Trúarbrögð – Sannindi og Ósannindi.

Maðurinn hefur í aldarraðir velt fyrir sér tilurð sinni og tilgangi. Þeir sem telja verður að hafi skarað fram úr í víðsýni sáu snemma á þróunarskeiði mannsins að þörf væri á ákveðnum samskiptareglum þar sem kveðið væri á um réttindi og skyldur þeirra sem lifðu innan hópsins en svo virðist sem maðurinn hafi snemma orði félagsvera, þ.e. sóst eftir félagsskap annarra mannvera. Sennilega hefur þessi samfélags þroski þróast af illri nauðsyn við öflun lífsviðurværis og varnar gegn sterkari og stærri lífverum á jörðinni.

Hvenær fór maðurinn að velta fyrir sér atriðum sem ekki voru auðskýranleg eins og lífinu og tilverunn?. Sennilega hefur hugsun um slíkt komið upp þegar baráttan um lifibrauðið léttist og afgangsorka var frá brauðstritinu. Hugur mannsins hefur lengi leitað skýringa á ýmsum þáttum lífsins og tilverunnar og það sem ekki varð skýrt á auðveldan hátt var eignað einhverju duldu afli sem hlotið hefur nafnið “almættið”(guð). Enn í dag X-þúsundum ára eftir að talið er að maðurinn hafi komið fram sem þróuð hugsandi vera eru fjöldi manna sem lítið gera annað en hugleiða þessa óskýrðu þætti tilverunnar.

Talið er að skráðar heimildir sem fundist hafa víðsvegar á jarðkúlunni sýni að ris og hnignun hafi orðið marg oft á liðnum öldum (árþúsundum) í hugleiðingum um lífið og tilveruna. Út frá þessum hugleiðingum mannsins hafa sprottið margar kenningar sem hlotið hafa nafnið trúarbrögð. Trúarbrögð eru ekkert annað en tilhneiging mannsins til að skýra það illskýranlega (óskýranlega). Trúarbrögð eru eitthvað sem maðurinn, sem hugsandi vera, heldur að sé eins og honum sýnist það vera en er ekki neinar staðreyndir. Áður en trúarbrögðin urðu að sérstöku hreyfiafli komu fram ýmsar kenningar um samskipti manna, ættbálka og stærri hópa. Þróuðust ákveðnar reglur um samskiptin milli manna er vörðuðu einkanlega eignarrétt og yfirráðarétt yfir landsvæðum og fólki ásamt virðingu fyrir þeim sem taldir voru hafa völdin og var þar um að ræða ákveðna goggunarröð.

Þrátt fyrir ákveðna valdaskiptingu innan hópanna voru ákveðnar grundvallarreglur sem virðist hafa verið ofarlega í hugum manna þótt misbrestur hafi orðið þar á í framkvæmd. Svo virðist sem ættartengsl eða ættingjatengsl hafi fljótlega gert vart við sig sem hafi einkennst af samhjálp gegn utanaðkomandi ógn svo og hjálp í neyð. Einn þáttur mannlegra samskipta hefur þó skinið í gegn frá örófi alda og það er öfund einstaklings í garð annars einstaklings eða einstaklinga. Þessi svokallaða öfund hefur ekki einskorðast við eignir þeirra sem öfundaðir voru heldur einnig mannkosti og vinsældir þeirra.

Vinsældir og völd hafa verið ýmist samherjar eða andstæðingar. Vinsældir einstaklinga hafa ekki einskorðast við þá sem haft hafa völd heldur hafa einstaklingar notið vinsælda vegna framkomu sinnar við aðra einstaklinga og hjálpsemi við þá. Mörg dæmi eru um að menn er hafa mikil völd séu ekki vinsælir. Oft eru það völd sem byggjast á ótta kúgaðra við hefndaraðgerðir valdhafanna ef ekki er möglunarlaust farið eftir valdboði ráðandi manna.

Forystumenn hópa hafa ráðist af styrk þeirra (afli) og vitsmunum, s.s. útsjónarsemi við öflun mats og skjóls. Vafalítið hefur fljótlega komið fram að slóttugheit, undirferli og annað slíkt í fari mannsins hafi haft þýðingu í valdabaráttu manna sem vildu ná yfirráðum.

Í fari mannsins hefur fljótlega gætt þess að sumir menn er fylgisspakir og vilja frekar vera leiddir af öðrum en taka ákvarðanir sjálfir. Slíkir menn sveiflast á milli þeirra sem þeir telja að hafi völdin hverju sinni og eru fljótir að söðla yfir í valdabaráttu ef þeir telja að sá er þeir styðja fari halloka fyrir einhverjum örðum er sækist eftir yfirráðum. Slíkir liðsmenn eru aldrei traustir. Því hefur fljótlega komið upp að ef saman fór kraftur í valdagræðgi og kænska var hægt að ná langt í valdataflinu.

Geta má sér til að einhverjum valdsmanni eða valdagráðugum hafi hugleitt óskýrð atvik úr tilvist og tilgangi mannsins á jörðinni og hugkvæmst skýringuna um æðri máttarvald eða ef til vill fleiri en eitt máttarvald. Það að til séu fleiri en eitt máttarvald er stjórni tilvist mannsins á jörðinni hefur komið skýrast fram í kenningunni um himnaríki og helvíti þar sem ekki er sama ráðandi afl á báðum stöðum. Þegar hægt var að vísa til óskýrðra atvika með tilvísan í einhvern ofurmátt sem maðurinn varð að beygja sig undir var næsta skrefið í valdabaráttunni að gerast umboðsmaður þessa mikla máttar. Þar með var kominn grundvöllur að trúarbrögðum. Þessi ofurmáttur var ekki einvörðungu góður heldur voru ófarir mannskepnunnar einnig raktar til þessa ofurmáttar. Til þess að draga úr eða minnka hættu á óförum mannsins á jörðinni var farið að ákalla þennan eða þessa æðri mátta á ýmsa vegu er leiddi síðar af sér sérkennilegar mútugreiðslur til ofurmáttarins í formi fórna. Fórnir voru alltaf í formi verðmæta í eigu þess eða þeirra er fórnaði. Fórnirnar áttu að mýkja eða gleðja ofurmáttinn svo að hann horfði með velþóknun á þann eða þá sem fórnuðu og hlífði þeim við áföllum eða óförum.

Þar sem ekki var tilhlýðilegt að allir hefðu samband við ofurmættið komu fljótlega fram umboðsmenn ofurmættisins sem höfðu milligöngu á milli hins almenna tilbiðjanda og almættisins og þar af leiðandi önnuðust þeir fórnarathafnirnar. Þau verðmæti sem söfnuðust fyrir í formi fórna voru nýtt til að reisa almættinu vegleg minnismerki eins og altari, hof, kirkjur, moskur og musteri. Allar þessar mannlega gerðu minjar á jörðinni um hinn mikla mátt, sem talinn er stjórna tilvist alheimsins, lýsir best hvaða ógnar afl er falið í hinu óþekkta.

Allt sem ekki var til viðunandi skýring við, var heimfært undir afl ofurmáttarins. Var þar aðallega það sem kallað hefur verið náttúrhamfarir og sjúkdómar. Má þar nefna sjúkdóm er herjaði á mannskepnuna eftir að hafa etið svínakjöt. Þar með var handhægt að heimfæra það í trúarbrögðin að það væri ekki almættinu þóknanlegt að eta svínakjöt. Er það svo enn að fólk sveltur frekar en leggja sér svínakjöt til munns þrátt fyrir að eðlileg skýring sé fundin á orsökum veikinda eftir að hafa borðað illa soðið svínakjöt. Á svipaðan hátt hafa samskiptavandamál á milli manna verið leyst í gegnum trúarbrögðin með setningu reglna sbr. boðorðin tíu. Boðorðin tíu eru í sjálfu sér einfaldar samskiptareglur er hafa einfaldað öll dagleg samskipti manna sumstaðar á jörðinni þótt ekki hafi þau komið í veg fyrir herfarir og mannvíg valdagráðugra manna.

Geta má sér það til að í tímans rás hafi þáttur ofurmáttarins í daglegu lífi mannsins þróast í tvær megináttir með ýmsum afbrigðum á milli til beggja handa. Eru það annars vegar þeir er hugðust þróa valdið sem fólst í að geta gefið hálfskýringar til að fá fólk til að sætta sig við mótlætið í lífinu og taka óförunum sem vilja hins mikla ofurmáttar í þeim tilgangi að öðlast takmarkalítið vald yfir öðrum. Má þar nefna þá sem sagan greinir frá að hafi með alls konar bellibrögðum haft óstjórnlegt vald yfir fólki s.s. galdramenn hinna ýmsu ættbálka, kuklarar og ýmsir forystumenn trúarhópa sem óþarfi er að nefna.

Á hinn bóginn eru menn sem hafa leitað að skýringum á því óskýranlega með því að líta jákvætt á tilveruna og reynt að gera ekki öðrum það sem þeir vildu ekki að sér yrði gert. M.ö.o. að reyna að bæta samskipti manna án þess að nota valdboð eða þurfa að ráða yfir mönnunum.

Ef trúarbrögðin eru grannt skoðuð eru þau öll af sama meiði. Þau stafa af skorti á skýringum á því torskylda og ó- eða illskýranlega. Öll trúarbrögð leita í ofurmáttinn til að skýra það sem ekki skilst fullkomlega. Hvort sem mennirnir trúðu á sólina, mánann, snákinn eða aðrar hugmyndir um í hverju ofurmátturinn dyldist er grunnurinn alltaf sá sami, þ.e. ofurmáttur er allt getur.

Það sérkennilega við þennan átrúnað er að svo virðist sem um sé að ræða tvo krafta í öllum trúarbrögðum. Krafturinn sem flestir ákalla er sá sem ætlast er til að bæti tilvist mannsins á jörðinni og komi í veg fyrir áföll og óáran. Hinn krafturinn er sá sem veldur óáran, harmi og vanlíðan meðal manna. Þótt ótrúlegt sé eru ótal dæmi úr trúarsögum þar sem skilja má að sama aflið geti verið bæði vont og gott og því sé það þýðingarmikið að þetta vald sé blíðkað með fórnum (verðmætum) og sérstöku líferni.

Miðað við hvað margar stórmerkilegar uppgötvanir á sviði mannlegra samskipta urðu á fyrri öldum mannsins verður það að teljast stórundarlegt að í byrjun tuttugustu og fyrstu aldar eftir talda fæðingu hins svo kallaða Krists skuli stórir hópar mannkyns falla fyrir falskenningum og ósannindum um guðlega hæfileika loddara sem kenna sig við ákveðin trúarbrögð.

Það skal viðurkennt að þrátt fyrir mikla aukningu á þekkingu mannsins á hinum ýmsu sviðum lífs og tilveru eru ótal atriði óskýrð og manninum enn óskiljanleg sem falla inn í trúna um hið yfirnátturlega vald (kraft).

Valdagræðgi er einn af löstum mannsins og virðist vera grundvöllur að svokallaðri valdabaráttu sem er ríkjandi í heiminum. Valdagræðgi er þekkt í heimi dýranna sem maðurinn tilheyrir og má þar nefna apategundir, ljón og fleiri tegundir þar sem karldýrin berjast um yfirráð yfir kvenkyns dýrum ættbálksins. Samt virðist það svo að sumar mannskepnur, ekki allar, séu háðar þeim kvilla sem valdagræðgi nefnist á meðan aðrir sætta sig við að hlíða boðum hinna valdagráðugu. Eru hinir þægu kallaðir Já, Já menn.

Kenningin um hið yfirnáttúrulega sem hefur komið upp og tengt hefur verið sumum trúarbrögðum hefur leitt til mestu ódæðisverka sem þekkt eru í sögu mannsins. Hafa þar farið fremstir í flokki hinir svokölluðu „Já, Já“ menn sem hlýða boðum hinna valdagráðugu og fremja ódæðisverk án umhugsunar.

Hafa mál þróast þannig að ef einhver vogar sér að gagnrýna trúarbrögð eða hæðast að þeim hefur það kostað hryðjuverkaógn af hálfu þeirra sem telja sig vera gagnrýnda og er það orðið svo að trúarbrögð eru orðin einn versti óvinur mannkynsins. Fyrir utan þær styrjaldir er háðar hafa verið vegna trúarbragða vofir ætíð yfir mannkyninu vopnuð átök vegna trúarbragða. Hinir blindu trúarbragðafrömuðir eru ekki sáttir við það að til séu aðrar skoðanir en þeirra.

Lög hafa verið sett til að hindra gagnrýni á trúarbrögð en þau hindra ekki ofstækis trúarbragðafræðslu innan sumra trúarbragða sem leiða í sumum tilvikum til kúgunar á fylgjendum. Slíkt hefur leitt til og mun leiða til vopnaðra átaka á milli hópa í framtíðinni sem eru á andstæðri skoðun í trúarbrögðum.

Þótt meirihluti mannkyns séu friðsamir einstaklingar eru og verða alltaf einstaklingar sem sækjast eftir hilli fjöldans. Þessir einstaklingar sem sækjast eftir hilli annarra eru í hópi hinna valdagráðugu og misbeita stöðu sinni sem oft leiða til ódæðisverka eins og saga mannsins greinir frá. Ekkert annað dýr á jörðinni drepur dýr af sömu tegund af slíkri heift sem maðurinn gerir og er það í flestum tilvikum af valdagræðgi eða hefndarþörf og eru trúarbrögðin oft falin inni í slíkum aðgerðum.

Reykjavík 15. október 2020

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Erum við ekki öll sammála um BOÐORÐIN 10? 

Jón Þórhallsson, 15.10.2020 kl. 10:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband