Eyðilegging stýrimannaskólans í Reykjavík.

Meðfylgjandi grein sem skrifuð var 1997 en var ekki birt að ósk formanns Rannsóknarnefndar sjóslysa vegna þeirrar ólgu er var innan hagsmunaaðila L.Í.Ú og S.Í.K. gagnvart Rannsóknarnefnd sjóslysa.

Í ljósi þeirrar ólgu er gosið hefur upp í þjóðfélaginu vegna sameiningu skóla er rétt að rifja upp herferð atvinnurekenda gagnvart Sjómannaskólanum í Reykjavík.

Sú niðurlæging sem skólinn hefur orðið fyrir eftir yfirtöku L.Í.Ú og S.Í.K á stjórn skólans og eyðileggingu hans er rétt að rifja upp eyðileggingu skólans. Frásagnir herma að við starfslok hafi skólastjórinn G.Á.E. afhent tugi milljóna króna til þeirra sem tóku við stjórn skólans. Fé sem safnað hafði verið af velunnurum skólans í þeim tilgangi að fegra umhverfi skólans.

Hvað hefur orðið um þetta fé?

Samkvæmt upplýsingum sem fengist hafa er niðurrifsstarfsemin í húsnæði skólans í fullum gangi. M.a. hefur frést að innviðir skólans fái ekki að vera í friði fyrir niðurrifsöflunum. Myndir af nemendum og kennurum sem prýddu ganga skólans ásamt öðrum menjum frá fyrri skólatíð hafa verið fjarlægðar í þeim tilgangi einum að ekkert skuli skilið eftir er minni á blómatíma þessa skólahúsnæðis er tekið var í notkun 1947.

Ósvífnin og lögbrotið sem framið var við byggingu glerkofaturnsins við Höfðatorg er dæmi um valdhroka ráðamanna. Samkvæmt lögum átti að rífa efstu hæðir hússins þar sem það skyggir á innsiglingavitann sem er í turni húss Sjómannaskólans en lítilsvirðing gagnvart lögum og skemmdareðli ráðamanna hefur haft yfirhöndina með ofbeldinu.

Reykjavík 21. júlí 2017

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri

 

Sjómannaskólinn í Reykjavík og hugmyndir um eyðileggingu hans.

Fram eru komnar hugmyndir um að koma menntun sjómanna undir vald atvinnurekenda og leggja niður Sjómannaskólann í Reykjavík. Er sú stefna skiljanleg frá sjónarhorni LÍÚ sem hefur lýst sig þess fýsandi að taka við rekstri skólans. Með hliðsjón af umhyggju á þeim bæ fyrir menntun sjómanna er þetta mikið áhyggjuefni þeirra sem gera sér grein fyrir þörfum sjómanna í þessum efnum.

LÍÚ hefur leynt og ljóst í mörg ár reynt að draga úr öllu er varðar menntun fyrir sjómannastéttina. Hafa forystumenn þeirra lagst gegn öllum tilraunum til að auka menntun til handa sjómönnum. Ef ekki hefði komið til stjórnvaldsaðgerða en LÍÚ valdið látið ráða ferðinni hefði menntun sjómanna verið aflögð eða stórlega skert. Þar á bæ er stefnan "ALLTAF MÁ FÁ ANNAÐ SKIP OG ANNAÐ FÖRUNEYTI".

Það hlýtur að vera allundarleg afstaða stjórnvalda að sjá ekki sóma sinn í að hlúa að og efla menntun sjómanna sem standa undir því velferðaríki sem við búum í. Stærsti hluti þjóðartekna, eyðslufé ríkisins, kemur frá starfi þessara manna en minnstu kostað til af hálfu ríkisins. Tilkostnaður íslenska ríkisins til menntunar íslenskra sjómanna er til skammar í ljósi þess að arður af vinnu þessara manna stendur undir þjóðarskútunni.

Ef íslensk stjórnvöld hefðu sinnt sínu hlutverki og eflt menntun íslenskra sjómanna í stað þess að draga markvisst úr henni á sama tíma og menntun á öðrum sviðum er aukin svo að fjárhagskerfi þjóðarinnar er að sligast undan byrðinni að sögn forystumanna þjóðarinnar, þá hefðu verið færri örkumla Íslendingar í dag.

