Færsluflokkur: Bloggar

Vatnsþéttileiki skipa

Í DESEMBER 2006 kom út á vegum Siglingastofnunar Íslands merkilegt rit er varðar öryggismál íslenskra skipa.

Rit þetta heitir "Vatnsþéttleiki skipa" og er eftir skipaverkfræðingana Agnar Erlingsson og Jón Bernódusson.

Höfundum þessa rits var falið að gera úttekt á ákveðnum þáttum er varða öryggi íslenskra skipa. Er um að ræða atriði er talin eru hafa valdið því að fjöldi íslenskra skipa hefur sokkið á síðustu 40 árum og sennilega um lengri tíma.

Þær upplýsingar sem fram koma í umræddu riti sýna að ekki hefur verið hugað að öryggi skipverja þrátt fyrir ábendingar þar um, því ekki hefur verið vilji til að bæta úr eða sjálfstæði landsins er ekki meira en svo að Íslendingar þurfa að hlíta ákvörðunum herraþjóðanna í Vestur-Evrópu eins og fram kemur í skýrslu verkfræðinganna.

Það verður að teljast allharkalega að farið af hálfu opinberra aðila, er tekið hafa sér það vald að setja reglur um öryggisbúnað skipa, að hafa hunsað ábendingar um það sem betur mátti fara. Væri það verðugt rannsóknarverkefni að taka saman hve margir íslenskir sjómenn hafa farist á umliðnum áratugum vegna sinnuleysis ráðamanna þjóðarinnar í málefnum er varða öryggi á sjó.

Í skýrslunni kemur fram að svokölluð vatnsþétt skilrúm hafi ekki verið vatnsþétt í skipum vegna þess að því var ekki fylgt eftir af eftirlitsaðilum. Af því að skilrúm voru ekki þétt megi álykta að það hafi ráðið úrslitum um að skip hélst ekki á floti eftir áfall.

Fram kemur í skýrslunni að umtalsverður munur sé á reglum sem farið er eftir hjá hinum ýmsu flokkunarfélögum og snýr að smíðum og eftirliti með skipum. Er þar komið fram það sem mikið hefur verið rætt til margra ára um, hvernig eftirlit flokkunarfélaga hefur verið og að útgerðir hafi hótað fulltrúum flokkunarfélöga að flytja skráningu skipsins til annars flokkunarfélags ef kröfur um lagfæringar voru íþyngjandi fyrir útgerðina.

Eitt af því sem er athyglisvert við skýrslu verkfræðinganna er nafngift á hinum ýmsu skipshlutum. Er þar mest áberandi að heiti þilfara virðist vefjast fyrir þeim mönnum sem koma að hönnun skipa og samningu á lögum og reglum er varða útgerð skipa. Hefur orðið slíkur nafnaruglingur á heitum hluta á síðustu áratugum sem rekja má til hina fjölmörgu menntuðu manna sem koma með erlend heiti á skipshlutum og reyna að þýða þau en hafa ekki fyrir því að kynna sér hvað hlutirnir heita hjá þeim sem þurfa að nota nöfnin.

Ef vitnað er í skýrsluna kemur fram að heiti þilfara um borð í flutningaskipum sé í föstum skorðum en þegar kemur að fiskiskipum sé nafngiftin slíkur frumskógur að menn vita stundum ekki hvað er verið að fjalla um. Þessi nafnaruglingur er tilkominn frá hinum menntuðu fræðimönnum en ekki sjómönnum. Það var gerður skýr greinarmunur við kennslu í stýrimannaskólanum í Reykjavík, hvað væri aðalþilfar, milliþilfar og efri þilför. Nú með tilkomu þýðingartilrauna fræðimanna er þetta orðið hreinasta bull eins og kemur fram í skýrslunni.

Það sem vekur furðu undirritaðs er það að í skýrslunni er strax eftir formálann kafli á ensku sem er samantekt í stuttu máli á niðurstöðum rannsókna verkfræðinganna á verkefninu. Sambærilega samantekt er ekki að finna á íslensku í ritverkinu og verður að teljast allundarlegt nema þetta sé liður í því að leggja Íslensku niður og taka upp erlent tungumál á landinu.

Skýrslan í heild sinni er staðfesting á því sem haldið hefur verið fram í áratugi og varðar öryggi sjófarenda en ekkert hefur verið aðhafst af hálfu stjórnvalda. Vonandi verður þessi skýrsla sem kemur frá mjög færum fagmönnum til þess að vekja upp nátttröll löggjafans til að gera lagfæringar á ófullnægjandi reglum er varða öryggi sæfarenda og þau hafi manndóm í sér til að hunsa regluveldið Evrópu sem talið er hafa verið dragbítur í sumum tilvikum á úrbótum í öryggismálum sjómanna

Í skýrslunni eru mörg atriði sem ástæða væri til að gera að umræðuefni í blaðagrein en látum þetta vera nóg að sinni.

Agnar Erlingsson og Jón Bernódusson eiga þakkir skilið fyrir greinargóða skýrslu.

Höfundur er fv. skipstjóri.


Hagstjórnarmistök

Á LANDSFUNDI Sjálfstæðisflokksins í apríl 2007 var eitt af aðaláhyggjumálum formanns flokksins gagnrýni frá pólitískum andstæðingum. Í ræðu formannsins eyddi hann drjúgum tíma í að telja upp það sem talið er hafa farið vel í stjórnaraðgerðum síðustu ára og ekki væri hægt að útleggja sem hagstjórnarmistök.

Hafði formaðurinn mörg orð um kaupmáttaraukningu og bætta skuldastöðu ríkissjóðs o.fl. Háttvirtur formaður minntist einnig á að stefnt væri að því að ellilífeyrisþegar mættu vinna sér inn aukaskilding án skerðingar á greiðslum frá Tryggingastofnuninni.

Í ræðu formannsins var ekki minnst á að stjórn hans og fyrri stjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hafa blóðmjólkað stóran hluta af eldra fólki á síðustu 15 árum. Á þessu tímabili hefur með margs konar skerðingarákvæðum, sem falin eru í lögum um almannatryggingar, verið þrengt að eldra fólki með skerðingum á lífeyri. Auk þess hafa þessir flokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, brotið stjórnarskrána með þjóðnýtingu á fyrsta lífeyrissjóði allra landsmanna sem stofnaður var árið 1946. Þjóðnýting er óheimil samkvæmt stjórnarskrá nema fullar bætur komi fyrir.

Svo snyrtileg var þessi þjóðnýting að hún kemur aðeins til með að nýtast valdamönnum þjóðfélagsins, þ.e. ráðherrum, þingmönnum og æðstu embættismönnum þjóðarinnar.

Þessir hópar þjóðfélagsþegna (æðstu embættismenn) hafa tryggt sér ofurlaun og ofureftirlaun og þurfa því ekki að leita sér að aukatekjum til að eiga fyrir eðlilegri framfærslu í nútímaþjóðfélagi. Þessir menn tryggðu með ákvæði í lögum nr. 117/1993 að greiðslur úr lífeyrissjóðum skerða ekki greiðslur á grunnlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins, Ölmusustofnuninni. Flestir landsmenn fá mjög litlar greiðslur frá lífeyrissjóðum.

Allar tekjur aðrar en greiðslur frá lífeyrissjóðum koma til skerðingar á grunnlífeyrisgreiðslum og öðrum greiðslum frá ölmusustofnuninni. Þessir menn (æðstu embættismenn) með eftirlaun frá 700.000 kr. til u.þ.b. 2.000.000 kr. á mánuði fá greiddan grunnlífeyri umyrðalaust frá TR.

Á þessum tíma sem þeir hafa setið að völdum hafa þeir skattlagt þjóðina árlega um framlag í framkvæmdasjóð aldraðra. Þetta fé hafa stjórnmálamenn notað í annað en skattlagningin gerði ráð fyrir. Þar hefur verið á ferðinni sóun fjármagns til þess að kaupa sér vinsældir og atkvæði í framtíðinni. Lýsir þetta framferði stjórnmálamanna og hversu rotin starfsemi fer fram í Þjóðarleikhúsinu við Austurvöll.

Varla hefur það farið fram hjá þegnum þessa þjóðfélags hvernig pólitíkusar misnota aðstöðu sína sjálfum sér til framdráttar.

Undanfarin ár hefur orðið mikil breyting á útsendingum ljósvakafjölmiðla. Er þetta komið í svipað horf og gerist í Ameríku þar sem dagskrárþættir eru rofnir í tíma og ótíma til að koma að auglýsingum flestum landsmönnum til mikils ama.

Þessi breyting náði fram að ganga í gegnum Alþingi með lagasetningu án þess að getið væri um þetta í fjölmiðlum. Ástæða þessara breytinga var lagasetningin sem mútugreiðslur til fjölmiðlanna gegn því að þingmenn fengju meiri og betri umfjöllun á öldum ljósvakans.

Ekki hefur verið amast við auglýsingum í sjónvarpi frá stofnun þess á meðan auglýsingar voru á milli atriða eða þátta en sú ósvífni að rjúfa fréttatíma og aðra dagskrárliði til að þjóna auðvaldinu er yfirlýsing stjórnmálamanna um að þeir eru falir fyrir peninga.

Í framhaldi af mútugreiðslum þingmanna til fjölmiðla með rýmkun á auglýsingaflæðinu yfir landsmenn samþykktu þeir að múta sjálfum sér með greiðslu úr ríkissjóði til að hindra aðra þegna þjóðfélagsins í að sækjast eftir stólunum sem þeir telja sig eiga. Var það gert með lögum sem takmarka greiðslur einstaklinga og fyrirtækja í kosningasjóði nýrra frambjóðenda og stórauknum greiðslum úr ríkissjóði til starfandi stjórnmálaflokka.

Má líkja þessum aðgerðum þingmanna við mútugreiðslur á bæði borð, sem framferði auðmanna á miðöldum er byggðu rammgerða kastala til að verja óðal sitt. Ekki voru kastalar byggðir til að verja almúgann því eigur þeirra voru utan múranna þótt þeir væru skikkaðir til að berjast.

Forsætisráðherra getur hælt sér af góðri skuldastöðu ríkissjóðs eftir að hafa féflett hinn almenna borgara sem ekki hefur komist að kjötkatlinum sem forsætisráðherrann étur úr.

Auðheyrt var á ráðherranum við flutning ræðunnar að honum var ekki rótt þegar hann lofaði að láta falla af gnægtaborði sínu nokkra brauðmola til handa eldri borgurum í von um að hann lifi af þessar kosningar í ráðherrastólnum og ef til vill eitthvað lengur. Þetta var stórmennska ráðherrans, að bjóða með fölsku kosningaloforði að ellilífeyrisþegum verði heimilt að vinna eftir 70 ára aldur án skerðinga á greiðslum eftirlauna frá Ölmusustofnuninni. Eftirlauna sem launþegar hafa þegar greitt fyrir með greiðslu almannatryggingagjalds í áratugi samkvæmt lögum frá 1946.

Höfundur er fyrrv. skipstjóri.


Réttlæti, ranglæti

MIKIÐ fjölmiðlafár varð fyrir stuttu vegna meints misréttis er börn eiga að hafa orðið fyrir á vistunarheimilum á vegum hins opinbera.

Það misrétti sem getið er um í sambandi við vistunarheimilin er smámunir í sambandi við misbeitingu valds alþingismanna á fórnarlömbum seinni heimsstyrjaldar, 1939–1945.

Á styrjaldarárunum gerðust válegir atburðir þar sem fjöldi manna lét lífið án þess að hafa unnið til saka. Þar á meðal voru fjöldi íslenskra sjómanna sem létust er skip sukku, er þeir voru skipverjar á eða farþegar.

Á fyrstu tveimur árum styrjaldar fórust margir sjómenn og í sárabætur fengu eftirlifandi aðstandendur greiddar bætur (skaðabætur) sem voru vart meira virði en þegar plástur án annarra umbúða er settur á svöðusár. Bætur þessar voru þó það að hjálp var að þeim í fyrstu eftir áfallið.

Svo bar við að ein ung kona sem missti manninn sinn fékk greiddar skaðabæturnar. Þar sem hún var barnlaus og í góðri vinnu taldi hún sig hafa heimild til að ráðstafa þeim fjármunum er hún fékk í bætur án þess að spyrja alþingismenn um leyfi. Keypti hún sér pels og skartaði honum, glæsileg ung kona.

Þetta spurðist út og barst til eyrna alþingismanna sem brugðust ókvæða við bruðli konunnar.

Á þessum tíma; 1941, var tryggingafélag á Íslandi, sem hafði tryggt sum af þeim skipum sem fórust, á heljarþröminni og var komið í greiðsluþrot.

Brugðust þessir guðir eða landsfeður (alþingismenn) illa við allir nema einn, Guðmundur Í. Guðmundsson alþingismaður. Samþykktu alþingismenn að bætur til handa eftirlifendum þeirra er fórust með íslenskum skipum yrðu frystar í ákveðinn árafjölda til þess að bjarga tryggingafélaginu frá gjaldþroti. Var þessi ákvörðun Alþingis um að fresta greiðslum til bjargar tryggingafélaginu skýlaust brot á stjórnarskránni sem var í gildi þá en landið hafði ekki verið slitið að fullu frá Danaveldi.

Þessir 41 af landsfeðrunum voru ekki að hugsa um velferð þeirra sem eftir lifðu (konum og börnum). Þeirra hugsun náði aðeins til þess að bjarga tryggingafélaginu þar sem margir þeirra voru hluthafar.

Afleiðingar þessara gerræðislegu aðgerða af hálfu alþingismanna, þrátt fyrir kröftug mótmæli fulltrúa stéttarfélaga sjómanna og eins þingmanns, voru alvarlegar. Ekki eru upplýsingar fyrir hendi um það að alþingismenn hafi hugað að afleiðingum gerða sinna svo sem hvað varðar uppflosnuð heimili og tap eigna hjá þeim er urðu fyrir áfallinu.

Mörg heimili börðust í bökkum eftir áfall við að missa fyrirvinnuna. Sum heimili flosnuðu upp og börnum komið fyrir og margir gátu ekki haldið í eigur sínar sem voru skuldsettar. Afleiðingarnar voru því miklar og varanlegar fyrir margar fjölskyldur.

Reisn þessara höfðingja náði ekki lengra en að eigin hag. Þeir vörðu eigin eigur á kostnað þeirra sem minna máttu sín.

Vegna verðfalls á peningum frá því að greiða átti skaðabæturnar út og þar til greitt var sjö til átta árum seinna var mikið. Sem dæmi um bætur sem greiddar voru út árið 1949 má geta þess að barn sem missti föður sinn 1941 fékk árið 1949 greiddar rétt rúmar átta hundruð krónur sem bætur. Voru það sem svarar áttunda part af því sem viðkomandi unglingur þénaði fyrir rúmlega tveggja mánaða vinnu á árinu 1949.

Aðeins einn af 42 þingmönnum mótmælti þessari geræðislegu ákvörðun og afskiptasemi þingmanna af velferð annarra þegar eiginhagsmunir þingmanna vógu þyngra en réttur þeirra sem áttu um sárt að binda.

Ámóta eiginhagsmunagæsla átti sér stað þegar þingmenn Þjóðarleikhússins (Alþingis) 63 að tölu samþykktu að svipta stóran hluta þegna íslensks samfélags rétti sínum til grunnlífeyris en tryggðu sjálfum sér rétt til að fá greiddan grunnlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins með ákvæði í lögum um að greiðslur úr lífeyrissjóðum skerði ekki greiðslur grunnlífeyris en allar aðrar tekjur skerða þennan rétt.

Fáfræði og heimska þessara leikara er ótakmörkuð því með þessu voru þeir að stela af þegnunum lögbundnum lífeyri sem greitt hafði verið iðgjald til í áratugi. Framferði leikaranna sýnir svo að ekki verði um villst að eiginhagsmunir þessara manna ganga framar hagsmunum þjóðarinnar.

Allar lagabreytingar sem snúa að skerðingu á kjörum ráðamanna þjóðarinnar er talið brot á stjórnarskránni en snúi skerðingin að hinum almennu þegnum þjóðfélagsins er það bara lagasetning. Hinir hámenntuðu lagaspekingar (að eigin mati) sem fengnir eru til að gefa álit sitt á hinum ýmsu lagasetningum og njóta góðs af framferði þingmanna þegja þunnu hljóði þegar um er að ræða ákvæði er ekki snerta þeirra hagsmuni.

Væri verðugt verkefni fyrir Íslendinga að krefjast skipunar nefndar til að rannsaka lögbrotið frá 1941–1942 og lögbrotið frá 1993 og sjá hvernig eiginhagsmunir þingmanna ráða gjörðum þeirra á þingi en ekki þjóðarhagur sem þeir eru kjörnir til að sinna.

Höfundur er fyrrv. skipstjóri.


Skrípaleikur skoðanakannana - Dulbúið atvinnuleysi

Um miðja síðustu öld var talsvert um atvinnuleysi og þá stofnað til vinnuframkvæmda af hálfu opinberra aðila sem annars ekki hefði verið sinnt.
Nútíma atvinnuleysi felst í því að mennta fólk í félagsvísindum og skaffa því óarðbæra vinnu. Vinnu sem er leikaraskapur og einskis virði fyrir samfélagið.
Vinna þessi kallast skoðanakannanir. Í þennan leikaraskap velst fólk sem lokið hefur háskólaprófófi í fræðigreinum sem nýtast illa til verðmætasköpunar.
Er þetta fólk sem tekur að sér það sem kallast skoðanakannanir í hlutverkum skottulækna og töframanna fyrri alda. Fólk sem lék sér að fáfróðum almúganum með alls konar leikaraskap og bellibrögðum til þess að sýnast.
Skoðanakannanir á Íslandi felast í því að hringja í nokkur hundruð manneskjur og spyrja vafasamra spurninga og svör fólksins túlkuð eftir skoðunum spyrjenda. Ekki er tekið tillit til þess við útreikninga á niðurstöðum að óheimilt er að hafa símasamband við stóran hluta þjóðarinnar sem vill ekki láta ónaða sig með bulli í ruglukollum. Markleysi skoðanakannana er augljóst eins og niðurstöður kosninga undanfarna áratugi hafa sýnt. Að skjóta sér á bak við það sem spekingarnir kalla skekkjumörk sýnir bullið í þessu. Þessi vísindagrein er inan skekkjumarka og þess vegna er ekkert að marka niðurstöðurnar. Niðurstöðurnar eru eitthvað um það bil og bilið er það breitt að það er ómark.
Skoðanakannanir eru orðnar hjá sumu fólki eins og eiturlyfjaneysla og spilafíkn því það trekkist upp eins og gömlu plötuspilararnir sem voru trekktir upp með handafli. Þessir skoðanakönnunarfíklar eru engu minni sjúkjlingar en eiturlyfjaneytendur og spilafíklar.
Það að hafa gaman af að spila á trúgirni fólks eins og fræðingarnir sem stunda þessi falsvísindi, sem skoðanakannanir eru, eru arftakar hinna fornu seiðkarla sem höfðu gaman af að ná ákveðnu valdi yfir fólki með bullinu í sér.
Hvaðan fjármagn kemur til að stunda þessi falsvísindi hefur ekki verið upplýst og því síður hvaða kostnaður liggur í þessu. Þeir sem greiða fyrir þessi falsvísindi eru engu betur settir en þeir sem færðu loddurum, seiðkerlingum og töframönnum umbun fyrir leiksýningar þeirra.
Sú atvinnustarfsemi sem falin er í skoðanakönnunum er dulbúið atvinnuleysi menntaðs fólks sem ekki vill vinna arðbær stör. Störf sem skapa verðmæti fyrir þjóðarbúið en er ekki afæta í íslensku samfélagi eins og skoðanakannanir eru.
Þeir sem hlusta á fréttir af þessu spádómsrugli sem felst í skoðanakönnunum sveiflast til vegna geðhrifa eins og spilafíkill sem æsist upp við smá tekjur af sinni spilamennsku en fellur í þunglyndi við að hljóta engan ábata í lengri tíma.
Rætt hefur verið um það manna á milli að það ætti að banna skoðanakannanir. Slíkt bann yrði álíka erfitt í framkvæmd og bann við fjárhættuspili og fíkniefnasölu.
Það er broslegt að horfa á og hlusta á viðbrögð flokksforingja stjórnmálaflokkanna við nýjum tölum sem sagðar eru komnar úr skoðanakönnunum. Oft virðast þessir aðilar vera að höndla hinn heilaga sannleika þegar fréttaþulur leitar álits á síðustu tölum sem sagðar eru komnar frá þessum falsvísindum. Minna viðbrögð flokksforingjanna á gamalt máltæki; Litlu verður vöggur feginn.

Kristján Guðmundsson
F.v. skipstjóri.

Höfundur er f.v. skipstjóri.


Skólayfirvöld og forsjárhyggja

ALLUNDARLEG forsjárhyggja er risin upp í framhaldsskólum. Eru stjórnendur skólanna komnir í stöðu þrælapískara gagnvart nemendum þegar þeir hóta þeim (nemendum) falli mæti þeir ekki í skólann og að ekki gagni að tilkynna sig veikan. Dæmi er um slíkan ótta á meðal nemenda að þeir mæta frekar sjúkir í skólann heldur en að hlýða foreldrum sínum og vera heima og losa sig við þau veikindi sem hrjá viðkomandi. Ungur drengur sem var veikur sagðist frekar mæta í skólann og sitja á klósettinu í skólanum heldur en að láta skrá skróp hjá sér. Lýsir þetta ofríkis-stjórnun í framhaldsskólum ef ástandið er orðið í þessa veru. Aðspurður sagði kennari að þetta hefði verið tekið upp vegna þess að sumir nemendur væru oft fjarverandi einn og einn dag. Er þessi framkoma skólameistaranna, því ekki eru þeir skólastjórar nú á dögum, í anda forræðishyggju fasisma á síðustu öld. Það að refsa fjöldanum fyrir syndir sárafárra er lýsing á hugarfóstri einræðisherra fyrri alda.

Forystumenn skólastofnana eiga að vera til fyrirmyndar og bjóða upp á fræðslu sem er áhugaverð og laðar nemendur að en ekki stunda ítroðslu á efni sem fáir hafa áhuga á. Ef námsefnið er skemmtilegt og áhugavert fyrir unglinga mæta þeir í tíma en ef kennsluefnið er þurrt og rotnunarfýla af því er öruggt að sumir kjósa að vera víðsfjarri.

Rétt þykir að spyrja háttvirta skólameistara að því hvað ábyrgð þeirra nær langt. Eru skólameistarar ábyrgir ef nemandi hlýtur skaða af því að mæta sjúkur í skólann eingöngu vegna fasískra hótana af hálfu skólastjórnenda? Á það skal bent að margur hefur farið illa út úr því að fara of snemma út úr húsi eftir veikindi og hlýða ekki ráðum læknis.

Það sem vekur furðu er að ekki er um skólaskyldu að ræða heldur frjálst val nemenda um nám. Þeir nemendur sem vilja læra mæta í skólann. Sumir nemendur eru það skarpgreindir að þeir þurfa ekki að mæta í alla tíma. Þar af leiðandi er það allundarleg framkoma stjórnenda skólanna að refsa nemendum sem ekki skila 100% mætingu. Refsa þeim með því að fella þá þótt nemandinn hafi að öðru leyti staðið sig vel í skólanum og staðist öll próf með sóma. Á það skal bent að margur nemandinn hefur lokið prófi utan skóla, stúdentsprófi, svo og öðrum lokaprófum. Er það allundarleg kennsla að einkunn fyrir mætingu geti ráðið úrslitum um það hvort nemandi nær lágmarkseinkunn til að standast burtfararpróf. Nemandi getur bætt sér upp slaka kunnáttu með 100% mætingu.

Hvert stefnir þessi forsjárhyggja? Er það verðugt verkefni fyrir fræðarana að læra það, að ekki eru allir menn og konur jafnþroskuð á sama aldri. Sumir ná góðum þroska um tíma en staðna síðan á meðan aðrir þroskast hægar en fara síðan fram úr þeim sem þroskuðust hratt í stuttan tíma en stöðnuðu. Er því að ástæðulausu verið að beita þvingunaraðgerðum sem ekki eiga neinn rétt á sér, þvingunaraðgerðum sem miða að því að steypa alla í sama mót einræðisstjórnar.

Mætingarskyldu í framhaldsskólum á að leggja af frekar en að beita slíkri forræðishyggju og refsingum að nemendur sem hafa áhuga á að læra þora ekki að vinna úr sínum veikindum af ótta við refsingar og fall í skólanum. Þess ber að geta að umræddur unglingur sem vildi heldur mæta í skólanum en láta skrá skróp hjá sér varð fyrir því að slá niður sem kallað er. Þegar fenginn var læknir til að vitja sjúklingsins sagði hann eftir skoðun að sjúklingurinn mætti ekki fara út fyrr en hann hefði jafnað sig á þessu bakslagi. Hefði verið betra að vera heima einum eða tveimur dögum lengur og sleppa við að slá niður.

Agi í skólum er nauðsynlegur en ótti ástæðulaus. Nemendur eiga ekki að lifa í stöðugum ótta. Skólareglur eiga að vera einfaldar og það á að vera hægt að fara eftir þeim. Fræðsla í framhaldsskólum er ekki samkvæmt herkvaðningu og ástæðulaust að brjóta nemendur niður eins og gert er við herþjálfun.

Höfundur er fyrrverandi skipstjóri.


Lögfræði og lögleysa

YFIRLÝSING stjórnarflokkanna um að samkomulag hafi náðst um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins vakti upp sérkennilegar yfirlýsingar frá svokölluðum lögspekingum. Hafa þessir lögspekingar, prófessorar, lýst skoðunum sínum á umræddu samkomulagi sem merkingarlausu og til þess fallið að skapa margs konar deilumál innan þjóðfélagsins.

Það sem hefur verið sláandi í þessum yfirlýsingum hinna sérfróðu manna er að þjóð geti ekki verið eigandi í skilningi ákvæðis um eignarétt í stjórnarskránni.

Þá er spurt: Getur ríki verið eigandi að því sem telst eign í skilningi umrædds ákvæðis?

Þarf þá að standa í umræddri grein sem til stendur að bæta við stjórnarskrána að þjóðríkið Ísland sé eigandi að öllum náttúrauðlindum?

Er ákvæðið í stjórnarskránni um friðhelgi eignarréttarins aðeins í gildi fyrir þá sem geta keypt sér sérfræðingaálit lögspekinga með prófessorstitla?

Hvaða rétt hafði íslenska ríkið til að eigna sér 200 sml. efnahagslögsögu?

Hvaða rétt hefur ríkið til að krefjast eignar yfir verðmætum á sjávarbotni fyrir utan 200 sml. efnahagslögsögu?

Eru álitsgerðir lögspekinga með prófessorstitla verslunarvara fyrir auðvaldið í landinu?

Ríkisvaldið á Íslandi hefur undanfarna áratugi tekið sér það vald að skipta sér af náttúruauðlindum. Hefur ríkisstjórn Íslands farið út í það að skipta auðæfum í hafinu sem stjórnin átti ekkert í? Með þeim aðgerðum hindruðu þeir fjölda manna í því að sækja sér lífsviðurværi í hafið.

Því er spurt: Stal ríkisstjórnin auðæfum hafsins og útdeildi á meðal fylgismanna sinna án heimildar eða án þess að hafa rétt yfir þeim auðæfum og svipti þar með pólitíska andstæðinga, er vildu afla sér til matar úr gullkistu sjávarins, lífsviðurværi sínu?

Samkvæmt fullyrðingum lögspekinganna var ekki um eignarrétt ríkisvaldsins að ræða og því ekki um ráðstöfunarrétt þess heldur.

Voru þessar yfirlýsingar lögspekinganna keyptar af útgerðarauðvaldinu?

Svo virðist orðið í samfélaginu sem kennt er við Ísland að lögskýringar séu einnota yfirlýsingar sem aðeins henta þegar hagsmunum ákveðinna aðila innan samfélagsins er ógnað, þ.e. valdastéttinni. Ef málið snertir almúgann og skerðingu á réttindum smælingjanna sem ekki geta borgað spekingunum fyrir álit þeirra þegja þeir þunnu hljóði.

Ekki heyrðist í hinum lögfróðu spekingum þegar stærsta bótalausa eignarnám lýðveldisins fór fram af hálfu ríkisvaldsins. Eignarnám þegar fyrsti lífeyrissjóður landsmanna var hirtur af stjórnvöldum með einu pennastriki. Þeir sem höfðu greitt skilvíslega í áratugi til samfélagsins hið svokallaða Almannatryggingagjald sem var grundvöllurinn að grunnlífeyrisgreiðslum voru sviptir eignarrétti sínum án þess að lögspekingarnir létu frá sér heyra. Af hverju þögðu spekingarnir? Því er fljótsvarað.

Lögspekingarnir njóta góðra eftirlauna og þurfa ekki að vinna sér inn aukaskilding til þess að tóra. Fjöldi þegna lýðveldisins, sem hefur í eftirlaun u.þ.b. 10-15% af eftirlaunum lögspekinganna, þarf að leita sér að tekjum til að ná endum saman en eru þá vegna skerðingarákvæða þjóðnýtingarlaganna sviptir rétti sínum til grunnlífeyris. Lögspekingarnir sem hafa 8 til 10 sinnum hærri eftirlaun þurfa ekki að leita sér að aukabita til að halda lífi en þeir fá greiddan grunnlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins, ölmusustofnuninni, umyrðalaust.

Af framanskráðu er það ljóst að á Íslandi er ekki lýðræði heldur fjármálaeinræði.

Þeir sem ráða yfir fé landsmanna ráða öllum gjörðum og virða ekki rétt samborgara sinna. Lögspekingar eru keyptir eins og hver önnur verslunarvara. Fjármálamenn sem ráða fjölda lögmanna til að hindra að þeir þurfi að sæta viðurlögum vegna óhæfuverka sinna. Ef í hart fer er lögunum breytt í skyndi til að hindra það að fjármálaveldið verði fyrir skakkaföllum af völdum lögbrota sem framin voru.

Yfirlýsingar prófessoranna eða sérfræðinganna sem hafa tjáð sig um eignarréttarákvæði og stjórnarskrána í sambandi við fyrirhugaða breytingu á stjórnarskránni eru allundarlegar. Virðast sérfræðingarnir vera leiguþý auðvaldsins í landinu og geri allt fyrir peninga en ekki að það sé skynsemi í því sem þeir láta frá sér.

Eignarrétturinn er fyrir þá ríku. Fátæklingarnir geta étið það sem fellur af borðum auðvaldsherranna.

Höfundur er fv. skipstjóri


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband