Sjúkraskrá og embætti Landlæknis

Á árunum 1952-1954 var skipstjóri dæmdur og sviptur starfsréttindum í tvö ár vegna bókunar á einu orði í dagbók skipsins sem talið var rangt.

Gilda sömu lagagildi fyrir heilbrigðisstarfsfólk um rangar bókanir í sjúkraskrá (ósannar bókanir í sjúkraskrá)? Eru sambærileg ákvæði í lögum er varða ranga skráningu í sjúkraskrá sjúklinga á Íslandi?

Samkvæmt upplýsingum er veittar voru á fundi með fulltrúum frá embætti Landlæknis eru sjúklingar sjálfir ábirgir fyrir bókunum um þá í sjúkraskrá. Sjúklingar eiga rétt (ber skilda til ef þeir vilja koma að athugasemdum) að leita eftir upplýsingum hjá heilbrigðisstarfsfólki um hvað hafi verið skráð í sjúkraskrá eftir heimsókn sjúklings. Það skal tekið fram að samkvæmt lögum um skráningar í sjúkraskrá hefur heilbrigðisstarfsmaður 24 klukkustundir frá lokun viðtals við sjúklinginn til að skrá upplýsingar sem talin er þörf á af starfsmanninum.

Í upplýsingum frá embætti Landlæknis kom fram að telji sjúklingur eftir að hafa fengið upplýsingar frá heilbrigðisstarfsmanni að bókun sé ekki rétt getur sjúklingurinn sent inn skriflega athugasemd til heilbrigðisstarfsmannsins um það sem hann (sjúklingurinn) telur ekki rétt eftir sér haft. Heilbrigðisstarfsmanni ber að bóka athugasemd sjúklingsins í sjúkraskrá. Þess ber hins vegar að geta að þar er um að ræða ORÐ gegn ORÐI en ekki leiðréttingu á talinni rangri skráningu í sjúkraskrá. Því eru athugasemdir sjúklings vegna ósannra bókana í sjúkraskrá lítils virði þar sem annað heilbrigðisstarfsfólk sem vitnar í bókanir í sjúkraskrár (til skráðra heimilda í sjúkraskrá sjúklingsins) horfir fram hjá athugasemdum sjúklingsins og tekur niðurstöður (skráningu) heilbrigðisstarfsmanns sem sannleikann.

Sjúklingur er því varnarlaus þegar kemur að röngum bókunum heilbrigðisstarfsfólks í sjúkraskrár þeirra en rangar bókanir eru mjög algengar og sumar hættulegar eins og undirritaður hefur reynslu af.

Af hálfu Landlæknis er neitað um eyðingu á sjúkraskrá sem inniheldur fjöldann allan af röngum bókunum (fölskum bókunum) og hinar röngu (fölsku) bókanir hafa orðið til alvarlegs heilsutjóns fyrir sjúklinginn. Neitunin er byggð á íhaldssemi þar sem þeir hjá embætti Landlæknis óttast holskeflu af kröfum um eyðingar rangra skráninga í sjúkraskrár landsmanna. Þar með eru landsmenn réttlausir gagnvart röngum bókunum í sjúkraskrá þeirra og verða að sætta sig við stórhættulegt orðalag í bókunum er getur varðað öryggi heilsu þeirra.

Sennilegt er að fáir sjúklingar geri sér grein fyrir hve margar ósannar skráningar eru skráðar í sjúkraskrá þeirra. Undirritaður telur sig ekki geta verið þann eina sem orðið hefur fyrir bókunum á ósönnum atvikalýsingum í sjúkraskrá því ef svo væri mætti kalla það einelti.

Það skal tekið fram að þegar undirritaður kallaði fyrst eftir afriti af upplýsingum sem skráðar eru í sjúkraskrá kom í ljós að margir tugir rangra upplýsinga voru skráðar og sumar hættulegar heilsunni eins og í ljós hefur komið með alvarlegu heilsutjóni.

Því miður er það svo að það sem einkennir heilbrigðiskerfið er að röng sjúkdómsgreining heilbrigðisstarfsmanns sem bókuð er í sjúkraskrá er lesin af næsta heilbrigðisstarfsmanni sem leitað er til og án nokkurra rannsókna er vitnað í röngu skráninguna. Þannig heldur röng sjúkdómsgreining áfram jafnvel árum saman þar til fyrir tilviljun er leitað til sérfræðings sem framkvæmir rannsókn og kemst að því að margra ára barátta sjúklingsins við veikindi er af völdum (eitraðs) lyfs sem ávísað hafði verið með leyfi heilbrigðisyfirvalda og notað í áraraðir en reyndist vera hættulegt eitur fyrir sjúklinginn. Heilsu sjúklings var fórnað fyrir vankunnáttu eða annarlegra hagsmuni heilbrigðiskerfisins því sjúklingur var aldraður. (Aldur orðinn yfir meðalaldur landsmanna).

Sú afstaða af hálfu fulltrúa embættis Landlæknis að þeir geti ekkert gert í svona málum er yfirlýsing um tilgangsleysi embættisins.

Almennur skilningur landsmanna er að embætti Landlæknis sé æðsta yfirvald í þágu landsmanna allra en ekki sem varnaraðili fyrir heilbrigðis starfsfólk. Af hálfu embættisins ætti það að hafa eftirlit með því að heilbrigðisþjónustan væri eins fullkomin og unnt væri.

Sú spurning hefur vaknað hver eiturlyfja BARÓNINN sé sem heimilar notkun á slíku eiturlyfi sem þarna er um að ræða. Eru landsmenn hugsanlega tilraunadýr fyrir lyfjaframleiðendur?

Vegna eitrunaráhrifa marga lyfja sem á markaðnum eru þarf að efla eftirlit með notkun þessara varasömu lyfja. Þarf að vera öflugt eftirlit til staðar og virkt svo koma megi í veg fyrir alvarlega spillingu á heilsu sjúklinga. Má ekki spara kostnað við rannsóknir á hugsanlegum eituráhrifum lyfja sem ávísað er af læknum eins og gert hefur verið og virðist sá sparnaður einkum beinast að eldra fólki.

Afstaða embættis Landlæknis varðandi neitun á eyðingu á röngum skráningum í sjúkraskrá er óskiljanleg þar sem gildi ósannra bókana í sjúkraskrá sjúklings getur aldrei orðið til annars en tjóns fyrir sjúklinginn. Hver tilgangurinn er með geymslu ósanninda í sjúkraskrá er af hálfu embættisins sönnun þess að þar sé um að ræða ORÐ gegn ORÐI og athugasemdir sjúklings séu einskis virði. Virðist það sérstaklega eiga við þegar sjúklingur er aldraður og það sé þá afgreitt sem elliglöp.

Niðurstaðan eftir fund með fulltrúum Landlæknis er að ef sjúklingur telur sig þurfa á aðstoð læknis þá sé best að afhenda lækninum skriflega hvað það er sem viðkomandi þarfnist aðstoðar vegna. Hafa skal skjalið í tvíriti og fá kvittun fyrir móttöku þess á afritið, Með því er komið í veg fyrir að ORÐ standi gegn ORÐI. Að orðið verkir sem kvartað er undan verði ekki bókað af lækni sem doði (dofi). Svo þegar á reynir verði ekki hægt að segja að ORÐ standi gegn ORÐI ef afhent er skriflega hvaða þjónustu er óskað eftir af lækni og ekki án þess að segja það að athugasemd sjúklings verði afgreidd sem elliglöp.

Er hér um að ræða viðvörun til aðila sem annast skráningar viðkvæmra gagna með vísan til dómsins sem kveðinn var upp um miðja síðustu öld og varðaði eitt orð sem olli mjög alvarlegum áföllum fyrir viðkomandi. Dómur þessi er viðvörun til þeirra er þurfa að skrá skýrslur. Að það sem bókað er sé rétt eftir haft en ekki túlkun viðkomandi skrásetjara á því sem hann taldi sig hafa heyrt og túlkaði. Má þar nefna dæmi úr sjúkraskrá sem var ranglega bókað af skrásetjara. Var sagt við heilbrigðisstarfsmann að tiltekið lyf virtist lækka blóðþrýsting sjúklingsins en heilbrigðisstarfsmaðurinn bókaði í sjúkraskrá að sjúklingur teldi að lyfið hækkaði blóðþrýsting. Í framhaldi af því fékk sjúklingur lyf til lækkunar blóðþrýstings þegar vandamálið var of lágur blóðþrýstingur. Ástæða mistúlkunar heilbrigðisstarfsmannsins var vegna þess að fáttítt er að um sé að ræða of lágan blóðþrýsting hjá sjúklingum og því var bókunin afgreidd sem elliglöp sjúklingsins.

Þegar komið er út í vandamál vegna mistúlkunar heilbrigðisstarfsmanns á því sem sagt er við hann og rangrar bókunar hans er það vandamál sjúklingsins en ekki Landlæknisembættisins hvað varðar leiðréttingu á rangfærslunum að mati fulltrúa Landlæknisembættisins. Niðurstaðan verður ORÐ gegn ORÐI.

M.ö.o. sjúkraskrá getur orðið stórhættuleg fyrir sjúkling vegna rangrar bókunar á því er sjúklingur kvartar undan. Eru dæmi um það að alvarleg heilsuskerðing hafi orðið sem er óbætanleg vegna skorts á þekkingu í læknisfræðinni hvað varðar úrbætur þegar eitranir lyfs, sem ávísað er, koma upp og valda alvarlegu heilsufarstjóni sjúklings. Er þörf á miklu fullkomnara eftirliti af hálfu lækna varðandi lyf sem ávísað er til sjúklinga þegar sjúklingur kvartar um líkamlegt eða andlegt vandamál sem vantar skýringu á. Sjúklingur á ekki að þurfa að segja lækni að orsök vandans sé tiltekið lyf. Það er alfarið í höndum læknis sem kvartað er við að huga að hugsanlegum orsökum vegna einhvers lyfs sem sjúklingi hefur veið ávísað. Kvörtun sjúklings þarf ekki að beinast að þeim lækni sem ávísaði lyfinu heldur hvaða lækni sem er sem leitað er til. Það er ekki hlutverk sjúklings að segja til um það að krankleiki sem kvartað er undan sé af völdum tiltekins lyfs.

Á umræddum fundi með fulltrúm Landlæknis kom einnig fram að sjúklingar eiga aldrei að leysa út ávísuð lyf nema þeir hafi fyrst lesið leiðbeiningarnar sem fylgja lyfinu. Sjúklingur þarf því að fá það skriflega frá lækni nafnið á lyfinu sem ávísað er og getur þá sjúklingurinn leitað á svokölluðu INTER-neti að upplýsingum um lyfið. Enn fremur ber að geta þess að eftir lestur fylgiskjals með lyfinu er lyfjanotkun alfarið á ábyrgð sjúklingsins en ekki læknis sem ávísar lyfinu.

Í því tilfelli lyfjaeitrunar er hér um ræðir var ekki hægt fyrir leikmann að sjá á fylgiseðli lyfsins að fyrir hendi væri sú hætta á heilsutjóni sem varð. Þrátt fyrir það fullyrða fulltrúar Sjúkratrygginga Íslands í skriflegum gögnum að læknum hafi verið full ljóst um slæmar aukaverkanir hins umrædda lyfs þegar kvartað var um krankleika og umrætt lyf notað. Sjúklingar eru því að því er virðist bara tilrauna dýr fyrir lækna og lyfjafyrirtæki.

Aðal niðurstaða fundar með fulltrúum Landlæknis er að embættið liggur á sjúkraskrám, sem eru uppfullar af ósannindum, eins og eldspúandi dreki á gulli.

Að lokum má geta þess sérstaklega sem prófessor við Háskóla Íslands sagði í viðtalsþætti Sjónvarpsins um framkomu heilbrigðisstarfsmanna við eldra fólk sem væri oft og tíðum neikvæð af hálfu starfsmanna.

Reykjavík 8. maí 2022

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband