Vatnsþéttileiki skipa

Í DESEMBER 2006 kom út á vegum Siglingastofnunar Íslands merkilegt rit er varðar öryggismál íslenskra skipa.

Rit þetta heitir "Vatnsþéttleiki skipa" og er eftir skipaverkfræðingana Agnar Erlingsson og Jón Bernódusson.

Höfundum þessa rits var falið að gera úttekt á ákveðnum þáttum er varða öryggi íslenskra skipa. Er um að ræða atriði er talin eru hafa valdið því að fjöldi íslenskra skipa hefur sokkið á síðustu 40 árum og sennilega um lengri tíma.

Þær upplýsingar sem fram koma í umræddu riti sýna að ekki hefur verið hugað að öryggi skipverja þrátt fyrir ábendingar þar um, því ekki hefur verið vilji til að bæta úr eða sjálfstæði landsins er ekki meira en svo að Íslendingar þurfa að hlíta ákvörðunum herraþjóðanna í Vestur-Evrópu eins og fram kemur í skýrslu verkfræðinganna.

Það verður að teljast allharkalega að farið af hálfu opinberra aðila, er tekið hafa sér það vald að setja reglur um öryggisbúnað skipa, að hafa hunsað ábendingar um það sem betur mátti fara. Væri það verðugt rannsóknarverkefni að taka saman hve margir íslenskir sjómenn hafa farist á umliðnum áratugum vegna sinnuleysis ráðamanna þjóðarinnar í málefnum er varða öryggi á sjó.

Í skýrslunni kemur fram að svokölluð vatnsþétt skilrúm hafi ekki verið vatnsþétt í skipum vegna þess að því var ekki fylgt eftir af eftirlitsaðilum. Af því að skilrúm voru ekki þétt megi álykta að það hafi ráðið úrslitum um að skip hélst ekki á floti eftir áfall.

Fram kemur í skýrslunni að umtalsverður munur sé á reglum sem farið er eftir hjá hinum ýmsu flokkunarfélögum og snýr að smíðum og eftirliti með skipum. Er þar komið fram það sem mikið hefur verið rætt til margra ára um, hvernig eftirlit flokkunarfélaga hefur verið og að útgerðir hafi hótað fulltrúum flokkunarfélöga að flytja skráningu skipsins til annars flokkunarfélags ef kröfur um lagfæringar voru íþyngjandi fyrir útgerðina.

Eitt af því sem er athyglisvert við skýrslu verkfræðinganna er nafngift á hinum ýmsu skipshlutum. Er þar mest áberandi að heiti þilfara virðist vefjast fyrir þeim mönnum sem koma að hönnun skipa og samningu á lögum og reglum er varða útgerð skipa. Hefur orðið slíkur nafnaruglingur á heitum hluta á síðustu áratugum sem rekja má til hina fjölmörgu menntuðu manna sem koma með erlend heiti á skipshlutum og reyna að þýða þau en hafa ekki fyrir því að kynna sér hvað hlutirnir heita hjá þeim sem þurfa að nota nöfnin.

Ef vitnað er í skýrsluna kemur fram að heiti þilfara um borð í flutningaskipum sé í föstum skorðum en þegar kemur að fiskiskipum sé nafngiftin slíkur frumskógur að menn vita stundum ekki hvað er verið að fjalla um. Þessi nafnaruglingur er tilkominn frá hinum menntuðu fræðimönnum en ekki sjómönnum. Það var gerður skýr greinarmunur við kennslu í stýrimannaskólanum í Reykjavík, hvað væri aðalþilfar, milliþilfar og efri þilför. Nú með tilkomu þýðingartilrauna fræðimanna er þetta orðið hreinasta bull eins og kemur fram í skýrslunni.

Það sem vekur furðu undirritaðs er það að í skýrslunni er strax eftir formálann kafli á ensku sem er samantekt í stuttu máli á niðurstöðum rannsókna verkfræðinganna á verkefninu. Sambærilega samantekt er ekki að finna á íslensku í ritverkinu og verður að teljast allundarlegt nema þetta sé liður í því að leggja Íslensku niður og taka upp erlent tungumál á landinu.

Skýrslan í heild sinni er staðfesting á því sem haldið hefur verið fram í áratugi og varðar öryggi sjófarenda en ekkert hefur verið aðhafst af hálfu stjórnvalda. Vonandi verður þessi skýrsla sem kemur frá mjög færum fagmönnum til þess að vekja upp nátttröll löggjafans til að gera lagfæringar á ófullnægjandi reglum er varða öryggi sæfarenda og þau hafi manndóm í sér til að hunsa regluveldið Evrópu sem talið er hafa verið dragbítur í sumum tilvikum á úrbótum í öryggismálum sjómanna

Í skýrslunni eru mörg atriði sem ástæða væri til að gera að umræðuefni í blaðagrein en látum þetta vera nóg að sinni.

Agnar Erlingsson og Jón Bernódusson eiga þakkir skilið fyrir greinargóða skýrslu.

Höfundur er fv. skipstjóri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Páll Símonarson

Heill og sæll Kristján Guðmundsson.

Þakka þér sérstaklega fyrir þetta innlegg þitt sem er fróðlegt og umhugsunarvert  fyrir íslenska sjómenn að hafa í huga.

Mér þætti vænt að fá að vita hvar ég get nálgast þessa skýrslu enda ert þú manna fróðastur um þessi mál.

Þakka þér fyrir þetta innlegg þitt og þinn áhuga á öryggismálum sjómanna ekki veitir af í þessum málaflokki nóg er af að taka.

Jóhann Páll Símonarson.

Jóhann Páll Símonarson, 17.8.2007 kl. 14:14

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband