22.5.2017 | 09:18
KJARARÁÐ Hver er tilgangur Kjararáðs?
Er Kjararáð þjónustustofnun fyrir ríkisvaldið til að stunda þjófnað á launum og eftirlaunum opinberra starfsmanna svo greiða megi alþingismönnum, ráðherrum og dómurum ofurlaun?
Upp er komið undarlegt mál þar sem af hálfu Kjararáðs er stundað án lagaheimildar lögbrot með því að hafa af starfsmönnum og eftirlaunaþegum, er áður störfuðu hjá ríkisstofnunum, stóran hluta launa sem samið hefur verið um.
Er það spurning hvort þetta framferði af hálfu Kjararáðs falli undir skipulagðan þjófnað þar sem á skipulagðan hátt er haft af mönnum samningsbundin laun. Eru sannanir fyrir því að af hálfu Kjararáðs hafi laun einhverra þeirra sem falla undir úrskurð þeirra verið lækkuð um allt að 40% á nokkrum árum. Dæmi eru um að eftirlaun sumra þeirra sem falla undir úrskurðavald þessa Kjararáðs hafi verið lækkuð um 30-40% að teknu tilliti til launahækkana á vinnumarkaði. Þetta hefur verið framkvæmt af Kjararáði þrátt fyrir ákvæði laga um starfsemi Kjararáðs eins og hér fylgir. Eftirfarandi er tekið orðrétt úr lögum um störf Kjararáðs.
Við ákvörðun starfskjara þeirra sem kjararáð ákveður laun fyrir skal ráðið gæta þess að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu. Í þessu skyni skal kjararáð fylgjast með og leggja mat á kjarasamninga og almenna launaþróun.
Kjararáð skal í úrskurðum sínum ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjara á vinnumarkaði.
Við ákvörðun launakjara skv. 4. gr. skal kjararáð sérstaklega gæta samræmis milli þeirra og þeirra kjara hjá ríkinu sem greidd eru á grundvelli kjarasamninga annars vegar og ákvarðana kjararáðs skv. 3. gr. hins vegar.
Kjararáð skal ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði.
Í ljósi þeirra umræðna sem orðið hafa í þjóðfélaginu vegna framferðis af hálfu Kjararáðs í launamálum ráðherra, þingmanna og dómara er ljóst að telja verður að um hreinan þjófnað sé að ræða af hálfu meðlima ráðsins með vísan til rýrnunar kjara annarra launþega en ráðamanna þjóðarinnar er falla undir ákvörðun ráðsins. Þess er hvergi getið í lögum um starfsemi Kjararáðs að þeir hafi heimild til að lækka laun þeirra sem falla undir úrskurðarvald þeirra en þeim (Kjararáði) gert skylt að taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði.
Það vald sem Kjararáð hefur tekið sér, framhjá gildandi lögum, til að lækka laun þeirra sem settir hafa verið undir vald þeirra, án samþykkis aðila sem falla undir vald þeirra, verður ekki annað séð en að hreinn þjófnaður hafi átt sér stað í ljósi ákvæða í lögum um starfsemi Kjararáðs. Ef framferði Kjararáðs, sem fella má undir þjófnað, er löglegur þjófnaður þá eru alþingismenn og dómarar ásamt ráðherrum, sem eru jafnframt þingmenn, þjófsnautar.
Þessi löglegi eða löglausi þjófnaður af hálfu Kjararáðs á launum, þeirra opinberu starfsmanna sem orðið hafa fyrir kjaraskerðingu, er illskiljanlegur nema ef af hálfu Kjararáðs hafi verið unnið skipulega að því að ná inn tekjum (stela af fjöldanum) til að greiða launahækkanir til þeirra útvöldu, þ.e. forsetans, ráðherra, alþingismanna og dómara.
Það atferli sem átt hefur sér stað undir stjórn Kjararáðs á samningsbundnum launum starfsmanna ríkisins, sem undir ráðið falla, er merkilegur vegna þess að enginn af starfsmönnum ríkisins sem settir voru undir þetta ráð hafa gefið samþykki sitt fyrir þessum löglega þjófnaði, né verið spurðir um samþykki, heldur er þetta skipulag komið til frá aðilum hins íslenska samfélags, þ.e. ráðherrum, alþingismönnum og dómurum.
Þeir, þingmenn og dómarar, fengu launahækkanir um og yfir 40% með töldum löglegum þjófnaði (ef launalækkun starfsmanna ríkisins framkvæmd af Kjararáði er lögleg) af launum annarra starfsmanna ríkisins og fyrrverandi starfsmanna ef aðrir en þingmenn ofl. er falla undir ákvörðunarvald ráðsins eiga ekki rétt á hækkunum launa samkvæmt launaþróun í landinu.
Það sem er all sérstakt við þetta framferði af hálfu Kjararáðs er að ráðið sem slíkt heyrir ekki undir neinn nema lögin. Allir innan stjórnsýslunnar sverja Kjararáð af sér og segja það starfi utan við allt ríkiskerfið. Af hálfu Umboðsmanns Alþingis er talið að þeir hafi ekki vald til að fjalla um gerðir þeirra, þ.e. Kjararáðs. Alþingismenn og ráðuneyti sverja af sér öll afskipti af gjörðum ráðsins.
Með vísan til sífelldrar kjarabaráttu þegnanna er það óeðlilegt að til sé einhver stofnun (Kjararáð) sem hafi einkaleyfi til að skerða launakjör sumra starfsmanna í ríkisþjónustu svo að muni tugum prósenta. Kjararáð var sett á stofn til þess að ákvarða launahækkanir starfsmanna sem felldir voru undir ráðið jafnhliða því að þeir aðilar voru sviptir verkfallsrétti/samningsrétti og urðu að vinna þótt aðrir færu í verkfall. Þessir aðilar höfðu engin tök á að taka afstöðu til launahækkana en gerðu ekki ráð fyrir svívirðingum af hálfu úrskurðaraðila (Kjararáðs) með lækkun launa.
Svo tekin séu dæmi um ósvífni af hálfu þessa svokallaða Kjararáðs eru sannanir fyrir því að laun sumra er heyra undir ráðið hafi staðið óbreytt í yfir þrjátíu mánuði samfellt á tímabilinu 2007 til 2016 auk þess eru algeng 12 til 15 mánuða tímabil sem engar breytingar hafi orðið á launum þrátt fyrir umtalsverðar launahækkanir á vinnumarkaði.
Þetta framferði af hálfu aðila að Kjararáði sýnir alvarlega siðblindu og svívirðingu gagnvart hinum almennu borgurum sem settir voru undir vald þeirra samkvæmt valdboði þeirra sem kallaðir eru alþingismenn. Má hiklaust geta sér til að skipun Kjararáðs, af hálfu Alþingis, sé lögleysa ef ráðið hefur ólöglega-lagalegan rétt til að lækka laun sumra starfsmanna ríkisins og skerða eftirlaun fyrrverandi starfsmanna ríkisins.
Undirritaður hefur heyrt það að mikill kurr sé á meðal ríkisstarfsmanna sem skipa margar af þeim stöðum sem falla undir launaákvörðun Kjararáðs, og hafa orðið fyrir kjaraskerðingu, en þeir þori ekki (ótti) að hafa hátt um það og krefjast úrbóta.
Er hér með krafist upplýsinga um það hvað þýlyndi þeirra sem þjóna í Kjararáði kostar þjóðina á ári svo hægt sé að sjá hverjar múturnar eru til þeirra. Einnig verði upplýst hver eða hverjir ákveði laun eða þóknun til aðila að Kjararáði sem kalla má mútur.
Af hálfu þeirra sem sannanlega hafa orðið fyrir kjaraskerðingu af völdum Kjararáðs (allt að 30 40% skerðingu launa) á árunum 2007 til 2017 er þess hér með krafist að öll laun (laun sem eftirlaun) verði leiðrétt aftur til ársins 2007 þegar sannanlega er ljóst að hin skipulega kjaraskerðing (af völdum Kjararáðs) hefur átt sér stað á því tímabili (10 ár). Auk þess verði greiddir dráttarvextir á vangreidd laun eða eftirlaun til greiðsludags. FRAMHALD.
Reykjavík 22. maí 2017
Kristján S. Guðmundsson
fv. skipstjóri
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.