17.7.2017 | 10:43
Eru stjórnvöld þjófar (þingmenn og framkvæmdavald)
Stjórnvöld eru frumkvöðlar að lagasetningu á Íslandi og gæta þess vel að lögin séu svo illa orðuð að hægt er að túlka þau eftir eigin geðþótta. Sá sem hefur yfir nægu fjármagni að ráða og hefur stjórnendur sem leppa sína, og þar með alþingismenn, ræður túlkun laganna til eigin hagsbót sem oftast er andstætt yfirlýstum tilgangi með lagasetningunni.
Þetta framferði stjórnvalda kemur skýrt fram varðandi lög um starfsemi Kjararáðs. Kjararáð var sett á laggirnar og átti að létta af þingmönnum og öðrum stjórnendum lands og þjóðar því vandamáli að ákveða hver laun þeirra skyldu vera en mikill ágreiningur hafði verið í mörg ár um eigin ákvarðanir þessara aðila um laun sín.
Til þess að breiða yfir megintilgang lagasetningarinnar um Kjararáð var fjöldi starfsmanna ríkisins settir undir úrskurð þessa ráðs varðandi laun sín. Reynslan hefur orðið sú að umrætt Kjararáð hefur stundað skipulagðan þjófnað á launum sumra ríkisstarfsmanna allt frá árinu 2007 eins og sannanir liggja fyrir um.
Þegar leitað er eftir því hjá stjórnvöldum hvað varðar túlkun laga um störf Kjararáðs er svarið frá þeim að þeim sé ekki skylt að svara neinu er varðar túlkun laga. Þetta svar fékkst frá ráðuneyti eftir að erindi var sent þangað, samkvæmt skriflegri ábendingu frá þingmanni um það hvet ætti að leita eftir upplýsingum um túlkun á lögum um Kjararáð. Spurningin var: Hvort af hálfu ráðsins (Kjararáðs) væri heimild til að lækka á skipulegan hátt laun ríkisstarfsmanna sem settir hafa verið undir úrskurðarvald þeirra hvað varðar laun.
Sannanir eru fyrir hendi um skipulagða lækkun launa sumra ríkistarfsmanna frá árinu 2007 og nemur lækkunin milli 30% og 40% í september 2016.
Þrátt fyrir að hvergi finnist stafur í lögunum um heimild ráðsins til lækkunar launa heldur skýr fyrirmæli um að ráðið skuli taka fullt tillit til launaþróunar í landinu við úrskurði sína hunsar Kjararáð að svara fyrirspurnum.
Svívirðingin af hálfu þeirra misyndismanna sem skipaðir hafa verið í þetta ráð kristallast í svörum er borist hafa frá ráðinu. Sem dæmi um framferði af hálfu þessara aðila hafa liðið 33 mánuðir á milli úrskurða ráðsins vegna launa sumra starfsmanna þrátt fyrir umtalsverðar hækkanir launa á markaði ríkisstarfsmanna á tímabilinu.
Framferði ráðsins og ábyrgðamanna á ráðinu, þ.e. þingmanna, kristallast í svörum aðila sem allir vísa frá sér ábyrgð á lögbrotum Kjararáðs. Það er viðurkennt af aðilum, sem leitað hefur verið til um svar við því hvort Kjararáð hafi heimild til skipulegrar lækkunar launa ríkisstarfsmanna að eigin geðþótta, að ekki sé að finna slíka heimild í lögum um störf Kjararáðs.
Þar sem ábyrgðaraðilar að starfsemi Kjararáðs vilja ekki taka ábyrgð á ólöglegu athæfi þeirra er skipa Kjararáð er augljóst að sú launalækkun sem orðið hefur hjá ríkisstarfsmönnum af völdum Kjararáðs er hreinn þjófnaður sem ríkisvaldið ber ábyrgð á. Verður það að teljast undarlegt framferði af aðilum (stjórnvöldum) sem eiga að sjá um að þegnarnir fari að lögum sem í gildi eru að þessir aðilar (stjórnvöld) standi í skipulögðum þjófnaði af starfsmönnum sínum.
Þjófastimpillinn verður viðloðandi stjórnvöld (þingmenn og framkvæmdavald) þar til leiðrétt hefur verið hið ólöglega athæfi (þjófnað af launum ríkisstarfsmanna) af hálfu þeirra er skipa Kjararáð.
Reykjavík 17. júlí 2017
Kristján S. Guðmundsson f
v. skipstjóri
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.