Það hefur verið ljóst í mörg ár að slysatíðni á íslenskum skipum er óeðlilega há. Það er einnig ljóst að hin háa slysatíðni stafar af skorti á tilsögn (kennslu) í hvernig standa eigi að vinnu og hvað menn eigi að varast. Flestir viðurkenna að starf sjómannsins er eitt hættulegasta starf í nútíma samfélagi. Hvað er gert af hálfu ríkisins til að koma í veg fyrir slys til sjós?

Eftir margra ára baráttu náðist fram að stofnaður var Slysavarnaskóli sjómanna. Sá skóli var settur á laggirnar til að kenna mönnum hvað hægt er að gera til að bæta ástandið eftir að slys hefur orðið, m.ö.o. "Kennsla í eftirmeðferð slysa". Kennsla í að minnka þann skaða sem hugsanlega getur orðið ef ekkert er að gert eftir slys. Hvað hefur verið gert af hálfu ríkisins eða útgerðaraðila til þess að koma í veg fyrir slysin. Það er ekki verið að koma í veg fyrir slysin með því að búa skipin margs konar neyðarbúnaði sem útgerðirnar eru þvingaðar til að láta um borð með stjórnvaldsað- gerðum. Kennsla til handa sjómönnum svo koma megi í veg fyrir að þeir lendi í slysum er nánast engin. Samkvæmt lögum er skipstjórum skylt að sjá um að skipverjar fái tilhlýðilega fræðslu um borð. Er hægt að segja að um slíka fræðslu sé að ræða þegar um 10% sjómanna slasast á hverju ári.

Ef menn vilja hugleiða það hvað koma hefði mátt í veg fyrir margan harmleikinn ef búið hefði verið að íslenskri sjómannastétt eins og henni ber. Þá væru mörg börn í faðmi föður síns sem nú eiga aðeins minningar og mörg eiginkonan með bros á vör í stað tárvotra augna.

Þeir sem fylgst hafa með slysasögu íslenskra sjómanna síðustu áratugi vita að fjöldi íslenskra skipa hafa verið óhaffær í þeim skilningi sem lagt er í haffæri skips í dag. Mörg þessara skipa hafa farist með allri áhöfn. Það er viðurkennt að mörg þessara skipa voru smíðuð áður en íslensk stjórnvöld og löggjafarsamkunda sáu ástæðu til að breyta þá gildandi reglum. Skip þessi voru smíðuð með hliðsjón af þekkingu manna á þeim tíma og fyrir þær veiðar sem þá tíðkuðust. Síðan var þessum skipum breytt til notkunar til veiða með öðrum veiðarfærum. Veiðarfærum sem þau voru ekki hönnuð fyrir. Þetta var ekki hindrað af íslenskum stjórnvöldum og útgerðavaldið sá ekki ástæðu til annars en auka sinn hagnað með því að nota öflugari veiðarfæri án tillits til þess hvort skipið bæri búnaðinn eða ekki. Því er útgerðum ekki treystandi frekar í dag til að annast öryggismál sjómanna.

Því má bæta hér við að samtök útgerðamanna eru að sækjast eftir því að taka að sér eftirlit með skipum fyrir hönd flokkunarfélags og stefna að því að opinbert eftirlit með skipum verði lagt niður. Sér hver sem vill hvert stefnir þá eða beint í "ALLTAF MÁ FÁ ANNAÐ SKIP OG ANNAÐ FÖRUNEYTI, TRYGGINGARNAR BORGA..

Ef skoðuð eru einstök slys er orðið hafa á íslenskum skipum eru orsakir þeirra eins og rauður þráður af mistökum. Mistökum er rekja má til þess að mönnum hefur ekki verið sagt til (kennt) hvernig standa á að vinnu svo eigi hljótist tjón af. Er þar um að ræða mistök frá æðstu stöðum um borð og niður úr.

Sem ábending um í hverju orsakir slysanna felast má benda á eftirfarandi:

* Skipverjar vita ekki hvað hinir ýmsu skipshlutar heita né hlutir veiðarfæra. Hvernig er hægt að koma fyrirmælum rétt til skila ef allir tala ekki sama tungumálið?

* Fyrirmæli um hífingar á vindum eru ýmist hróp og köll eða margskonar bendingar sem misskiljast. Hve oft heyrist eftir slys að bendingar hafi verið misskildar?

* Vanþekking skipstjórnarmanna á tilskipunum stjórnvalda um öryggi á vinnustað. Því miður er svo algengt að ekki sé farið að lögum og reglum sem í gildi eru að ótrúlegt er. Í sumum tilvikum er borið við mannafæð um borð og því ekki hægt að fara að lögum.

* Vanþekking skipstjórnarmanna í að staðsetja skip er oft leiðir til þess að þau stranda. Því er spurt, er nokkur þörf á að vera að kenna þessum mönnum? Ungum mönnum er hleypt í nám í grunnskólum. Nám sem sagt er til þess að þeir öðlist réttindi til skipstjórnar á skipum undir 30 brl. Mörgum ungum manninum hefur orðið hált á þessari kennslu og mega sumir þeirra þakka fyrir að hafa sloppið lifandi.

* Vanþekking margra skipstjórnarmanna á styrk efna og leyfilegu álagi í vinnu. Er oft með ólíkindum hvað mönnum dettur í hug að setja saman s.s. lása, keðjur, króka, víra og tóg án þess að tekið sé tillit til við notkun hvað veikasti hlekkurinn þolir. Oft er það svo að veiðarfæri eru stækkuð í skipum án þess að tekið sé tillit til þess hvort búnaður skipsins þolir það. Dauðaslys hefur hlotist af notkun vindu sem ekki var nógu öflug til að hífa þann þunga sem ætlast var til.

* Skortur á verkstjórn á vinnustað er orsök margra slysa. Afleiðingin er óöguð vinnubrögð sem oft verða handahófskennd á örlagastundu. Þar kemur skýrast fram skortur á tilsögn til handa skipverjum.

Af framansögðu eru það ekki afskipti útgerðaraðila sem koma í veg fyrir slysin. Það verður aldrei gert nema með tilskipun stjórnvalda um fræðslu sem fylgt er eftir og skóla sem ekki er háður duttlungum hagsmunaaðila. Ef einhver dugur er í íslenskum stjórnvöldum þá á að koma upp öflugum skóla sem þjónar þessari starfsgrein þjóðfélagsins. Skóla sem ekki er háður hagsmunaaðilum, þ.e.a.s útgerðaraðilum. Ætti að sameina Sjómannaskólann í Reykjavík og Slysavarnaskóla sjómanna auk þess sem taka á upp öfluga kennslu í þeim margbreytilegu störfum sem fylgja sjómennsku. Kenna mönnum öguð vinnubrögð svo ekki hljótist af slys vegna þess að einhver misskildi bendingu eða skildi ekki fyrirmæli er hann fékk því hann vissi ekki hvað hlutirnir heita. Öguð vinnubrögð er koma í veg fyrir "REDDINGAR" eins og þegar menn grípa til og ætla sér að leysa flækju á veiðarfæri sem er að renna út eða verið að hífa inn. Margar "REDDINGARNAR" hafa kostað limlestingu og ævilanga örkuml.

Þessar skyndi reddingar má koma í veg fyrir með góðri fræðslu í góðum skóla og er brýnasta verkefnið ef hugur fylgir máli að menn vilji fækka slysum.

Hugmyndir eins og fram hafa komið um Heilsustofnun sjómanna, sem á samkvæmt lýsingu boðbera þessarar nýju stefnu að leysa öll vandamál vegna slysa til sjós með nýtísku skráningu af hálfu lækna, er ekkert annað en að skapa á þjálfunarstöð fyrir læknastéttina. Æfingarstöð fyrir lækna sem fá slasaða menn til meðferðar.

Við viljum koma í veg fyrir slysin. Komast hjá því að leita aðstoðar lækna vegna slysa. Við þiggjum með þakklæti aðstoð þeirra vegna sjúkdóma en viljum komast hjá því að leita eftir þeirra aðstoð vegna slysa. Þetta gerum við með því að fækka slysunum og helst að koma í veg fyrir þau.

Þótt öfund ríki í sumum herbúðum vegna glæsilegs skólahúss á skemmtilegum stað þá má slík öfund ekki ráða ferðinni þegar að hagsmunum sjómanna kemur. Þessi bygging á ekki að vera föl þótt í boði væri sjálft húsnæði Háskóla Íslands við Suðurgötu. Það er ekki allt fengið með því að setja "HÁ" fyrir framan skóli. Þetta er eingöngu til aðgreiningar á skólum. Núverandi valdhafar eiga ekki að svívirða minningu þeirra stórhuga manna sem réðust í byggingu Sjómannaskólans. Bjarni Benidiktsson þáverandi borgarstjóri tryggði skólanum landrými þótt það hafi verið skert af þeim sem á eftir komu í valdastól. Má geta þess hér að fjárveitingavaldið sá ekki sóma sinn í að veita fé til viðhalds á Sjómannaskólanum og var hann vart vatnsheldur í marga áratugi. Var það svo á árunum 1954-1970 að í suðlægum slagveðrum rigndi inn á borð skólanema og áttu þeir fullt í fangi með að verja námsbækur sínar.

Ef nokkuð er að marka fögru orðin, sem valdhafar hafa látið út úr sér við hátíðleg tækifæri í sambandi við störf sjómanna, eiga þeir að sjá sóma sinn í að efla menntun sjómanna. Allra sjómanna, undirmanna sem yfirmanna og leggja sitt af mörkum til að fækka slysum til sjós. Fjármunum sem verja þarf til slíkrar fræðslu skila sér í minni kostnaði við heilsugæslu, minni þjáningum slasaðra, færri tárum barna og eiginkvenna sjómanna.

Það ber að hafa í huga að:

FLEST SLYS ER HÆGT AÐ VARAST

SLYS VERÐUR EKKI FYRIR TILVILJANIR

SLYS ORSAKAST AF HÆTTULEGUM AÐSTÆÐUM

OG /EÐA

HÆTTULEGUM AÐGERÐUM.

Ef hægt er að varast slysin ber að gera það.

Hverjir eiga að sjá um að allt sé gert til að varast slysin?

Þeir sem hafa þekkinguna og valdið til að koma í veg fyrir þau.

Því beinist öll athyglin nú að stjórnvöldum að gera það sem gera þarf til að fækka slysum og efla skóla sjómanna en ekki að drag úr þeirri fræðslu sem í boði er. Breyta skólanum í alhliða fræðslustofnun fyrir sjómenn og kennir mönnum að vinna öll þau störf sem vinna þarf um borð. Námið á að byggjast á bóklegri og verklegri kennslu.

Forsvarsmaður LÍÚ lét hafa eftir sér, að atvinnugreinin eigi að standa frammi fyrir ábyrgð á því hvaða námsefni sé kennt í þessum skóla og hvað henti mönnum að nema.

Hví hefur þessi atvinnugrein ekki séð sóma sinn í að fara að lögum og sjá til þess að sjómenn fái þá tilsögn um borð í skipum eins og kveðið er á um í siglingalögum og sjómannalögum svo koma megi í veg fyrir slysin. Það hefur aldrei verið bannað að gera betur en lögin kveða á um. Því hefur útgerðum og forsvarsmönnum þeirra staðið opið í langan tíma að grípa til aðgerða umfram það sem lögin kveða á um svo fækka megi slysum um borð í íslenskum skipum. Ekki hefur borið á því að af hálfu útgerða hafi verið gripið til aðgerða sem ná lengra en lögin kveða á um, frekar hið gagnstæða. Því er spurt: Eru slysin náttúrulögmál sem enginn fær breytt að mati forsvarsmanna útgerða?

Því miður virðist ástæðan vera sú að "ALLTAF MÁ FÁ ANNAÐ SKIP OG ANNAÐ FÖRUNEYTI". Það hefur verið fækkað svo á skipunum að ekki er hægt, að sögn skipstjórnarmanna, að fara eftir lögunum er varða sjómennsku og siglingar.

R.vík október 1997

Kristján Guðmundsson

skipstjóri.


Eru stjórnvöld þjófar (þingmenn og framkvæmdavald)

Stjórnvöld eru frumkvöðlar að lagasetningu á Íslandi og gæta þess vel að lögin séu svo illa orðuð að hægt er að túlka þau eftir eigin geðþótta. Sá sem hefur yfir nægu fjármagni að ráða og hefur stjórnendur sem leppa sína, og þar með alþingismenn, ræður túlkun laganna til eigin hagsbót sem oftast er andstætt yfirlýstum tilgangi með lagasetningunni.

Þetta framferði stjórnvalda kemur skýrt fram varðandi lög um starfsemi Kjararáðs. Kjararáð var sett á laggirnar og átti að létta af þingmönnum og öðrum stjórnendum lands og þjóðar því vandamáli að ákveða hver laun þeirra skyldu vera en mikill ágreiningur hafði verið í mörg ár um eigin ákvarðanir þessara aðila um laun sín.

Til þess að breiða yfir megintilgang lagasetningarinnar um Kjararáð var fjöldi starfsmanna ríkisins settir undir úrskurð þessa ráðs varðandi laun sín. Reynslan hefur orðið sú að umrætt Kjararáð hefur stundað skipulagðan þjófnað á launum sumra ríkisstarfsmanna allt frá árinu 2007 eins og sannanir liggja fyrir um.

 

Þegar leitað er eftir því hjá stjórnvöldum hvað varðar túlkun laga um störf Kjararáðs er svarið frá þeim að þeim sé ekki skylt að svara neinu er varðar túlkun laga. Þetta svar fékkst frá ráðuneyti eftir að erindi var sent þangað, samkvæmt skriflegri ábendingu frá þingmanni um það hvet ætti að leita eftir upplýsingum um túlkun á lögum um Kjararáð. Spurningin var: Hvort af hálfu ráðsins (Kjararáðs) væri heimild til að lækka á skipulegan hátt laun ríkisstarfsmanna sem settir hafa verið undir úrskurðarvald þeirra hvað varðar laun.

Sannanir eru fyrir hendi um skipulagða lækkun launa sumra ríkistarfsmanna frá árinu 2007 og nemur lækkunin milli 30% og 40% í september 2016.

Þrátt fyrir að hvergi finnist stafur í lögunum um heimild ráðsins til lækkunar launa heldur skýr fyrirmæli um að ráðið skuli taka fullt tillit til launaþróunar í landinu við úrskurði sína hunsar Kjararáð að svara fyrirspurnum.

Svívirðingin af hálfu þeirra misyndismanna sem skipaðir hafa verið í þetta ráð kristallast í svörum er borist hafa frá ráðinu. Sem dæmi um framferði af hálfu þessara aðila hafa liðið 33 mánuðir á milli úrskurða ráðsins vegna launa sumra starfsmanna þrátt fyrir umtalsverðar hækkanir launa á markaði ríkisstarfsmanna á tímabilinu.

Framferði ráðsins og ábyrgðamanna á ráðinu, þ.e. þingmanna, kristallast í svörum aðila sem allir vísa frá sér ábyrgð á lögbrotum Kjararáðs. Það er viðurkennt af aðilum, sem leitað hefur verið til um svar við því hvort Kjararáð hafi heimild til skipulegrar lækkunar launa ríkisstarfsmanna að eigin geðþótta, að ekki sé að finna slíka heimild í lögum um störf Kjararáðs.

Þar sem ábyrgðaraðilar að starfsemi Kjararáðs vilja ekki taka ábyrgð á ólöglegu athæfi þeirra er skipa Kjararáð er augljóst að sú launalækkun sem orðið hefur hjá ríkisstarfsmönnum af völdum Kjararáðs er hreinn þjófnaður sem ríkisvaldið ber ábyrgð á. Verður það að teljast undarlegt framferði af aðilum (stjórnvöldum) sem eiga að sjá um að þegnarnir fari að lögum sem í gildi eru að þessir aðilar (stjórnvöld) standi í skipulögðum þjófnaði af starfsmönnum sínum.

Þjófastimpillinn verður viðloðandi stjórnvöld (þingmenn og framkvæmdavald) þar til leiðrétt hefur verið hið ólöglega athæfi (þjófnað af launum ríkisstarfsmanna) af hálfu þeirra er skipa Kjararáð.

Reykjavík 17. júlí 2017

Kristján S. Guðmundsson f

v. skipstjóri


Hrunið og ræningjastarfsemi.

Stöðugt kemur betur og betur í ljós hið sérstaka innræti þeirra er stjórna íslenska ríkinu.

Eftir að milljörðum hafði verið stolið af hinum almennu borgurum á Íslandi við svokallað bankahrun sem var skipulagður innanhúss þjófnaður, en kallað gjaldþrot, kemur sífellt í ljós hvernig stjórnvöld (ríkisstjórn) og Alþingi stunda arðrán af borgurunum.

Hið skipulagða gjaldþrot bankanna sem var ekkert annað en innanbúðar bankarán er nú farið að sýna sitt rétta andlit. Þegar ljóst er orðið að eigur sem hirtar voru af eigendum sínum á Íslandi fyrir hönd bankans hafa þær verið seldar með miklum hagnaði svo skiptir milljörðum íslenskra króna. Þá stendur ekki til að skila því fjármagni til þeirra sem því var stolið af heldur skal greiða útvöldum starfsmönnum hins svokallaða þrotabús, t.d. Landsbankans, umtalsverðum fjárhæðum sem þóknun.

Stjórnvöldum sem eiga að sjá um að skipulagðir þjófnaðir fái ekki þrifist á landinu horfa með velþóknun á þann þjófnað sem er í undirbúningi við útdeilingu á hundruðum milljóna til manna sem hafa verið á fullum ofurlaunum við störf sin í sambandi við hreinsun eftir hið skipulagða gjaldþrot (bankarán).

Það væri nær fyrir stjórnvöld að vakna til lífsins og sjá til þess að þeir fjölmörgu Íslendingar sem fóru illa út úr hinu skipulagða bankaráni Landsbankans, og töpuðu umtalsverðum fjárhæðum, fái hluta af tapinu til baka því þeir eiga þetta fé en ekki starfsmenn þrotabúsins.

Verði þessu fé ekki skilað til þeirra sem töpuðu á bankaráninu verður þar um þjófstolið fé að ræða og þiggjendur verða því þjófsnautar.

Reykjavík 15. júlí 2017

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri


Fjármálaráðherra og skattaundanskot.

Fjármálaráðherra fer mikinn í málefni er varðar svarta starfsemi á landinu og heimfært undir kennitöluflakk og notkun reiðufjár til viðskipta. Telur ráðherrann að undanskot frá skatti skipti milljörðum.

Á sama tíma og ráðherrann telur sig hafa fundið tekjuleið fyrir ríkissjóð stundar þessi ráðherra þá óþokkaiðju að hafa fé af starfsmönnum ríkisins með ólöglegum aðgerðum af hálfu gengis sem kallast Kjararáð og ráðherrann stóð að setningu laga í desember síðastliðnum til staðfestingar á hinum ólöglegu aðgerðum (starfsemi) sem framdar eru af hálfu þessa ráðs.

Samkvæmt ákvæðum í stjórnarskrá landsins skuli allir þegnar landsins vera jafnir fyrir lögunum en þegar kemur að starfsemi hins svokallaða Kjararáðs sem sett var á laggirnar til að fela ákvarðanir um ofurlaun til ráðherra, þingmanna og dómara er annað viðhorf hans.

Það sem er sérstakt við þessa iðju Kjararáðs er að fjármagn til að greiða ofurlaunin til hinna útvöldu (svínanna í sögu Orwells) þá er því fjarmagni stolið af launum starfsmanna ríkisins sem settir voru undir úrskurðavald þessa ráðs og þeir sviftir réttindum sínum til kjarabaráttu sem aðrir launþegar hafa. Frá tilkomu þessa kjararáðs til að ákvarða laun þingmanna o.fl. hafa laun margra starfsmanna ríkisins verið skert um 30 til 40% á árunum 2007-2017. Er þar um hreinan þjófnað að ræða, af hálfu ráðsins, því ráðið skal samkvæmt lögunum um starfsemi ráðsins taka tillit til þróunar launa á vinnumarkaði. Er hvergi stafur í lögunum um heimild ráðsins til þess að lækka laun starfsmanna ríkisins, niður fyrir launaþróun í landinu, sem heyra undir úrskurðarvald ráðsins.

Þeir ríkisstarfsmenn sem hafa verið sviptir launum sínum ólöglega að stórum hluta, með valdboði stjórnvalda mega, þakka fyrir að þeir þurfi ekki að greiða skattana af hinum vangoldnu launum í ljósi hugarfars ráðherrans.

Kjararáð var sett á laggirnar til þess að ekki væri hægt að álasa aðilum (þingmönnum o.fl.) fyrir það að skammta sér sjálfir launin og tekið yrði tillit til þróunar í launamálum á almennum launamarkaði við ákvörðun launa til þeirra sem felldir voru undir ráðið. Samkvæmt ummælum þingmanns var aldrei meiningin að ráðið stæði fyrir lækkun á launum þeirra sem undir ráðið falla en það ætti að fylgja launaþróun í úrskurðum sínum.

Framferði Kjararáðs í því að lækka laun sumra starfsmanna ríkisins verður því að teljast hreinn þjófnaður af hálfu ráðsins. Það er eins með afgreiðslu laga um þetta ráð og fleiri lagasetningar að aðilar löggjafasamkomunnar virðast ekki vita hvað þeir eru að gera. Aðalatriði í störfum stjórnarþingmanna er að greiða atkvæði með því sem kemur frá ríkisstjórninni og skiptir þá ekki máli orðalag laganna né tilgangur með lögunum.

Reykjavík 11. júlí 2017

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri


SPORTVEIÐI OG MANNGÆSKA

Yfir sumartímann er mikið rætt um laxveiði og þá ánægju sem það veitir mönnum.

Í sambandi við þetta sport er einnig rætt um slæmt athæfi sem kalla má misþyrmingu dýra.

Margur veiðimaðurinn mun verða vondur yfir þessari yfirlýsingu um þetta sport en sá eða sú hefur ekki hugleitt allar hliðar málsins.

Veiðar hafa fylgt mannskepnunni frá örófi alda þegar lífsafkoma mannsins byggðist á veiðum. Í dag virðist veiðimennska snúast um sýndarmennsku mannskepnunnar. Veiðar snúast ekki um það að afla sjálfum sér og sínum fæðu. Veiðimennska er í dag leikaraskapur og sýndarmennska því það er talinn upphefð í því að geta veitt hvort sem það er með byssu eða krókaveiðarfæri stangveiðimanna. Menn hæla sér af því hve mörg dýr þeir hafi veitt hvort sem það eru rjúpur eða laxar o.fl.

Það sem er orðið sérkennilegt og ómannúðlegt við veiðar er hjá þeim sem stunda laxveiðar í þeim eina tilgangi að lífga upp á egóið með því að veiða lax með krókaveiðarfæri eingöngu með þá fyrirætlun að sleppa laxinum eftir að hann er komin á land. Þessir aðilar gera sér ekki grein fyrir því að slík framkoma við lífveru er mannvonska og níðingsskapur. þessir aðilar gera sér enga grein fyrir því að laxinn hefur tilfinningar engu síðri en mannskepnan sem er að veiða fiskinn.

Þessir mannvonsku veiðimenn gera sér ekki grein fyrir því hvað gerist í munnholi fisksins við átökin sem verða frá því að fiskurinn gleypir agnið þar til hann er kominn á land og ómannúðlegu aðferðina við að slíta öngulinn úr munni fisksins.

Til er fyrirbæri í íslensku samfélagi sem kallað er dýraverndarsamtök sem láta stundum í sér heyra en hafa ekki séð sóma sinn í að hafa afskipti af þessari útgáfu af manngæsku. Sennilegt er að dýravernd nái aðeins til þeirra skepna sem talin eru hafa heitt blóð. Aðrar lifandi verur séu fyrir utan starfssvið þeirra.

Samkvæmt fregnum um laxveiði þá fylgja kvaðir veiðileyfum í sumum ám um að löxum yfir ákveðinni stærð skuli sleppa strax og þeir eru komnir á land. Þar með er sökin um mannvonsku hjá seljendum veiðileyfa.

Sennilegt er að þessir sleppiveiðimenn hafi ekki gert sér grein fyrir þeim sársauka sem þeir valda fiskinum frá því fiskurinn gleypir agnið þar til honum er sleppt auk framtíðar skaða í munnholi fisksins. Þetta væri verðugt umhugsunarefni fyrir þessa EGO – veiðimenn.

Reykjavík 9. júlí 2017

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband