12.7.2021 | 01:50
Banamein Íslenskrar tungu
Íslenskt tungumál á undir högg að sækja vegna lélegrar íslenskukunnáttu þeirra þegna landsins sem menntaðir eru í Háskólum landsins.
Fréttamenn ríkisfjölmiðlanna og veðurvitar Sjónvarpsins svo og aðrir fréttamenn fjölmiðlanna eru háskólamenntaðir einstaklingar sem ekki hafa vit á að nota að öllu leyti Íslensku í málflutningi sínum. Stjórn RÚV er sofandi og sinnir ekki skyldu sinni við að viðhalda tungumálinu nema einn dag á ári sem þeir kalla DAGUR ÍSLENSKRA TUNGU. Er þessi dagur orðinn RÚV/Sjónvarpinu til skammar þar sem í efni sjónvarpsins sem flutt er á íslensku er málfarið svo illa brenglað að undrun sætir.
Veðurvitar Sjónvarpsins er aftur farnir að tjá sig í kortum sem fáir Íslendingar skilja. Veðurvitarnir virðast ekki hafa lært í Háskolanum að hugmyndir um veðurfar í framtíðinni var tjáð með orðunum veðurútlit eða veðurhorfur eru svo og svo en hafa ekkert með kort að gera. Hvort stærilætið í veðurvitunum sé það mikið að þeir séu ósáttir við að gerðar séu athugasemdir við málfar þeirra. Stjórn Ríkisútvarpsins sem á að sjá um að skiljanleg íslenska sé notuð við allt sjónvarpsefni hefur sofið á verðinum.
Sambærilegur vanþroski hrjáir íslenska frétta menn. Flest sem fram kemur í fréttum er í einhverjum PÍPUM sem gerir fréttir óskiljanlegar. Hvernig hægt er að koma rugli fréttamanna til skila í pípum er illskiljanlegt þar sem flæði í rörum/pípum er takmarkað nema þrýstingur sé stöðugt á. Hugsanlegt er að pípubullið eigi við reykjarpípur en þá þurfa hlustendur að vera stöðugt að draga andann gegnum reykjarpínuna ef þeir ætla að fylgjast með.
Ekki er allt bullið þar með upptalið. Er mjög áberandi hvað algengt er að fréttamenn og viðmælendur þeirra sletta ómældum fjölda orða sem ekki eru finnanleg í íslensku máli s.s. fókus, kanselera, objekt, og tugum annarra erlendra orða. Oftast virðist þessi slettugangur viðmælenda fréttamanna vera auglýsing þeirra um kunnáttu sína í erlendum tungumálum.
Fleira er það sem hrjáir háskólaborgarana sem eru í fréttamennsku auk margra íþróttamanna sem grípa hvaða bull sem þeir heyra og telja það góða íslensku. Má þar nefna orðið geggjað þegar reynt er að koma á framfæri lýsingu á einhverju sem talið er jákvætt. Þetta fólk gerir sér ekki grein fyrir að orðið geggjað hefur merkingu í íslensku á neikvæðu andlegu ástandi persónu. Sá sem talinn er geggjaður er talinn andlega vanheill.
Sérstök ósk frá undirrituðum er um að fá skýringu á merkingu orðanna:
Viðbjóðslega gaman?
Svívirðilega gaman?
Fjöldi íþróttamanna einkum konur nota mikið orðið geggjað þegar þær telja einhverja frammistöðu vera frábæra eða góða en virðast ekki gera sér grein fyrir því að þau eru að niðurlægja frammistöðuna með neikvæðu orði.
Þar sem RÚV/Sjónvarpið eiga að vera verndarar íslenskrar tungu er það mjög undarlegt hvað mikið er um málsóða sem koma fram í fjölmiðlum. Málsóðar þessir eru og verða banamein tungumálsins á stuttum tíma ef ekki verður brugðist við og aðilum gert ljóst að þeir eigi að nota eingöngu íslenskt mál í fjölmiðlum.
Einn ljóður hefur verið nokkuð áberandi í ljósvakamiðlum það er notkun hik-orðsins SKO og önnur afbrigði hikorða. Í þriggja mínútna viðtali í sjónvarpinu notað einn gesturinn ellefu sinnum orðið sko og virtist sem viðmælandinn hafi ekki ráðið við verkefnið nema með SKO-inu.
Er æskilegt að stjórn RÚV vakni til lífsins og ráði bót á því bulli er viðgengst hjá þessum ríkisfjölmiðli.
Reykjavík 12. júlí 2021
Kristján S. Guðmundsson
fv. skipstjóri
Athugasemdir
Sama þróun er meðal ungra kennara sem koma og vinna í grunnskólanum. Fylgist aðeins með skrifum þeirra á snjáldursíðu grunnskólakennara. Fer um mig einstaka sinnum að lesa innlegg og svör kennarana. Nafnháttanotkun mikil og svo ,,er búin" í stað þess að nota þátíð. Sem dæmi, er búin að hafa það gott í stað, hafði það gott.
Málslóðar finnast víða, tek undir orð þín með fréttamennina, hvort sem þeir segja frá íþróttum eða öðrum fréttum. Rak augun í ,,fljótasta markið", ég vissi ekki að mörk keppi sín á milli en íþróttafréttaritari er nokkuð viss um það! Fréttamaðurinn sagði frá hve stuttur tími leið frá upphafi leiks þar til mark var skorað.
Helga Dögg Sverrisdóttir, 12.7.2021 kl. 17:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.