17.6.2018 | 11:21
Knattspyrnusjónvarp
Er ástæða til þess fyrir stjórnendurríkissjónvarpsins að tröllríða sjónvarpsdagskránni með tómum fótbolta eins á sér stað þessa dagana.
Hafa stjórnendur ríkissjónvarpsins hugleitt að það eru fleiri á Íslandi en áhugasamir sparkarar?
Þar sem ríkissjónvarpið er með útsendingu á fleiri rásum væri meiri skynsemi hjá stjórnendum að halda hinni almennu sjónvarpsrás óbrenglaðri af knattspyrnu og nota hina sérstöku íþróttarás fyrir íþróttaveislur eins og knattspyrnu og lofa þeim sem vilja horfa á annað að hafa sitt sjónvarpsefni sem hefur verið borgað fyrir með skylduáskrift íslenskra þegna.
Verður það að teljast allundarlegt að stjórnendum ríkissjónvarpsins lýðist að nauðga stórum hluta þjóðarinnar með þeirri skrumskælingu á sjónvarpsefni sem knattspyrnan er þessa dagana.
Ríkissjónvarpið á að vera sjónvarp allra landsmanna þá á ekki að rugla hina hefðbundnu dagskrá með efni sem er fyrir suma en ekki alla. Var það vel gert þegar sett var á stofn sjálfstæð útsending sem kölluð hefur verið íþróttarás þar af leiðandi ætti að vera nóg að íþróttaviðburðir séu sendir út á þeirri rás en hefðbundin dagskrá sé áfram sniðin fyrir fjöldann.
Mynd sú er hér fylgir sýnir að það eru ekki allir sem hafa áhuga á að eyða klukkutímum af lífi sínu í að horfa á hina ofurlaunuðu elta tuðru sem er full af lofti. Er þetta sett fram í þeirri vona að stjórnendur ríkissjónvarpsins sjái sóma sinn í því að hafa dagskrána fyrir alla landsmenn.
Reykjavík 17. júní 2018
Kristján S. Guðmundsson
fv. skipstjóri
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.