Óheiðarleiki í íslensku samfélagi.

Sífellt berast fréttir um óheiðarleika í hinu íslenska samfélagi og er þar víða komið við. Má þar nefna bankahneyksli, mistök við lagasetningu þar sem ætlunin var önnur en túlkun laganna varð, þýðingarvillur, framkomu ráðamanna við þegna samfélagsins o.fl.

Svo langt hefur þetta gengið að skipaðar eru nefndir hver á fætur annarri til að annast rannsóknir á meintum misgjörðum, lögbrotum og öðru. Hefur Alþingi gengið fram í að láta rannsaka margt misjafnt í þjóðfélaginu. En ein aðal meinsemdin í íslensku samfélagi, sem heyrir beint undir Alþingi (Dómskerfið) þar fæst ekki fram nein rannsókn.

Þessi aðal meinsemd í íslensku samfélagi er réttarkerfið og Alþingi. Spilling og lögbrot sem framin eru af þeim er skipa æðri stöður samfélagsins fæst ekki rannsakað því það má ekki kasta rýrð á orðspor þeirra og vísast þar til svínanna í frægri sögu Orwells. Svínin í æðri stöðum íslenskra stjórnsýslu eru jafnari en aðrir þegnar samfélagsins.

Þáttur Alþingis í rannsóknum mála hefur þann eina tilgang að reyna að breiða yfir lögbrot sem framin eru af þeim sem skipa æðri stöður stjórnsýslunnar, Alþingi og dómskerfinu.

Alþingi sem hefur það aðalmarkmið að annast lagasetningu og eftirlit með stjórnsýslunni og réttarkerfinu sinnir ekki skyldum sínum eins og fram hefur komið á liðnum árum.

Sem dæmi um brot á skyldum Alþingis er setning laga sem eiga að annast (stjórna) samskipti þegnana innbyrðis. Samþykkt eru lög um eitt og annað sem framkvæmda aðilum er ætlað að framkvæma en vegna skynsemisskorts þingmanna sem ekki tryggja fjármagn til þess að hægt sé að framkvæma það sem lagasetningin felur í sér er minna um framkvæmdir en skylt er að gera samkvæmt lögunum.

Þar má fyrst nefna starfsemi lögreglunnar sem hefur búið við fjárskort, að því er fregnir herma og því ekki hægt að ljúka við verkefni sem skylt er að gera og vísast þar til meints seinagangs við rannsókn máls barnaníðings sem slapp við refsingu vegna meints fjárskorts auk máls þar sem hundruðum milljóna var stolið. En vegna fjárskorts lögreglunnar var ekki hægt að sinna málunum nógu hratt svo að refsingar döguðu uppi í sölum dómskerfisins.

Starfsemi Alþingis virðist vera, þegar grannt er skoðað, eintóm sýndarmennska. Sýndarmennska fólks sem ekki hefur vit á því sem það er að gera en starfsemin virðist blekkingaleikur við atkvæðaveiðar. Umræður í sal Alþingis miðast við atkvæðaveiðar en ekki störf í þágu lands og þjóðar og samþykktir þingmanna hverju nafni sem þær nefnast s.s. lög, þingsályktanir eða annað miðast að því að sýnast fyrir kjósendum.

Sýndarsamþykktir laga um hvers konar aðgerðir í þjóðfélaginu, sem ekki fylgir fjármagn til að framkvæma það sem Alþingi ákveður, er ekkert annað en sýndarmennska við atkvæðaveiðar.

Aðal meinsemd vegna lögbrota í íslensku samfélagi eru lögbrot sem framin eru af dómurum sem virðast vera friðhelgir, m.ö.o. löglegir lögbrjótar. Athuga þarf sérstaklega að lögbrot framin af dómurum eru fyrirmyndir fyrir aðra sem telja að þeir hafi sama rétt til lögbrota og dómarar.

Þrátt fyrir að fyrir liggi skriflegar sannanir fyrir þjófnaði og öðrum lögbrotum í störfum framin af dómurum fást málin ekki rannsökuð vegna þess að lögbrotin eru framkvæmd af löglegum lögbrjótum að mati Alþingis.

Mál er snerta hin löglegu lögbrot dómara (að mati Alþingis) fást ekki endurupptekin þrátt fyrir sannanir um lögbrot af hálfu dómaranna sem er einkenni á svokallaðri Endurupptökunefnd sem hafnar endurupptöku mála nema hægt sé að kenna einhverjum öðrum en dómurum um ranga málsmeðferð.

Þessi meðferð sakamála í höndum ráðamanna þjóðarinnar er arfleifð frá fyrri tímum þegar saknæmt var að gagnrýna störf ráðamanna og lá dauðarefsing við gagnrýni í mörgu tilvikum.

Þessir siðblindu ráðamenn þjóðarinnar eins og dómarar, alþingismenn o.fl. verða sakfelldir seinna meir eins og hefur komið fram hjá þeim sem stjórna núna við að rannsaka meint misferli í samfélaginu 20 – 50 ár aftur í tímann. Lögleg lögbrot að mati þeirra er stjórna nú á dögum og þeirra sem hafa stjórnað síðustu 15 - 20 árin verða ekki samþykkt sem lögleg lögbrot í framtíðinni.

Það er stefna nútíma löglegra lögbrjóta að þeir sem orðið hafa fyrir valdníðslunni (lögbrotunum), af hálfu dómara og annarra stjórnenda, fái ekki uppreisn æru eftir löglausan níðingsskap af hálfu ráðamanna þjóðarinnar.

Þetta framferði stjórnenda landsins (Alþingis og réttarkerfisins) sýnir það að gildandi lög eru ekki grundvöllur framferðis þeirra heldur græðgin og valdhroki sem ræður ríkjum hjá auðvirðulegum persónum. Persónum sem hafa það á stefnuskrá sinni að níðast á samborgurum sínum vegna eigin græðgi í auð og völd.

Það er háðung að kalla íslenska ríkið réttarríki á meðan valdníðsla siðblindra ráðamanna, sem eru löglegir lögbrjótar, að eigin mati, eru við völd. Þess ber að geta sérstaklega að völd dómara í sérhverju réttarríki eru mikil en aðeins ef þeir fara að gildandi lögum í landinu. Fari dómarar út fyrir lagabókstafinn í starfi sínu eru þeir ofbeldismenn og verstu lögbrjótar sérhvers samfélags manna.

Reykjavík 20. apríl 2017

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband