12.12.2018 | 17:40
Skattaþjófnaður ríkisvaldsins.
Í gegnum mörg ár hefur skattaálagning á flutningatæki (bifreiðar og fl.) verið langt umfram það sem eðlilegt hefur verið talið.
Af hálfu ráðamanna þjóðarinnar (ríkisstjórnar og Alþingismanna) hefur því verið haldið fram að þessar skatttekjur væru ætlaðar til greiðslu kostnaðar við umferðarmannvirki (vegi, brýr, umferðaröryggi o.fl.). Reynslan hefur verið sú að aðeins lítill hluti af skatttekjum af umferðartækjum hefur verið notað til þess sem logið var til af ráðamönnum þjóðarinnar.
Stór hluti af þessum skatttekjum af flutningatækjum hefur verið notaður til að hækka laun og fríðindagreiðslur þingmanna og annarra í svokölluðum æðstustörfum landsmanna.
Nú eru vitringar ríkisvaldsins farnir að sjá að framundan er skerðing á tekjum ríkisins við minnkandi innflutningi á eldsneyti og og öðru er þarf til notkunar á brennslu- og sprengivélum farartækja. Þar með sé komið upp vandamál við að halda uppi ofurlaunum þingmanna o.fl.
Stjórnvöld telja að nauðsynlegt sé að bregðast við þessu með því að leggja á svokölluð vegagjöld, eða skatt fyrir akstur á ákveðnum vegum þar sem umferðin er mest eða í Reykjavík og nágrenni.
Það sem einkennt hefur ósannindavaðal stjórnenda landsins og þar með þingmanna er varðar skattamál er vandfundið hjá þjóðum sem telja sig vera lýðræðisríki.
Með tilkomu hugmyndar um svokallaðan söluskatt fyrir nokkrum áratugum var því logið að þegnunum að með tilkomu söluskatts (neysluskatts) þá yrði tekjuskattur afnuminn. Talið var að tekjuskatturinn bitnað harðast á þeim sem væru launþegar en þeir sem gætu stolið undan skatti eins og hvers konar atvinnurekendur eða sjálfstæðir rekstraraðilar kæmust undan því að greiða tekjuskatt eins og þeim bæri. Neysluskatturinn ætti því að ná til þeirra sem stælu undan skatti.
Var talið nóg að neysluskatturinn yrði 4% til að jafna út tekjuskattinn. Reynslan hefur orðið önnur af skattaþjófnaði ríkisvaldsins. Skattaprósentan hefur verið aukin í 25,5% og engin lækkun á tekjuskatti þegnanna sem greiða skatta. Sömu aðilar sem ekki greiddu skatta fyrir tilkomu söluskattsins, sem seinna varð virðisaukaskattur, greiða ekki tekjuskatt frekar en áður.
Skattaþjófnaður ríkisvaldsins komst í hæstu hæðir þegar stjórnvöld stálu af eldri borgurum lögboðnum grunnlífeyrir sem komið var á með nýjum skatti 1946 og átti að gilda fyrir þá sem náð höfðu 67 ára aldri. Þessu var stolið af þegnunum með einu pennastriki í kringum árið 1990.
Er kominn tími fyrir Íslendinga að taka sér Frakka sem fyrirmynd og hefja mótmælagöngur, og jafnvel frekari aðgerðir, gegn nýjum sköttum og krefja stjórnvöld um skilvirkari vinnubrögð.
Fækka á þingmönnum niður í 21og skera niður tilgangslaust hjálparlið Alþingis samkvæmt því.
Þörf er á breytingu á vinnubrögðum Alþingis í þá veru að störf Alþingis miðist við setningu laga en þingmönnum bannað einkaskítkast í samstarfsaðila á þinginu úr ræðustól þingsins. Þingmönnum verði bannað að minnast á, í ræðustól þingsins, hvað þessi og hinn þingmaðurinn hafi sagt áður og ræður þeirra skuli einungis miðast við það málefni (lög) sem eru til umræðu á þingfundinum og hvernig orðalag laganna skuli vera að þeirra mati.
Þingmönnum verði heimilað einkaskítkast á Klausturbar eða öðrum ámóta samkomustöðum. Loka eigi fyrir sjónvarpsútsendingar frá þingfundum þar sem þingfundir eru ekki framboðsfundir sitjandi þingmanna. Koma þarf á skildu þingmanna til setu á fundum þingsins en þeir eigi ekki að vera á fyllirí á meðan þingfundur stendur yfir fyrir utan það að þingmenn eiga að vera lausir við hvers konar eiturlyfjaáhrif á meðan þeir eru í starfi.
Ef þingmenn sem ráðherrar geta ekki sinnt starfi sínu í þinginu (setu á þingfundum) eiga þingmenn ekki að vera ráðherrar. Ráðherrar utan þings væru skyldugir til að mæta á þingfundi til að svara skriflegum fyrirspurnum þingmanna.
Sú heimskulega starfsemi sem viðgengist hefur í sal Alþingis að 90% af bulli þingmanna hefur snúist um það sem ræðumaður hefur talið að pólitískir andstæðingar hans á þinginu hafi sagt áður varðandi eitthvað málefni. Þingfundum Alþingis má fækka um 85 til 90% ef óþarfa bull þingmanna yrði bannað og þeir sneru sér að því að koma saman þeim lögum sem þörf er á.
Með niðurskurði á þingmannabulli er hugsanlegt að lög sem samþykkt eru af Alþingi yrðu þess eðlis að hægt væri að fara eftir þeim en væru ekki hálfgerðar hengingarólar fyrir þegnana og þá sem þurfa að fara eftir þeim. Má þar minnast á þau lög og reglur sem þegar hefur komið í ljós að vandræði hafa orðið með framkvæmd á vegna skorts á skynsemi við samþykkt laganna og er þar helst að minnast á lög um náttúrvernd o.fl. lög.
Reykjavík 12. desember 2018
Kristján S. Guðmundsson
fv. skipstjóri
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.