23.11.2021 | 08:42
Andlegir vanvitar á Alþingi.
Setning laga nr. 55. 27. apríl 2009 er eitt af furðufyrirbærum Alþingis. Hver tilgangur Alþingis með setningu þessara laga um skráningu sjúkraskrár er óskiljanlegur nema um hreina sýndarmennsku hafi verið að ræða.
Ljóst er að lög þessi eru ekki í þágu sjúklinga en geta verið stórhættuleg þeim eins og komið hefur fram. Ljóst er að setning þessara laga er ekki í þágu sjúklinga eins og komið hefur fram þegar tekist hefur að fá aðgang að litlum hluta þess sem skráð er og kemur í ljós að í skráningunni eru hrein ósannindi.
Sárafáir sjúklingar fara fram á að fá að skoða hvað er bókað og varðar þeirra eigin heilsufar og því er skráning í sjúkraskrár eftirlitslaust og háð vitsmunum og málskilningi heilbrigðisstarfsfólks sem virðist vera all sérkennilegt ef tekið er mark á skráningum í sjúkraskrár.
Í lögum um skráningu sjúkraskráa eru ákvæði um að sjúkráskár einstaklings skuli vera eins margar og fjöldi heilbrigðisstarfsfólks er sem viðkomandi leitar aðstoðar hjá. Ákvæði þetta er svo heimskulegt að sérhver þegn landsins þarf að hafa sérstakt bókhald yfir þá aðila heilbrigðiskerfisins sem hann leitar aðstoðar hjá og hvenær, auk þess keyrir heimskan út fyrir allt velsæmi með því ákvæði í lögunum að viðkomandi heilbrigðisstarfsmaður skal ljúka skráningu upplýsinga í sjúkraskrá innan 24 klukkustunda frá heimsókn sjúklings.
Meðalgáfaður einstaklingur gerir sér grein fyrir að heilbrigðisstarfsmaður sem tekur á móti 10 til 30 einstaklingum á starfsdegi og skráir í sjúkraskrá eftir það er í þeirri alvarlegu hættu að blanda saman og rugla hvað tilheyrir hverjum sjúklingi og þannig verða til ósannar skráningar í sjúkraskrá eins og sannanir eru fyrirliggjandi.
Sjúklingur sem krefst eyðingar á röngum bókunum í sjúkraskrá, ef hann fær tækifæri á að lesa slíkar skrár, þarf samþykkis landlæknis til að eyða rangfærslum í sjúkraskrám sem Landlæknir kemur ekkert við samkvæmt skriflegu svari frá embættinu þar sem af hálfu þess embættis er hafnað allri aðstoð við sjúkling um aðgang að sjúkraskrám.
Af hálfu Landlæknisembættisins hefur verið neitað um upplýsingar um hvert aðili eigi að snúa sér varðandi sjúkraskrár skráðar af læknum sem eru látnir eða sjúkrastofnunum sem eru aflagðar. Silkihúfuembættið sem kallað er Landlæknir þarfnast endurskoðunar ef það er ekki bara sýndarembætti starfsmanna sem eru áskrifendur launa sinna. Ákvæði laganna um samþykki Landlæknis við eyðingu rangra og ósannra bókana í sjúkraskrá er vísbending um að það sé ekki sannleikurinn sem eigi að ráða heldur geðþótti starfsmanna embættis Landlæknis hvað skráð er í sjúkraskrá viðkomandi og hvað leiðrétt ef talin er þörf á því af sjúklingi.
Eftir mistök eða mismun við ráðleggingar við útskrift af sjúkrahúsi og mismun í bókun sjúkraskrár vegna atviksins (ath. vitni að leiðbeiningum læknis sem ekki voru samkvæmt bókunum í sjúkraskrá) og skrifleg samskipti við Landlæknisembættið vegna málsins þar sem lagt var til af undirrituðum að sjúklingar fengju skriflegar leiðbeiningar og tilmæli lækna við útskrift og afrit af sjúkráskrá hefur ekki hlotið hljómgrunn hjá embættinu.
Ef persóna hefur undirgengist læknisaðgerð sem hefur heppnast mjög vel en verður fyrir því að fá alvarlegar aukaverkanir af völdum lyfs áratugum seinna eru sjúkraskrár lífshættulegar.
Við heimsókn sjúklings til læknis er án nokkurrar rannsóknar því slegið föstu af lækni að hið gamla mein sem gert var við fyrir áratugum sé að endurtaka sig. Sjúklingur heldur áfram að taka lyfið (meinsemdina) samkvæmt læknisráði.
Ástand sjúklings versnar stöðugt og þrátt fyrir heimsóknir sjúklings til læknis á nokkurra mánaða fresta vegna sífellt versnandi líkamlegs ástands er alltaf sama svarið að þetta sé gamla meinsemdin.
Eftir tæplega fjögurra ára notkun lyfsins og sex heimsóknir til læknis vegna versnandi ástands breyttist viðhorfið og ákveðið að kalla til sérfræðilækni. Sex mánuðum seinna fæst tími hjá sérfræðingnum sem eftir all nokkrar rannsóknir úrskurðar að meinsemdin sé vegna umrædds lyfs sem sjúklingur hefur samkvæmt læknisráði neytt í rúm fjögur ár.
Líðan sjúklings eftir fjögurra ára neyslu lyfsins er orðin mjög slæm. Það sem er alvarlegast við þetta er að samkvæmt ummælum sérfræðilæknisins þá voru þekkt fjögur sambærileg tilvik sem afleiðingar af umræddu lyfi í því ríki sem læknirinn hafði hlotið sína menntun. Þrátt fyrir þá vitneskju voru ekki í leiðbeiningum með lyfinu nógu skilmerkilegar viðvaranir vegna aukaverkana lyfsins. Sjúklingar eru tilraunadýr lyfjafyrirtækjanna sem hafa einkarétt á að eitra fyrir fólki. Ef upplýsingar um fyrri þekktar alvarlegar meinsemdir vegna lyfsins hefðu verið ljós fleiri læknum er hugsanlegt að afleiðingar sjúklingsins hefðu ekki orðið eins alvarlegar og reyndin er fyrir sjúklinginn.
Það sem vekur undrun við lestur sjúkraskrár er að hvergi er staf að finna þar er skýrir komu sjúklings til læknisins og kvartanir hans né orð um úrskurð eða ástæðu úrskurðar læknisins. Í sjúkraskrá er heldur ekki orð bókað um ástæðu þess að ákveðið var að leita aðstoðar sérfræðilæknis. Þessi læknir notaði bókanir í sjúkraskrár til rangrar ályktunar sinnar um orsök meins er sjúklingur kvartaði undan. Sýnir þetta hve sjúkraskrá getur verið hættuleg.
Þetta atvik sýnir hve stórhættulegt er þegar læknar nota sjúkraskrár og úrskurða við kvartanir sjúklings að gamlar meinsemdir séu að vakna upp aftur þegar meinsemdin er lyfjaeitrun.
Lög þessi nr. 55. 27. apríl 2009 er eitt af furðufyrirbærum í afgreiðslu Alþingis og sýnir að afgreiðsla laga er ekki í þágu þegnanna heldur sýndarmennska alþingismanna og kvenna.
Reykjavík 23. nóvember 2021
Kristján S. Guðmundsson
fv. skipstjóri
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.