Hagstjórnarmistök

Á LANDSFUNDI Sjálfstæðisflokksins í apríl 2007 var eitt af aðaláhyggjumálum formanns flokksins gagnrýni frá pólitískum andstæðingum. Í ræðu formannsins eyddi hann drjúgum tíma í að telja upp það sem talið er hafa farið vel í stjórnaraðgerðum síðustu ára og ekki væri hægt að útleggja sem hagstjórnarmistök.

Hafði formaðurinn mörg orð um kaupmáttaraukningu og bætta skuldastöðu ríkissjóðs o.fl. Háttvirtur formaður minntist einnig á að stefnt væri að því að ellilífeyrisþegar mættu vinna sér inn aukaskilding án skerðingar á greiðslum frá Tryggingastofnuninni.

Í ræðu formannsins var ekki minnst á að stjórn hans og fyrri stjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hafa blóðmjólkað stóran hluta af eldra fólki á síðustu 15 árum. Á þessu tímabili hefur með margs konar skerðingarákvæðum, sem falin eru í lögum um almannatryggingar, verið þrengt að eldra fólki með skerðingum á lífeyri. Auk þess hafa þessir flokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, brotið stjórnarskrána með þjóðnýtingu á fyrsta lífeyrissjóði allra landsmanna sem stofnaður var árið 1946. Þjóðnýting er óheimil samkvæmt stjórnarskrá nema fullar bætur komi fyrir.

Svo snyrtileg var þessi þjóðnýting að hún kemur aðeins til með að nýtast valdamönnum þjóðfélagsins, þ.e. ráðherrum, þingmönnum og æðstu embættismönnum þjóðarinnar.

Þessir hópar þjóðfélagsþegna (æðstu embættismenn) hafa tryggt sér ofurlaun og ofureftirlaun og þurfa því ekki að leita sér að aukatekjum til að eiga fyrir eðlilegri framfærslu í nútímaþjóðfélagi. Þessir menn tryggðu með ákvæði í lögum nr. 117/1993 að greiðslur úr lífeyrissjóðum skerða ekki greiðslur á grunnlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins, Ölmusustofnuninni. Flestir landsmenn fá mjög litlar greiðslur frá lífeyrissjóðum.

Allar tekjur aðrar en greiðslur frá lífeyrissjóðum koma til skerðingar á grunnlífeyrisgreiðslum og öðrum greiðslum frá ölmusustofnuninni. Þessir menn (æðstu embættismenn) með eftirlaun frá 700.000 kr. til u.þ.b. 2.000.000 kr. á mánuði fá greiddan grunnlífeyri umyrðalaust frá TR.

Á þessum tíma sem þeir hafa setið að völdum hafa þeir skattlagt þjóðina árlega um framlag í framkvæmdasjóð aldraðra. Þetta fé hafa stjórnmálamenn notað í annað en skattlagningin gerði ráð fyrir. Þar hefur verið á ferðinni sóun fjármagns til þess að kaupa sér vinsældir og atkvæði í framtíðinni. Lýsir þetta framferði stjórnmálamanna og hversu rotin starfsemi fer fram í Þjóðarleikhúsinu við Austurvöll.

Varla hefur það farið fram hjá þegnum þessa þjóðfélags hvernig pólitíkusar misnota aðstöðu sína sjálfum sér til framdráttar.

Undanfarin ár hefur orðið mikil breyting á útsendingum ljósvakafjölmiðla. Er þetta komið í svipað horf og gerist í Ameríku þar sem dagskrárþættir eru rofnir í tíma og ótíma til að koma að auglýsingum flestum landsmönnum til mikils ama.

Þessi breyting náði fram að ganga í gegnum Alþingi með lagasetningu án þess að getið væri um þetta í fjölmiðlum. Ástæða þessara breytinga var lagasetningin sem mútugreiðslur til fjölmiðlanna gegn því að þingmenn fengju meiri og betri umfjöllun á öldum ljósvakans.

Ekki hefur verið amast við auglýsingum í sjónvarpi frá stofnun þess á meðan auglýsingar voru á milli atriða eða þátta en sú ósvífni að rjúfa fréttatíma og aðra dagskrárliði til að þjóna auðvaldinu er yfirlýsing stjórnmálamanna um að þeir eru falir fyrir peninga.

Í framhaldi af mútugreiðslum þingmanna til fjölmiðla með rýmkun á auglýsingaflæðinu yfir landsmenn samþykktu þeir að múta sjálfum sér með greiðslu úr ríkissjóði til að hindra aðra þegna þjóðfélagsins í að sækjast eftir stólunum sem þeir telja sig eiga. Var það gert með lögum sem takmarka greiðslur einstaklinga og fyrirtækja í kosningasjóði nýrra frambjóðenda og stórauknum greiðslum úr ríkissjóði til starfandi stjórnmálaflokka.

Má líkja þessum aðgerðum þingmanna við mútugreiðslur á bæði borð, sem framferði auðmanna á miðöldum er byggðu rammgerða kastala til að verja óðal sitt. Ekki voru kastalar byggðir til að verja almúgann því eigur þeirra voru utan múranna þótt þeir væru skikkaðir til að berjast.

Forsætisráðherra getur hælt sér af góðri skuldastöðu ríkissjóðs eftir að hafa féflett hinn almenna borgara sem ekki hefur komist að kjötkatlinum sem forsætisráðherrann étur úr.

Auðheyrt var á ráðherranum við flutning ræðunnar að honum var ekki rótt þegar hann lofaði að láta falla af gnægtaborði sínu nokkra brauðmola til handa eldri borgurum í von um að hann lifi af þessar kosningar í ráðherrastólnum og ef til vill eitthvað lengur. Þetta var stórmennska ráðherrans, að bjóða með fölsku kosningaloforði að ellilífeyrisþegum verði heimilt að vinna eftir 70 ára aldur án skerðinga á greiðslum eftirlauna frá Ölmusustofnuninni. Eftirlauna sem launþegar hafa þegar greitt fyrir með greiðslu almannatryggingagjalds í áratugi samkvæmt lögum frá 1946.

Höfundur er fyrrv. skipstjóri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Finnbogason

Takk fyrir góða grein 

Það er afar þarft að halda umræðunni um eftirlaun æðstu embættismanna vakandi.

Sævar 

Sævar Finnbogason, 10.7.2007 kl. 15:44

2 Smámynd: Johnny Bravo

Skemmtilegar samsæriskeningar um blóðmjólkanir og ég veit ekki til þess að þjóðnýting sé eitthvað bönnum... try to keep it real

Johnny Bravo, 15.7.2007 kl. 21:56

3 Smámynd: Ólafur Ragnarsson

Ég segi líka óður pistill.Orð að sönnu

Ólafur Ragnarsson, 24.7.2007 kl. 12:57

4 Smámynd: Sigurður Oddgeirsson

Þyrfti að vera hægt að senda þér e-mail.

Í tilefni greina í Mbl. í dag 27.07.07

Hvernig væri að setja lög sem skylduðu “landeigendur” til að girða land sitt og viðhalda girðingunni. Þá er auðvitað átt við allt landið. Ef ekki þá falli landið undir þjóðlendur.

Sigurður Oddgeirsson, 27.7.2007 kl. 15:46

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband