7.12.2023 | 08:26
Slys á sjó
Á níunda áratug síðustu aldar voru slys á sjó um 800 talsins á ári þegar skipuð var nefnd 1986 sem kölluð var Rannsóknarnefnd sjóslysa. Heyrði nefndin beint undir ráðherra.
Í nefndina voru skipaðir Haraldur Blöndal lögmaður, Hannes Hafstein framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins, Emil Ragnarsson skipaverkfræðingur, Filip Þ Höskuldsson skipstjóri og Sigmar Þ. Sveinbjörnsson stýrimaður.
Nefndin fékk húsnæði, eitt herbergi um 18 fm., á efstu hæð (fimmtu hæð) í vestur enda Hafnarhússins.
Í september 1986 var auglýst eftir manni til að annast störf fyrir nefndina starfið var gefið upp sem öflun gagna (upplýsinga) er fram kæmu þegar slys yrði og halda saman gögnum nefndarinnar.
Hinn 31. desember 1986 kl. 2200 hafði formaður nefndarinnar samband við einn umsækjenda og tilkynnti honum að hann hefði verið valin úr hópi umsækjenda til starfans fyrir nefndina, Rannsóknarnefnd sjóslysa. Umsækjandanum var jafnframt tilkynnt að haft hefði verið samband við skipherra Landhelgisgæslunnar G.K. og hann spurður um það hvern umsækjenda hann teldi hæfastan til starfans fyrir nefndina. Sagði G.K. skipherra við formanninn að umsækjandinn K. G. væri sá eini af umsækjendum sem hefði kjark til að spyrja óþægilegra spurninga eins og nauðsynlegt væri ef rannsókn ætti að skila einhverjum árangri.
Fyrsta málið sem kom til raunhæfrar rannsóknar nefndarinna var mál m.s. Suðurlands er sökk 24. desember 1986 norðaustur af Íslandi og fórust sex menn með skipinu.
Strax og nefndin hóf störf komu fram hnökrar á nefndinni er lýsti sér í viðhorfi tveggja nefndarmenna til stéttarhollustu. Var afstaða þessara tveggja manna einkennandi fyrir það að niðurstaða nefndarinnar mátti ekki vera gagnrýni á röng vinnubrögð þeirra er voru í þeirri stétt er þeir tilheyrðu.
Þessi afstaða þessara tveggja manna leiddi til þess að annar þeirra sagði sig úr nefndinni eftir rúm þrjú ár þegar hann taldi sig ekki koma sínum málstað á framfæri. Hinn nefndarmaðurinn hélt áfram sinni stéttarbaráttu út skipunartímann og meirihluta næsta skipunartímabils. Hafði hann leitað á náðir L.Í.Ú. og S.Í.K. um aðstoð. Kenndi hann framkvæmdastjóra nefndarinnar um öll vandræði sín um að hann fengi ekki að ráða meiru í afgreiðslu nefndarinnar.
Á það skal bent sérstaklega að framkvæmdastjórinn tók ekki þátt í umræðum nefndarinnar um mál og skipti sér ekkert af umræðum eða afgreiðslu mála sem alfarið var hjá nefndinni.
Afstaða nefndarmannsins leiddi til þess að lögmaður sem skipaður var formaður nefndarinnar eftir fyrsta skipunartímabilið, Ástráður Haraldsson, sagði af sér formennskunni eftir um ár vegna afstöðu nefndarmannsins. Sagðist formaðurinn hafa lært lögfræði í Háskóla Íslands og nefndarmaðurinn gæti ekkert kennt sér í þeim fræðum en hann reyndi það á hverjum einasta fundi nefndarinnar. Það sem einkenndi afstöðu þessara tveggja nefndarmanna var að þeir tóku til varnar fyrir stéttarbræður sína, en ef gagnrýni kom fram á vélstjóra eða aðra skipverja vegna mistaka við vinnu samþykktu þeir gagnrýni orðalaust. Nefndarmönnum var gefinn kostur á að leggja fram skriflega afstöðu sína til máls sem yrði þá birt með niðurstöðu nefndarinnar. Þeir þáðu aldrei slíka afgreiðslu.
Fyrstu nefndinni tókst þrátt fyrir hnökra að afgreiða mál og gefa út skriflega skýrslu um afgreidd mál á hverju ári. Í formála formannsins í fyrstu skýrslu gat hann sérstaklega um að árangur nefndarinnar lægi í starfi framkvæmdastjórans við rannsókn málanna.
Strax við fyrstu aðkomu framkvæmdastjóra nefndarinnar að yfirheyrslum yfir skipverjum skipverja er lent höfðu í slysi komu kvartanir frá aðilum eins og L.Í.U. og S.Í.K. eftir því hvor aðilinn átti hlutdeild í málinu. Var kvartað um að framkvæmdastjórinn gengi of langt í spurningum varðandi aðdraganda að slysinu.
Oftast voru útbúnir spurningalistar fyrir yfirheyrslurnar og formenn beðnir að yfirfara þá og gera athugasemdir. Aldrei komu fram athugasemdir frá formönnunum en þeir lýstu yfir ánægju með listana.
Þegar Ástráður Haraldsson sagði af sér þar sem ekki væri hægt að skipta um mann í nefndinn sem illi sífelldum átökum innan nefndarinnar gekk illa að fá lögmann til að taka við formennskunni. Var af hálfu ráðuneytisins haft samband við nokkra lögmenn en samkvæmt upplýsingum vildi enginn taka við starfinu nema lausn yrði fundinn á máli nefndarmannsins sem Ástráður hafði sagt af sér vegna.
Varð lausn ráðuneytisins við skipun formanns að skrifstofustjóri ráðuneytisins Ragnhildur Hjaltadóttir var skipuð til bráðabirgða. Bráðabirgðalausn ráðherra varð varanleg lausn þar í nokkur ár eða þar til kvörtun kom frá S.Í.K. um vanhæfi formannsins vegna máls er varðaði m.s. Dísarfell sem sökk suðaustur af Íslandi. Þá var Haraldur Blöndal skipaður aftur sem formaður.
Á fyrstu 10 til 12 árum sem nefndin starfaði samkvæmt lögum frá 1986 voru all mörg tilvik þar sem minni bátar sukku eða eyðilögðust. Var aðdragandi atburða all undarlegur í flestum tilvikum og þar á meðal var skortur á stöðugleika báta frá Vestfjörðum tekinn til sérstakrar rannsóknar.
Þar sem við yfirheyrslur yfir skipverjum um aðdraganda slysanna komu fram margvíslegar vísbendingar um skort skipverja á réttum vinnubrögðum og gildi ákvæða laga sem fara átti efir. Leiddi þetta til ábendinga í áliti nefndarinnar um það hvar aðal vandinn lægi varðandi slysatíðnina. Þ.e. vankunnátta skipverja á réttum handtökum við starfann, skortur á skilningi hvað varðar áhrif sjávar og vanþekking á gildandi lögum um störf á skipum og útgerð skipa.
Ábendingar um þessa vankanta komu fram í áliti nefndarinnar sem leiddi til óánægju sjómanna og útgerðarmanna sem töldu sig fullfæra til starfa en voru það ekki. Af hálfu ráðandi afla innan S.Í.K. og L.Í.Ú. og formanns félags vélstjóra H.L. voru þessir aðilar ósáttir við að niðurstaða nefndarinnar væri ekki að um óhappaslys hafi verið að ræða og engar aðrar ábendingar.
Fulltrúar S.Í.K. og L.Í.Ú. auk formanns vélstjórafélagsins H.L. töldu að allt sem var neikvætt við störf Rannsóknarnefndar sjómanna væri framkvæmdastjóra nefndarinnar að kenna og sendu skriflega kæru til Siglingaráðs, sem var faglega ráðgefandi fyrir Samgönguráðherra. Kröfðust þeir þess að framkvæmdastjóri nefndarinnar yrði rekinn og töldu hann ráða öllu í afgreiðslu nefndarinnar á málunum. Gerðu þessir aðilar ítrekaðar tilraunir á fimmtán ára tímabili til þess að fá framkvæmdastjórann rekinn en án árangurs þar sem Rannsóknarnefndin féllst ekki á þeirra málstað við afgreiðslu mála að aðeins væri um að ræða óhappaslys.
Hægt væri að birta afrit kærubréfa frá þessum aðilum og afrit fundargerða Siglingaráðs sem eru undirrituð af fulltrúum þessara aðila en ekki talin ástæða til þess að svo stöddu.
Af hálfu ráðherranna í Samgönguráðuneytinu á þessum árum né formanna Rannsóknarnefndar sjóslysa var ekki tekið mark á kröfum þessara félagasamtaka.
Ummæli allra þeirra þriggja er gegndu formennsku í nefndinn á þessum árum voru þau að L.Í.Ú., S.Í.K. og formaður vélstjórafélagsins stjórnuðu ekki störfum Rannsóknarnefndar sjóslysa. Meðal formannanna var Ragnhildur Hjaltadóttir skrifstofustjóri í Samgönguráðuneytinu.
Árangurinn sem náðst hefur í fækkun slysa á sjó er vegna þeirrar ítarlegu rannsóknar sem fram fór á árunum 1987 til 2000 og afgreiðslu nefndarinnar á töldum orsökum slysanna út frá þeim upplýsingum er fram komu við rannsókn þeirra slysamála er komu til meðferðar hjá nefndinn.
Þrátt fyrir neikvæða afstöðu L.Í.Ú. gagnvart störfum rannsóknarnefndarinnar komu þakkarbréf frá útgerðum á Austfjörðum og Norðurlandi til nefndarinnar þar sem þakkað var sérstaklega fyrir þarfar ábendingar sem birtust í skýrslum nefndarinnar um orsakir slysa er orðið höfðu á skipum þeirra.
Af hálfu aðila Slysavarnaskóla sjómanna voru niðurstöður nefndarinnar notaðar við leiðbeiningar til nemenda skólans og þess vegna hefur svona góður árangur náðst í fækkun slysanna sem rekja má til útgerðar skipa. Má þar sérstaklega geta þess að á síðustu árum hafa fáir minni bátar sokkið en gerðist á árunum 1987 til 2000. Strand skipa er fátítt orðið og brunar í skipum ekki margir.
Orsök slysa á sjó voru undantekningarlaust rakin til vankunnáttu manna á hinum almennu störfum til sjós og gildandi lögum og reglum er vörðuðu störf á sjó þar með talin hleðsla skipa og útgerð skipa.
Reykjavík 7. desember 2023
Kristján S. Guðmundsson
Fv. skipstjóri
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.