að líta að um gáleysi getur verið að ræða af hálfu skipstjórnanda, ef að halli kemur á skip sem er ekki skýrður af eðlilegri veltuhreyfingu skips, án þess að slíkt sé athugað.
Orsök fyrir slagsíðu á skipinu er hugsanlega sjósöfnun í lest skipsins vegna rýrnunar á stöðugleika af völdum hins frjálsa yfirborðs sjávar í lestinni.
Ef marka má það sem fram kemur í skýrslu nefndarinnar, en lítið getið um í fréttum, þá hefur frágangur á lestarlúkukarmi verið ein megin orsök fyrir umræddu atvik. Ástand lestarlúkukarms hefur leitt til þess að sjór sem gutlaði inn á þilfar skipsins hefur átt leið niður í lest skipsins. Sjósöfnun í lest skipsins í ótiltekinn tíma, klukkustundir, sem síðan hefur orsakað rýrnun á stöðugleika er leitt hefur til stöðugs halla á skipinu. Hinn stöðugi halli sem aftur leiddi til enn greiðari leiðar fyrir sjó í lest skipsins sem að lokun leiddi til neikvæðs stöðugleika er orsakaði að skipið fór á hvolf.
Einnig vekur það undrun við lestur skýrslunnar að ekki er gerð alvarleg athugasemd við eftirlit með austri úr skipinu þrátt fyrir vitneskju skipverja um sjósöfnun í lest skipsins. Auk þess var vitneskju um erfiðleika við að dæla frá lest vegna þess að málningar flögur vildu stífla austurbúnað.
Þessar skýringar eru ekki settar fram til að afsaka það, ef um ofhleðslu á skipi hafi verið að ræða, en sjósöfnunin í lest skipsins hefur verið megin orsök atviksins og má rekja til þess að skipið var ekki haffært er því var siglt úr höfn. Lýsing á frágangi lestarlúku, sem fram kemur í skýrslunni, er mjög undarleg ef skip hefur verið haffært.
Verður það að teljast miður góð niðurstaða opinberrar rannsóknar á slysi, ef reynt er að fela hinar raunverulegu ástæður atviks, ef orsökin er slælegt eftirlit opinberra eftirlitsaðila eins og virðist vera í þessu tilviki.
Að mati undirritaðs ber þessi skýrsla RNS einkenni á feluleik megin orsakar á atviki.
Reykjavík 26. febrúar 2017
Kristján S. Guðmundsson
fv. skipstjóri
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.