27.9.2020 | 14:23
"Kvótakeisarinn"
Sjávarútvegsráðherrann
Á dögum einræðisherranna í Evrópu var það til siðs að valdhafar veittu fylgismönnum sínum landsvæði að léni og voru þeir kallaðir lénsherrar. Voru þetta í flestum tilfellum auðnuleysingjar sem lifðu á þrældómi undirsáta sinna sem voru leiguliðar á jörðum sínum, en lénsherrarnir kröfðust hárra skatta til þess að geta haldið áfram sínu auðnuleysi, sukki og svallara lífi.
Í lok tuttugustu aldar er kominn fram á sjónarsviðið ein af ófreskjum fortíðarinnar "kvótakeisarinn". Hefur hann komið sér upp hirð sægreifa og útdeilir því sem eftir er af auðæfum þjóðarinnar. Til þess að milda gjörðina í augum almúgans var það gert í nafni þess að um væri að ræða heimild til notkunar auðlindarinnar um stundarsakir Þetta var gert til þess að lýðurinn gerði ekki uppreisn og velti keisaranum úr stóli með valdi.
Eftir að blekkingin hafði tekist gagnvart almúganum og kvótakeisarinn taldi sig fastan í sessi var stigið nýtt skref í einræðisátt. Kvótakeisarinn gaf sægreifunum óopinbert leyfi til að þeir mættu selja eða veðsetja að eigin vild það sem þeim hafði verið fengið að láni um stundarsakir frá þjóðinni.
Þrátt fyrir mótmæli af hálfu þorra alþýðu um lögleysi, hafðist "kvótakeisarinn" ekkert að í málinu og þrátt fyrir að hann færi einnig með málefni réttargæslu í þjóðfélaginu. Var lögbrot sægreifanna látið óátalið af hálfu "kvótakeisararéttargæsluvaldsins" um nokkurt skeið eða þar til "kvótakeisarinn" taldi kominn tíma til þess að binda í lög réttmæti þeirra glæpa sem framdir höfðu verið af hálfu sægreifanna með sölu eða veðsetningu þess sem þeir höfðu fengið að láni.
"LöggæsluSATAN" er sami aðili og "kvótakeisarinn" svo ekki var hægt að ætlast til þess að löggæslu væri sinnt af þeirri réttsýni sem hinn almenni borgari ætlast til af framkvæmdavaldinu og lög gera ráð fyrir. Þar af leiðandi hafði hinn almenni löghlýðni borgari ekki tök á að hindra lögleysuna nema með uppreisn þar sem langt var í kosningar.
Kvótakeisarinn reynir síðan, eftir að lögleysan hefur verið við líði um nokkurt skeið, að réttlæta lögleysuna með því, að þar sem það hafi viðgengist um tíma að sægreifarnir veðsettu eða seldu það sem þeir höfðu fengið að láni, væri ekki nema sanngjarnt að lögleysa sægreifanna yrði lögbundin. Væri það gert til þess að verja þá sem höfðu freystast til að kaupa af þeim, sem ekki höfðu rétt til að selja, eða lánað fé út á það sem ekki var heimilt að veðsetja.
Réttlætiskennd "kvótakeisararéttargæsluvaldsins" er því sú að hafi glæpur verið framinn, þ.e. eitthvað gert sem ekki fer saman við réttlætiskennd þjóðarinnar né lög landsins, skuli það bundið í lög. Þ.e. að sérstökum útvöldum sérréttindahópi sé heimilt að brjóta lög að eigin geðþótta. Hann, "réttargæslukvótakeisarinn", hefur ákveðið að lögleysa sægreifanna hafi verið lögleg þrátt fyrir lögleysuna og nú skuli það lögleitt af löggjafarvaldinu.
Ef þetta er boðskapur "kvótakeisarans-löggæslu-SATANS" til þjóðarinnar, að lögleysa þóknanleg "kvótakeisaranum" verði lögbundin í tímans rás, er spurningin sú, hvort lögleitt verði almennt framsal verðmæta sem menn fá að láni. T.d ef fræðimanni auðnaðist að fá að láni Flateyjarbók eða aðrar merkar minjar þjóðarinnar í skjóli fræðimennsku sinnar. Síðan tæki hann sig til vegna fjárskorts og veðsetti Danakonungi eða einhverjum örum bókina eða önnur verðmæti sem að láni voru fengin. Verður "réttargæslukvótakeisarinn" reiðubúinn til þess að lögfesta að leigutaki húsnæðis fái heimild til þess að veðsetja eignina eða selja af því að hann hafi fengið afnot af henni um tíma.
Góðir landsmenn stöndum vörð um það litla sem eftir er af auði þjóðarinnar. Styðjum þá menn sem hafa sýnt þor á löggjarfar-samkundunni til að mótmæla slíkri lögleysu sem "löggæslu-satans-kvótakeisarinn" hyggst þröngva upp á þjóðina á fölskum forsemdum og gegn hagsmunum þjóðarinnar.
Að lokum eru nokkrar frásagnir af því siðleysi sem viðgengst í skjóli "löggæslu-SATANS-kvótakeisarans".
Sægreifi "eitt" fékk úthlutað kvóta á skip sem ekki hefur verið haffært um árabil. Sægreifinn leigir kvótann til þeirra sem vilja fyrir fé sem nægir sægreifanum til þess að haga sér eins og "greifum" sæmir. Sægreifinn er nokkra daga á ári á landinu til þess að tryggja sér kvótann og koma honum í verð. Annan tíma ársins býr hann erlendis og lifir "greifalífi" á afrakstri "lénsins".
Sægreifi "tvö" fær úthlutað kvóta fyrir skip sitt. Hann leigir kvótann öðrum sægreifa. Síðan leigir hann kvóta af þriðja sægreifanum til þess að gera út eigið skip. Þá er kominn kostnaður við útgerðina og hann lætur þrælana á skipinu taka þátt í kostnaðinum við kvótaleiguna en stingur leigutekjunum af leigu kvótans sem hann fékk út á skipið í eigin vasa og fjárfestir erlendis. Sægreifinn er að undirbúa að flýja landið þegar hann og aðrir sægreifar hafa eytt auðæfum þjóðarinnar.
Sægreifi "þrjú" hefur fengið nýtt skip sem kostaði um eitt þúsund og fimm hundruð milljónir króna og það komið til landsins. Þessi sægreifi hafði engar áhyggjur af framtíðinni eða kostnaðarsamri fjárfestingu. Hann sagði að leigutekjur fyrir kvótann sem hann ætti myndi borga afborganir, vexti og annan kostnað hjá sér. Hann þyrfti ekki að gera skipið út á veiðar.
Eitt skærasta dæmið um ósvífnina í kvótabraski keisarans er að útgerðarfyrirtæki sem veðsett hefur skip og veiðiheimildir hefur náð fjármagni úr sparifé landsmanna sem er langt umfram verðmæti sem talin eru standa að veði fyrir lánunum. Síðan eru reiknimeistarar fengnir til að reikna verðgildi fyrirtækisins án þess að nokkrar sjáanlegar eignir séu fyrir hendi. Eftir að reiknimeistararnir hafa reiknað sig í rot, og ranka síðan við sér aftur, lýsa þeir yfir hvert hugsanlegt verðmæti fyrirtækisins sé. Þá er stofnað svokallað almenningshlutafélag, í eigu sægreifans, sem hann síðan selur auðtrúa fólki hluti í félaginu á einhverju tilbúnu gengi (margfalt nafnverð hlutafjár) og stingur peningunum í eigin vasa, því hann átti jú fyrirtækið, eignirnar eru ekki til aðeins nafnið.
Auðtrúa fólk sem taldi sig vera að tryggja sparfé sitt til frambúðar hefur spilað í lúmsku A-happadrætti og fengið verri drátt en sinadrátt.
Var einhver að tala um fjárhagsvandræði útgerða eða sægreifa á landinu?
Fjárhagsvandræði hafa ekki verið til hjá sægreifum nema þeim sem hafa flutt of mikið fé á of stuttum tíma úr landi fyrir aflaheimildir, þ.e. heimild til þess að draga fisk úr sjó, ætla þeir sér að ná út fjármagni frá rekstri skipanna. Þeir hafa ætlað sér um of. Með því að veðsetja hinum almenna borgara sem hefur glapist til að leggja fé til hliðar. Fé þetta sem sægreifarnir ná undir sig verður flutt þangað sem visinn armur "löggæsluSATANS" nennir ekki að teygja sig í þegar í ljós kemur undanskot frá því gjaldþroti sem sægreifarnir telja sig sjá framundan. Því vilja þeir tímanlega sölsa undir sig eins mikið og þeir hafa tök á af auði þjóðarinnar og hverfa síðan úr landi með illa fenginn auð.
Sú spurning vaknar, við skoðun slíkrar lögleysu, hvað vakir fyrir framkvæmdavaldinu, að krefjast lögbindingar á lögbrotum sem viðgengist hafa um árabil vegna vanhæfni kjörins réttargæslumanns til þess að gegna starfi sínu. Er ástæða þess að ekki hefur enn verið gengið frá stjórnarskrá fyrir lýðveldið sú að þeir sem sitja í löggjafarsamkundu þjóðarinnar vilji áfram fá að gera það sem þeim sýnist án afskipta þessara heimskingja (að mati þeirra ráðríku sem sitja löggjafarsamkunduna) sem teljast þegnar þessa lands. (Endurskoðun stjórnarskrárinnar hefur verið í gangi í rúm fimmtíu ár). "RéttargæsluSATAN" var kjörinn af hluta þjóðarinnar til þess að gæta hagsmuna allrar þjóðarinnar en hugsar aðeins um hag lítils brots af þjóðinni (gráðugum gömmum).
Ef þessi lögleysa verður lögfest sem "kvótakeisarinn" hefur lagt til er ráðlegt fyrir þá þegna landsins, sem hafa enn fjárhagslegt bolmagn til þess að flytja af landi brott og koma sér fyrir á erlendri grundu, að gera það strax, áður en sægreifarnir verða búnir að sölsa undir sig þau verðmæti sem finnast í landinu. Eftir að stóra gjaldþrotið skellur yfir og sægreifarnir flúnir land verður ekkert eftir fyrir hina, sem eftir sitja, nema eymd og volæði sem einkenndi líf forfeðranna á mesta niðurlægingarskeiði þjóðarinnar.
Þjóðin verður að koma í veg fyrir að það gangi eftir sem einn góður hagyrðingur kastaði fram:
Stelir þú litlu og standir lágt
í steininn ferð þú.
En stelir þú miklu og standir hátt
í stjórnarráðið ferð þú.
Góðir landsmenn! Gleðilega og gæfuríka framtíð í réttarríki þar sem lögleysan verður ekki lögfest.
Gamall sjómaður.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.