Dómsmál á Íslandi

Að gefnum mörgum tilfellum varðandi dómsmál á Íslandi sem orsakast af illa orðuðum lögum sem sett eru af Alþingi Íslendinga. Virðist sem Alþingi Íslendinga sé leikhús fáránleikans þar sem afleiðingar flestra lagasetninga á Íslandi lenda fyrir dómstólum þar sem hópur Íslendinga (lögmenn) hafa jafn margar skoðanir á gildi orðanna og þeim fjölda lögmanna sem koma að skoðun málanna. Athuga þarf að dómarar eru bara lærðir lögmenn sem telja sig hafa rétt til að túlka lögin að eigin geðþótta.

Er komið að því að allt er varðar dómsmál (túlkun gildandi laga) verði samfélags vandamál og fært yfir á kostnað samfélagsins. Að túlkun laga fyrir dómstólum verði í þeim farvegi að þegnarnir geti farið eftir lögunum án þess að þjóðfélagsmein sem líkja má við þjóðfélags krabbamein sé orðið ríkjandi og er þar átt við umfang lögmannastéttarinnar. Það að starfandi lögmenn séu fleiri en læknar á landinu hlýtur að lýsa því ófremdarástandi sem ríkir í lagasetningu af hálfu Alþingis Íslendinga. Starfsemi Alþingis á ekki að miðast við að allur málflutningur þingmanna sé miðaður við framboð viðkomandi þingmanns í næstu kosningum eins og raunin er ef taka á mark á málflutningi þeirra sem sjónvarpað er frá Alþingi.

Hér er ekki verið að fjalla um bein brot á lögum af hálfu þegnanna (refsivert athæfi) heldur þann vandræðagang sem skapast af því að túlka má orðanna hljóðan í settum lögum eftir geðþótta hvers og eins.

Vandræðagangur í lagasetningu á Íslandi er það að stór hluti þingmanna vill hafa lögin þannig að hægt sé að túlka þau á marga vegu. Það hefur ekki verið fyrir hendi vilji á Alþingi að orða lagabókstafinn þannig að fram komi skýlaus vilji þingmanna um það hvernig beri að túlka lögin. Um 90% af dómsmálum eru svokölluð einkamál sem verða til vegna óljósra orða í lagatexta eða mistúlkunar lögmanna. Vinnubrögð á Alþingi til margra ára hafa verið þau að afgreiða tugi þingmála á nokkrum klukkutímum fyrir frestun þingfunda og reynslan hefur orðið sú að margskonar villur og vandræði hafa hlotist af slíkum vinnubrögðum eins og mörg dæmi sem upp hafa komið á undanförnum árum sína. Sem dæmi má nefna vandræðagang við lagasetningu vegna náttúruverndar sem var mikið fjallað um en lítið um lagfæringar á lögunum.

Lagasetning á að vera þannig að hægt sé að fara eftir lögunum án vandræða og mistúlkunar lögmanna sem hafa atvinnu (lífsviðurværi sitt) af því að mistúlka ákvæði laganna.

Kostnaður þegna samfélagsins, svokallaður lögmannskostnaður, vegna villandi orðalags við lagasetningu er nálægt því að vera fjárhæð sem nemur öllum kostnaði við rekstur stjórnvalda á þjóðarbúinu. Hver unnin klukkustund lögmanna kostar um 10-18 falt það sem flestir þegnar landsins hafi í laun á klukkustund.

Er komið að því að Alþingi afgreiði lagasetningu með því að fela dómstólum, á kostnað ríkisins, að afgreiða öll einkamál sem tengjast túlkun laganna vegna hins óljósa orðalags, sem vandamál við lagasetningu, en ekki vandamál þegnanna við að fara að gildandi lögum. Kostnaðurinn er samfélagsvandamál en ekki einstaklinga.

Þegar ástandið í þjóðfélaginu er orðið þannig að aðeins þeir sem eru vel stæðir fjárhagslega hafa efni á því að sækja svokallaðan rétt sinn fyrir dómstólum vegna lélegs orðalags laga frá Alþingi og hafa efni á að ráða bestu lagaþrasara landsins til starfa sem knýja oft í gegn aðra túlkun laganna en lagt var upp með við lagasetningu Alþingis.

Er auðmannastéttin á landinu, varðandi túlkun laga, komin á sama stig og valdhafar fyrri alda (konungar, hertogar, jarlar, fógetar svo og kirkjunnar höfðingjar ofl.) sem settu lög og túlkuðu að eigin hentugleika.

Krafan er að Alþingismenn/konur eiga ekki að orða lög sem sett eru á Alþingi á þann veg að það séu ótal túlkunarmöguleikar. Ef það eru fleiri en einn túlkunarmöguleiki á lögum þá verði það í verkahring dómstóls að úrskurða um túlkun orðalagsins svo að þegnarnir geti farið eftir lögunum og kostnaðurinn við dómstólinn verði samfélagsins. Túlkun dómstóls á hvernig skilja eigi lagatexta skal gilda á meðan lögin eru í gildi. Óljós og illa orðaður lagatexti er verri en engin lög.

Það er samfélagsskylda að reglur um samskipti þegnanna séu þannig orðaðar að þær túlki og skýri til hvers ætlast er af þegnunum og samskipti þeirra í milli. Einstaklingur á ekki að þurfa að leggja út í umtalsverðan kostnað vegna mistaka eða ásetningsbrota af hálfu Alþingismanna við setningu laga og reglna.

Kostnaður við lagasetningu er samfélagskostnaður og það á að gilda um túlkun dómstóla á orðanna hljóðan laganna hvernig beri að skilja lagatextann. Lagatexti skal vera skiljanlegur svo þegnarnir geti farið eftir honum í árekstrarlausu samfélagi en fégráðugir aðilar ráði ekki túlkun laganna.

Reykjavík 24. júlí 2020

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband